mánudagur, 31. desember 2007

Gleðilegt nýtt ár!!!!!



Kæru lesendur nær og fjær!!!

Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir þau liðnu og vonandi verður árið 2008 jafn skemmtilegt og viðburðaríkt og árið sem er að líða. Megi gæfan fylgja ykkur.

Kær kveðja,
Óli og Ingimar

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg Jól!!!




Kæru lesendur,
gleðileg jól og hafiði það nú sem allra best mín kæru!!!
Hugheilar jóla- og saknaðarkveðjur héðan frá Århus, þar sem við Vaka mín bíðum eftir jólunum með hinu kóngafólkinu í ríki Margrétar Danadrottningar.

Með jólakveðju,

Óli og Ingimar jólabarn, sem er örugglega núna að fara á límingunum af spenningi :)



miðvikudagur, 19. desember 2007

Kominn til útlandsins

Já þá er maður kominn til DK, nánar tiltekið til Odense. Prófin tvö sem ég fór í eru því búin, ég búinn að hrynja í það með skólafélögunum, búinn að vera hjá Degi frænda og Rósu spússu hans í tvær nætur í vellystingum líkt og endra nær og svo komum við Vaka til Odense í gær. Fyrir dyrum standa nú flutningar, stúlkan ætlar að tæma íbúðina sína fyrir jól og við förum því til Árósa á morgun, fimmtudag. Ég get ekki annað sagt en að ég hlakki nú til þessara flutninga og að geta komið sér fyrir í Árósum og farið að undirbúa jólin. Það sem annars er að frétta að ég er farinn að undirbúa nýársfærsluna mína. Hún verður í lengra lagi eins og fyrsta færsla þessa árs þar sem árið verður gert upp með einum eða öðrum hætti.
Ég kveð í bili, ekki fara í Kringluna (nema þið viljið missa vitið, eða svo segir mamma) nema þá á eigin ábyrgð!!!

Kv. Jóli

þriðjudagur, 11. desember 2007

Vitfirring!!!

Ef þú vilt komast að því að það er ekkert að þinni andlegu heilsu, miðað við mjög marga aðra kíktu þá á þetta:

Gúglaðu t.d. Lyftingablogg og/eða kíktu á linkinn hér fyrir neðan

Kreizzzzíness

Nýyrðasmíð


Haft hefur verið samband við orðabókina, og spurt er hvort einhver kannist við orðið Kisutittlingur, kisutittlingur. Ungur maður, 4. ára, sem elur manninn mest á Norðurlandi og 5. hverja viku sunnan heiða, notar þetta orð óspart við vissar aðstæður og segir þá: "þetter er nú meiri kisutittlingurinn".
Orðabókinni er alls ókunnugt um tilurð þessa orðs en biður alla sem heyrt hafa nafnsins getið eða vita hvað það þýðir eru beðnir um að tjá sig um það í athugasemdum á þessari síðu.

mánudagur, 10. desember 2007

Gamla Óla sprorðrennt án nokkurrar fyrirhafnar!!



Stráksi vill helst bara stór stykki, eintóm, þegar hann gæðir sér á últrasterka ostinum Gamle Ole. Sjón er sögu ríkari.

Illur sjóræningi á náttfötum á ferð

Já, maður getur verið töffari...

laugardagur, 8. desember 2007

Heheheh, það er til vistfræðingur sem heitir Rosenzweig (grein á rós - rósagrein). Hann eða hún hefur heldur betur fundið sér starfsheiti sem sæmdi ættarnafni hans, jú eða hennar :) (óskaplega er maður eitthvað karllægur).

Jákvæðni

er dyggð, eða það mætti alla vega ætla miðað við viðbrögðin við lofræðu minni um vistfræði hér um daginn. Nú er ég sem sagt að lesa blessaða vistfræðina og hef ekki skilið alveg við hana (jákvæðnina) en óskaplega er ég samt orðinn þreyttur á öllu þessu hugtakaflóði sem ausið er yfir mann. Ég er því að hugsa um að fá mér rölt í bæinn á eftir og láta jólaandann (ef til vill brjálæðið) veita mér inspírasjón til að halda baráttunni áfram.

Njótið aðventunnar mín kæru!!!

Kv. frá Óla sem alltaf er í skóla

þriðjudagur, 4. desember 2007

Andi kirkjunnar?

mánudagur, 3. desember 2007

Getraun

Af hvaða "stórfljóti eru eftirfarandi myndir?
Þær voru teknar í lok nóvember 2007.


Tekið uppeftir ánni.


Tekið niðureftir ánni.

laugardagur, 1. desember 2007

Hugvekja

Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Nú þegar ég sit og læri fyrir virstfræðipróf haustsins finnst mér það bara gaman (hver hefði trúað því að þessi orð ættu eftir að koma frá mér?). Vistfræðin er flókin vísindi sem þarf að taka inn marga þætti til þess að hægt sé að nota hana til að álykta um framtíð og þróun lífs á jörðinni.
Í haust, vegna þýðingar minnar á skýrslunni um fornleifauppgröftinn í Gautavík í Berufirði og eftir ótalmargar umræður við Dagnýju fornleifafræðing og vini hennar, hef ég líka komist í tæri við fornleifafræðina. Líkt og með vistfræðina finnst mér fornleifafræðin mjög spennandi, en þetta eru ótrúlega ólík vísindi.
Annars vegar er leitast eftir í vistrfræðinni að sjá fyrir hvernig vistkerfi hafa breyst og hvernig þau munu breytast og líta út í framtíðinni. Hvernig þau munu bregðast við t.d. loftslagsbreytingum og hvernig hægt er að nota "hugmyndafræði" vistkerfanna og yfirfæra þau yfir á okkur mennina og gera umhverfi okkar að vistkerfum (Industrial Ecology). Fornleifafræðin hins vegar lítur um öxl, reynir að segja okkur hvernig forfeður okkar lifðu og hrærðust, nytjuðu jörðina og sjóinn.

Hvaða nýju vísindum ég kynnist næst er ekki gott að vita, en ég mæli með að þið staldrið við og njótið þess sem þið lærið á hverjum einasta degi því þegar þeim punkti er náð finniði að þið eruð á réttri hillu!

Lifið heil.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Að sjá ljósið - eða upplifa það

Fyrir ekki svo margt löngu sagði góð vinkona mín mér sögu af því þegar hún fór út að hlaupa um 3 að nóttu (já, rétt athugað, hún er dáldið kúkú). Hún var búin að vera að læra lengi og vantaði að hlaða batterýin fyrir áframhaldandi baráttu. Annar skóþvengur hennar losnaði og þurfti hún því að stoppa og hnýta hann. Var henni þá allt í einu litið upp og við henni blasti ljósið frá friðarsúlunni sem konan Yoko Ono fékk menningarelítuna á Íslandi til að reisa í Viðey (sjá mynd)

Var þá eins og herskarar himnanna hryndu niður til hennar og hún fylltist miklum eldmóði og gleði (sem entist reyndar ekki lengi því hún hringdi svo hálf grenjandi í mig stuttu síðar í von um að ég vorkenndi henni og myndi væla með henni, hún hótaði meðal annars að hætta í náminu. Það gerðist ekki, ég sparkaði aðeins í hana og nú plummar hún sig fint, hefur dregið úr drykkjunni því annars þarf hún að éta hatt sinn 14. des.).

Ég sjálfur hef hins vegar ekki séð ljósið, nema þá í þeim Vöku og Ingimar, en hins vegar var ljósið og birta mér nokkuð hugleikin á ferð minni hringinn í kringum landið sem ég lagði upp í á miðvikudaginn í síðustu viku. Ég keyrði alla leið austur á Norðfjörð þann sama dag og í ferðinni tók ég þessar myndir. Sjáið, njótið og upplifið...


Hekla séð úr vestri í morgunmistri


Brúin yfir minni Jökulsárlóns


Þessi er tekin í Lóninu og má þarna sjá Stokksnesið austanmeginfrá.


Lónið og Stokksnesið


Kvöldsól í Lóni


Kvöldsól við Mývatn

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Naflakusk


Naflakusk getur verið hvimleitur andsk., eða það finnst mér alla vega. Á netslóðinni http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=6707 er hægt að lesa sé til um ástæður þess af hverju naflakusk myndast. Ég geri ráð fyrir að þetta sé meira "vandamál" hjá karlmönnum (alla vega hjá þeim sem farið er að vaxa hár) en konum, nema þær séu með mjög loðinn maga. Fann þess lýsingu á veraldarvefnum: Your typical generator of bellybutton lint or fluff is a slightly overweight, middle-aged male with a hairy abdomen. Ekki slæm lýsing þetta, en þar sem ég er ekki overweight tek ég þetta ekki til min :)
Góðar stundir!!!

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Brennandi áhugi...


Tilefni þessarar blogg-færslu er margvíslegt. Fyrir það fyrsta heyrði ég brot úr útvarpsþætti rúmlega eitt í dag, strax á eftir dánarfregnum og jarðarförum (ef til vill táknrænt) þar sem flutt var viðtal við konu, sem þulurinn sagði svo skemmtilega að hefði brennandi áhuga á helförinni. Hvort þetta sé viðeigandi orðalag læt ég liggja á milli hluta en verð þó að viðurkenna að þetta hljómaði nú eitthvað skringilega í mín eyru.
Annað tilefni þessarar færslu er svo auðvitað að þetta er færsla númer 300 á þessu ári. Í dag líður mér því eins og fegurðardrottningu sem brosir í gegnum tárin af einskærri gleði og hamingju og það sem ég óska mér heitast er að sjálfsögðu "world peace". Þessi ósk mun hins vegar að öllum líkindum aldrei rætast þar sem ég er búinn að segja frá henni opinberlega (held maður megi ekki segja frá óskum sínum). Vil svo við þetta tækifæri þakka öllum þeim sem hafa lesið bloggið mitt, en þeir geta nokkurn vegin hengt sig upp á það (þó ekki í orðsins fyllstu merkingu) að færslur næstu ára verða ekki fleiri en á þessu ári. Alla vega ekki miðað við andleysið þessa dagana!!
Þriðja ástæðan sem mér svo dettur í hug er sú að ég var að klára þýðinguna mína ógurlegu núna um helgina og eitt smáverkefni í dag og því gaf ég mér tíma til að smella inn þessum óskapnaði. Nú er hins vegar komið að smá klukkubloggi, svo ég geti í framtíðinni lesið hjá sjálfum mér hvað á daga mína dreif síðustu vikur.

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið mjög snemma á laugardagsmorgninum 17. nóvember, sótti ég kæra vinkonu mína hana Lilju til þess að taka hana með mér á rjúp norður í Hjaltadal, nánar tiltekið til fyrrum vinnufélaga míns hans Ólafs Sigurgeirssonar. Ólafur þessi er einn af fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar í þættinum Útsvari á RÚV. Leiðin norður gekk hins vegar ekki áfallalaust fyrir sig, þó sérstaklega ekki fyrir hana Lilju. Málið er að Lilja fór í vinnustaðapartý (þó ekki með meizz með sér) kvöldið áður og var á bíl. Ætlaði ekki að fá sér í glas vegna ferðarinnar daginn eftir en vegna þess að hún er dáldið "ginkeypt fyrir vín" (eigið orðatiltæki) gat hún ekki staðist freystingarnar og fékk sér í það minnsta í litlu tærnar. EN til þess að gera langa sögu stutta þurftum við að stoppa í Víðigerði á Víðidal (á malarplaninu) til að Lilja gæti farið út að fá sér frískt loft. Sú ferð endaði með því að það leið yfir hana, hún fékk sár á baki og marði öxl og höfuð. Hún ofandaði greinilega svona greyið að svona fór. Ég hótaði svo að skilja hana eftir á elliheimilinu á Blönduósi ef hún tæki sig ekki saman í andlitinu (sem hún svo og gerði) og var eins og nýsleginn túskildingur eftir einn Sóma á bensínstöðinni á Blönduósi. Ég verð að viðurkenna að þetta var nú frekar skrítin lífsreynsla, að horfa í hliðarspeglinum á þegar líður yfir manneskju en þar sem hún meiddi sig ekki mikið er hægt að segja frá þessu og hlægja líka (mér finnst þetta alla vega frekar fyndið). Veiðiferðin gekk svo bara oggu pínu vel, ég fékk eina rjúpu og svo stoppuðum við Lilja á Pottinum og pönnunni á leiðinni til baka, en þeir eru með útibú á Blönduósi. Það er vel hægt að mæla með þeim stað!!! Þjónustan er góð og maturinn líka og fær því 3* af 5* mögulegum.

Síðasta vika var svo sú síðasta sem ástin mín hún Vaka var á landinu (hún fór aftur út til Odense á sunnudaginn (í gær)). Þessi mánaðardvöl hennar á Íslandi endaði með að verða eldskírn okkar í að búa saman þar sem við vorum allan tímann á T12. Ingimar var svo hjá okkur í viku og ég verð að hrósa Vöku fyrir hversu vel hún tók þeim krass-kúrsi (með öllu því sem fylgir að hafa 4. ára barn "á arminum" allan daginn) og frábært er að sjá hversu hrifinn Ingimar er af henni. Ég gæti alla vega ekki verið hamingjusamari með þau tvö :)

Ætli ég láti þetta ekki bara nægja í bili, er á morgun að fara austur á land til Ömmu á Norðfirði, svo verður haldið til Akureyrar til Magga og Rósu og komið við hjá Stínu frænku og fjölskyldu á sunndaginn. Já það er ljúft að vera í skóla ;)

"Klám", af ráðríki kvenna og svo meira "klám" í tilefni af 299. færslunni á þessu blessaða bloggi





laugardagur, 3. nóvember 2007

þriðjudagur, 30. október 2007

Já maður er á lífi, en notar nú hverja mínútu sem gefst til að læra eða vinna (tvær min fyrir þessa færslu verða að nægja). Stráksi er hérna fyrir sunnan hjá okkur Vöku, litlu fjölskyldunni, og þar sem aðal barnapían (mamma) er að spóka sig í Berlin hefur maður nóg að gera :) Ég hef ekki verið í þessari stöðu frá því ég bjó fyrir norðan, að vera með hann einn allan daginn, og verð ég að segja að þetta er alveg frábært. Auðvitað er gott að hafa múttu og það auðveldar lífið mjög en þetta er alvöru :) Okkur Vöku ferst þetta líka bara vel úr hendi, hún er einmitt með I í afmæli hjá Leif, bróður sínum núna og svo þarf að elda í kvöld (ef þau koma ekki södd úr afmælinu ;) Hér er eldað á hverjum degi, soðinn fiskur í gær, læri á sunnudaginn svo að þetta er hard core!!!

Nú er það hins vegar Gautavíkur-þýðingin sem kallar. Textinn er mjög lélegur á frummálinu (nema ég sé svona lélegur í þýskunni hehehe), setningar sem ná yfirleitt yfir fjórar línur með fullt af aukasetningum og nú er vankunnáttan í fornleifaræðinni farin að segja til sín. Dagný er mér hins vegar innan handar svo þetta reddast, eins og alltaf :)

Góðir hálsar, bless í bili (tvöföldu) og ég hlakka til þegar þessari törn líkur!!!

laugardagur, 27. október 2007

föstudagur, 26. október 2007

295. færslan,

og auðvitað eru það Wulf og Morgenthaler sem fá heiðurinn af því að vera númer 295. Gleðin í sinni sem fylgir þessum stuttu ræmum er hreint með ólíkindum.

þriðjudagur, 23. október 2007

Myndir út og suður frá ferðinni til Odense, Köben og Berlin

Til að sjá útskýringar með hverri mynd þarf að velja albúmið og skoða það online eða velja kommentaboxið niðri vinstramegin.

Þemamyndir...

fimmtudagur, 11. október 2007

Föndrari af lifi og sál

Vegna fádæma undirtekta við síðustu mynd og heillaóska vegna þess með hvaða stórveldi stáksi heldur með í íslensku íþróttalífi ákvað ég að bæta við mynd af honum, að föndra, með að ég held nýjustu tengdadóttur minni. Hann á víst tvær kærustur en hin hefur ekki enn náðst á mynd með honum. Ef ég veit rétt er þetta dóttir kaupfélagsstjórans á Króknum og eins og glöggir sjá fer vel á með þeim skötuhjúum.



Til þess hins vegar að svara þeim gagnrýnisröddum sem heyrðust tengdar síðustu mynd sem birt var af Ingimar með KR-húfuna langar mig bara að segja þetta. 1. KR var ekki í fallsæti, þó svo að fjölgað hafi verið í deildinni. 2. KR-ingar þurfa ekki að lifa við það að hafa unnið bikarinn i knattspyrnu með því að draga vígtennurnar úr andstæðingnum. 3. Það sýnir sig bara að þessi blessuðu börn sem eru með KR-ingnum mínum á leikskóla láta ekki það á sig fá þótt einn sé öðruvísi og haldi með stórveldi í íþróttum í Íslandi og láta ekki einhverja afbrýðisemi koma fram í einhverjum látalætum sem stundum getur plagað þá sem ekki hafa stjórn á afbrýðisemi sinni ;)
Lifið heil, og áfram KR :)

miðvikudagur, 10. október 2007

Mynd af prinsinum í ham á leikskólanum Furukoti, Sauðárkróki


Hann er þarna með KR-húfuna í miðjunni :) ekki slæmt uppeldi þetta hehehe

mánudagur, 8. október 2007

Í útlandinu

Þetta er helvíti magnað, maður er ekki fyrr kominn á erlenda grundu þá fær maður pípandi og uppsöl. Ég hlýt að hafa valið þessa tímasetningu til að geta fengið þjálfaða hjúkrunarkonu og verðandi lækni til að sjá um mig!!! Ég er nú allur að skríða saman eftir allsherjar úthreinsun síðustu 12 tímana svo landið fer rísandi.
Ha' det!!

föstudagur, 5. október 2007

Odense ó Odense

Þá er ég kominn til Odense, til elsku Vöku minnar og því hefur AndVakan runnið sitt skeið, í bili :)

þriðjudagur, 2. október 2007

Þrjár nætur

Nú eru einungis þrjár nætur þar til ég fer til elsku Vöku minnar.
Aðrar fréttir af mér eru þær að ég tók að mér þýðingu á skýrslu um fornleifauppgröft að Gautavík í Berufirði. Skemmtilegt verkefni sem ég fæ auðvitað allt of lítið greitt fyrir, en peningar eru peningar, sama hversu fáir þeir eru :) Ég er líka kominn með leiðbeinanda, hann Ólaf Árnason sem kenndi mér í SEA í vor. Ég er mjög ánægður með það og því er líka á dagskránni að skrifa paper proposal að lokaverkefninu á næstu dögum. Eitthvað er ritgerð í EIA að þvælast fyrir þarna en hún verður tekin með tromi, í síðasta lagi þegar ég kem aftur heim frá útlandinu 20. okt. Já þetta verður langt úthald en langþráð. Auðvitað er stefnt að því að setja reglulega inn myndir af ferðinni.
Myndavélin verður alla vega tekin með, sem og fartölvan, svo þetta ætti að verða leikur einn.

mánudagur, 1. október 2007

föstudagur, 28. september 2007

17. september

Þann 17. september síðastliðinn setti ég inn eina litla dagbókarfærslu sem vakið hefur mikla hrifningu, miðað við kommentin alla vega. Þetta gleður mitt litla hjarta mjög :) Komið hefur í ljós að það sem ég kalla dagbókarfærslu heitir á máli sérfræðinga klukku-blogg/færsla (á vandaðri Íslensku). Ég get hins vegar ekki státað af elstu klukkufærslu allra tíma (enda nýr í bloggheimum) en Dagný er með færslu um hana hér.
Góðar stundir!!!

fimmtudagur, 27. september 2007

"72 fjölskyldur borga bíl útvarpsstjóra"

var yfirskrift fréttar á visir.is 19. september síðastliðinn. Samantekið var fréttin um það að afnotagjöld sjötíuogtveggja fjölskyldna fer í að borga af rekstrarláni bíls útvarpsstjóra, sem er bíll af gerðinni Audi Q7 og ódýrasta týpan er 3.0 TDI® 5 d. 233 hö. 6 g. tiptronic® sjálfsk. quattro® og kostar litlar 7.990.000.- (rétt tæpar 8 milljónir króna). Dýrasta útfærslan er á rétt tæpar 10,2 milljónir.
Lítil sem engin umræða hefur farið fram um þetta í fjölmiðlum landsins og þykir mér það miður því óneitanlega kemur þetta manni spanskt fyrir sjónir. Sérstaklega þegar litið er á arfa slaka dagskrá ríkisfjölmiðilsins, svona fyrir utan eina og eina ódýra öðruvísi mynd eða þætti sem slæðast á skjáinn, þá helst seint á kvöldin því síbyljan frá US and A hefur að sjálfsögðu forgang til að gera okkur áhorfendur heiladauðari en nokkru sinni. Þetta hefur greinilega sín tilætluðu áhrif fyrst við kokgleypum þessar fréttir af glæsibifreiðinni, segjum já og amen, og kyngjum svo!!!

Skuggahliðar mannanna

Fyrir ekki svo löngu síðan, eða 22.8.2007, var fjögurhundruðasta manneskjan á dauðadeildinni (Death Row) í Texas tekin af lífi með banvænni sprautu. Lög um að taka fanga af lífi með banvænni sprautu voru sett sett 1977 en voru fyrst notuð til að ákvarða aftöku Charlie Brooks árið 1982. Á árunum 1819 til 1923 tíðkaðist að hengja fangana á dauðadeildinni og á árunum 1923-1977 var rafmagnsstóllinn notaður. Á tíma rafmagnsstólsins voru 361 fangi tekinn af lífi. Þeir sem hafa horft á The Green Mile muna e.t.v. eftir hversu hrottalegt aftökutæki rafm.stóllinn var og ekki var óalgengt að mistök væru gerð við þá framkvæmd.
Þessar upplýsingar eru fengnar af Death row information síðu The State of Texas, sem ég flæktist inn á þegar fjallað var um 400 fangann á vefmiðli politiken.dk. Það sem einnig er að finna á þesari síður eru upplýsingar um síðustu orð fanga fyrir aftöku, sem um margt eru athyglisverð þar sem mjög margir lýsa yfir hversu trúaðir þeir séu orðnir og að þeir séu auðvitað saklausir (spurning hversu mikið mark er takandi á því). Að lokum langar mig til að benda á er eftirfarandi:

Gender and Racial Statistics of Death Row Offenders

Race

Female Male
Total
White 5 107
112
50.0% 29.6%
30.1%
Black 5 147
152
50.0% 40.6%
40.9%
Hispanic 0 104
104
0.0% 28.7%
28.0%
Other 0 4
4
0.0% 1.1%
1.1%
TOTAL 10 362
372
100.0% 100.0%
100.0%

Auðvitað eru flestir afbrotamannanna svartir, næstir eru hvítir og hispanics eru þarna rétt fyrir neðan. Aðrir virðast svo ekki brjóta mikið af sér í Texas. Ætli þessi tölfræði sé tilviljun eða brjóta svartir bara meira af sér en aðrir kynþættir? Bendi reyndar á að hvítar konur eru jafn margar svörtum sem teknar hafa verið af lífi (hver svo sem ástæðan er fyrir því).

Þetta voru þankar mínir á fimmtudegi, 8 dögum áður en ég fer til Vöku minnar, úti er mígandi rigning og vart hundi út sigandi!!

mánudagur, 24. september 2007

Rétt að klára...

Nú er rétt að klára það sem ég byrjaði að pára á netið í gær. Inspírasjónin eru viðbrögð nokkurra vina G. Lilju við færslu hennar um vandræði gæsaveiðimanna að komast í tún til að murka lífið úr saklausum málleysingjunum. Það er vandræði þeirra veiðimanna sem eiga ekki vini, ættingja eða peninga til að kaupa sér aðgang að gæsalendum. Þetta er alveg rétt hjá henni, og fyrir mína parta er ég ekki tilbúinn til að borga morð fjár fyrir að skjóta gæsir né nokkurn annan fugl.
En hvað með gæsirnar í Reykjavík?
Það að gæsirnar á "túnum" Reykjavíkur séu látnar vaða svona uppi skil ég ekki. Þær eru bara til óþurftar og ó-yndisauka (í mínum huga). Það þarf eitthvað að gera til að stemma stigu við fjölgun þeirra. T.d. er mín hugmynd að gefa út veiðidaga á þær og banna alla umferð á sama tíma, nema þá auðvitað á ábyrgð þeirra sem brjóta útgöngubannið. Þetta myndi hreinsa borgina af fuglaskít sem orðið er allt of mikið af. Spurning hvor íhaldsmenn ættu ekki að koma þessu á framfæri við flokkssystkini sín í borgarstjórn? Þetta myndi á sama tíma leysa vanda veiðimanna eins og G. Lilju sem ekki hefur auðveldan aðgang að túnum landsins. Þetta er alla vega hugmynd

Falco - Jeanny Part1

Vegna þess að það liggur vel á mér í dag (líkt og flesta aðra daga) mæli ég með að þið gleðjist með mér og hlustið á hinn ódauðlega Falco og Jeanny Part1. Ódauðlegt hreint út sagt, pínu tragískt en samt gleðilegt á sama tíma :) Segir kannski margt um minn tragí-kómíska húmör (eða hvernig sem þetta er skrifað)

sunnudagur, 23. september 2007

12...

laugardagur, 22. september 2007

13...

föstudagur, 21. september 2007

14 dagar

Eftir akkurat 14 daga verð ég kominn á danska grundu!!!

fimmtudagur, 20. september 2007

Sugar-ekki dady :)

Þegar Ingimar var hérna síðast var amma hans að búa til eftirmat. Það var súkkulaðimús sem kom í ljós að stráksa fannst ROSALEG GÓÐ. Ég hef aldrei áður séð þetta rólega barn jafn upp tjúnað, hann skipti gjörsamlega um ham. Það var reyndar ekkert skrítið því hann sleikti skálin mjög vel (vildi meina að hann væri eins og sá mikli Þvörusleikir :). Hér er ein mynd gleðinni til vitnis...

Gjöf frá Vöku

Vaka var svo elskuleg að senda Ingimar og mér pakka í síðustu viku. Ég fékk seðlaveski (til að geyma alla peningana mína í ;) og Ingimar fékk svaka fínar grifflur og húfu í stíl



auk pleimókarla sem vöktu ekki litla lukku (búið að opna flesta pakkana)



Takk fyrir okkur elsku Vaka okkar :)

Athyglisvert!!!

Ég rakst á athyglisverða frétt á spiegel.de þar sem fjallað er um myndaalbúm SS foringja sem var í Auschwitz. Myndirnar eru teknar í lok árs 1944 og sýna SS-foringja, afslappaða að njóta lífsins gæða þessa tíma á meðan verið var að murka lífið úr gyðingunum ekki langt frá.
Þessar myndir eru mjög ólíkar þeim sem maður hefur hingað til séð frá Auschwitz, myndir sem Rússar tóku þegar þeir náðu búðunum á sitt vald nokkrum mánuðum seinna, vannærða ungverska fanga sem biðu dauðans. Þessar myndir eru til sýnis núna (yfir 100) á safni í Washington. Firringin er ótrúleg, sem sést á þeim nokkru myndum sem birtar eru á spiegel, fólk í söng og leik með foringjum eins og yfirlækninum Josef Mengele, sem sjaldan leyfði að teknar væru myndir af sér á meðan fýrað var stöðugt upp í gasklefunum.
Þess má geta að lokum að eigandi albúmsins, SS-foringinn Karl Höcker dó árið 2000, þá 88 ára gamall. Hann sat inni í 5 ár eftir að réttað hafði verið yfir honum og öðrum SS foringjum sem höfðu verið í Auschwitz. Einhver myndi nú segja að það væri vel sloppið fyrir fjöldamorðingja. Fyrir þá sem hafa áhuga á að heimsækja búðir þar sem hryllingnum er vel lýst bendi ég á að heimsækja Dachau, næst þegar þið eigið leið um München. Heimsókn sem setur mark sitt á mann og maður hefur gott af!!! Hér er svo ein myndin úr safninu (fyrir þá sem ekki nenna að fletta í gegnum það allt).

"Erholung vom Dienst: Lagerkommandant Richard Bär, KZ-Arzt Josef Mengele, der Kommandant des Lagers in Birkenau Josef Kramer (verdeckt) und der vorherige Kommandant Rudolf Höss" tekið af http://www.spiegel.de/img/0,1020,973125,00.jpg

þriðjudagur, 18. september 2007

Það sem vantaði

Í syrpuna af stráksa vantaði nýja mynd. Gerði það að ásettu ráði, vissi að ég ætti eftir að taka nokkrar (reyndust yfir 100) myndir af honum meðan hann væri hérna hjá mér og múttu. Hér koma 2:



mánudagur, 17. september 2007

Síðustu dagar, eða skv. Vöku svokallað gelgjublogg :)

Föstudagur:
Franz Ferdinand tónleikar, flottir, þegar þeir spiluðu en Jakobínarína - þrílík vonbrigði, voru fullir á sviðinu!!! Sofnað 3 sem var gott, var vakinn 9.
Laugardagur:
Vinna og svo var ég með Ingimar. Helga systir átti afmæli, borðaði köku hjá henni og svo var kjöt í karrý hjá múttu. Sofnaði svo með stráksa þegar hann átti að fara að sofa (ég sofnaði örugglega á undan). Rankaði við mér um 12, fór í sturtu. Ætlaði að kíkja í bæinn á bíl, en þegar ég var kominn að hringtorginu á Suðurgötu snéri ég við, nennti þá ekki lengra :) Var heillavænlegt skref, var vakinn 9 :)
Sunnudagur:
Horft á dvd, farið á kaffihús og svo flogið norður á Krók. Óvenju "þægilegt" að skilja við hann, sem skýrist meðal annars með því að hann var hjá mér í 9 nætur, nýtt fyrirkomulag sem hentar vel (svona áður en hann fer í skóla).
Mánudagur:
Skóli, skvass og farið á skotsvæði við Hafnir. Hrikalega léleg riffilaðstaða en ágæt haglabyssubraut. Vantar samt trappvél (sem er í boði hjá Ósmann á Króknum).

Þetta hafa því verið frábærir dagar, þótt Vöku mína vanti samt sárlega :( En ég hitti hana eftir ekki svo marga daga :)

laugardagur, 15. september 2007

FH (skammstöfun fyrir Fimleikafélag Hafnarfjarðar)

Já nú (eða fyrir nokkrum dögum) hefur verið kveðinn upp úrskurður í máli tveggja leikmanna fimleikafélagsins um hvort þeir megi spila úrslitaleik bikarmótsins í knattspyrnu fyrir núverandi lið sitt, Fjölni, gegn einmitt fimleikafélaginu. Þetta er pínu ruglingslegt en málið er að þeir eru á lánssamningi hjá Fjölni (Grafarvogi) en einmitt FH og Fjölnir mætast í áðurnefndum úrslitaleik. Klásúla er í samningum tveggja leikmanna að þeir megi ekki spila gegn FH mætist liðin í keppni.

En nú að úrskurðinum sem endaði með að verða að þessir tveir leikmenn fá ekki að taka þátt í leiknum. Nú vona ég svo innilega að FH vinni og það verði hægt að nudda þeim upp úr því að þeir hafi ekki þorað að mæta Fjölni með þeirra sterkasta lið, en þessir tveir lánsmenn eru einmitt bestu leikmenn Fjölnis :) Ofan á þetta klúður FH-inga bætist svo að þjálfari þeirra, sem ég held að heiti Ólafur (nafninu til skammar), var með einhverjar fáránlegar afsakanir hvað þetta varðar í fráttablaðinu í vikunni. Eitthvað á þá leið að þetta væri gert með hag leikmannanna að leiðarljósi, væri slæmt ef þeir klúðruðu boltanum fyrir Fjölni sem svo myndi e.t.v. leiða af sér mark fyrir FH. Ef eitthvað er nú langsótt er það þetta.

Mér persónulega er svo alveg sama hvort þetta standi í samningi (reyndar ótrúlegt að íþróttalið setji svona klásúlur í samninga leikmanna á Íslandi), þessir leikmenn Fjölnis eiga að fá að spila svo bæði lið geti leikið með sín bestu lið og að áhorfendur geti þ.a.l. fengið að njóta eins góðs úrslitaleikjar og hægt er (svona miðað við að KR er ekki að spila hann ;)!!!

Ein góð frétt (tekið af mbl.is)

Holdafar unglinga hefur áhrif á frjósemi síðar meir

Holdafar á unglingsárum hefur áhrif á hve mörg börn fólk eignast síðarmeir. Vísindamenn fylgdust með þrettán hundruð finnskum ungmennum, frá árinu 1980, en þau voru þá á aldrinum 3 - 18 ára.

Vísindamenn við háskólann í Helsinki mældu líkamsþyngdarstuðul þáttakendanna þegar þeir voru unglingar. Þeir sem höfðu verið of grannir sem unglingar áttu 10-16 prósent færri börn síðar á ævinni en þeir sem töldust innan eðlilegra þyngdarmarka. Þeir sem töldust of þungir áttu hinsvegar 32-38 prósent færri börn en hinir meðaþungu.

Annar aðstandenda rannsóknarinnar, Dr. Liisa Keltikangas-Jarvinen, sagði við Reuters fréttastofuna að lengi hefði verið vitað um tengsl þyndar og frjósemi hjá fullorðnum. Hinsvegar væri þetta í fyrsta sinn sem sýnt væri fram á að þyngd fólks á unglingsárum hefði áhrif á fjölda afkvæma á fullorðinsárum, óháð þyngd fólks þá.

Í skýrslu vísindamannanna segir einnig að þeir sem voru of léttir, eða of þungir sem unglingar hafi einnig verið síður líklegir til að búa með maka á fullorðinsárum, og gæti það að hluta útskýrt af hverju þeir eignuðust færri börn.

Vísindamennirnir segja niðurstöðurnar benda til að síaukið hlutfall feitra gæti haft alvarlegáhrif á frjósemi fullorðinna síðar meir.

fimmtudagur, 13. september 2007

Þegar unnið er...

Þegar maður situr og vinnur, sérstaklega langt fram á nótt, gefur maður sér oftar tíma til að blogga en ef maður er ekki að vinna. Þetta er kannski bara nokkuð lógískt, kannski ekki? Alla vega held ég að það sé kominn tími til að koma sér í rúmið, annars bulla ég bara eitthvað meira hérna...

miðvikudagur, 12. september 2007

Minn tími er kominn...

Klukkan að verða eitt að nóttu og ég sit við skriftir, sem sagt á mínum tíma :) Ég er að leggja lokahönd á sumarverkefnið mitt (Binna gerði margar athugasemdir við það sem ég er að laga) og á "fóninum" er Franz Ferdinand (flott nafn ef hreimurinn er þýskur). Ég er að fara á tónleika með þeim á föstud.kvöldið (já, þú getur alveg öfundað mig) og ég hlakka mjög til. Það er Dagnýju að þakka að ég þekki þá yfir höfuð og á hún mikið hrós skilið fyrir það.
But now, back to business...

þriðjudagur, 11. september 2007

Hugumstóri riddarinn, með litla hjartað



Meira hvað börn geta verði yndisleg þegar þau sofa. Við þetta hef ég átt að glíma síðust nætur og eftir stjórnlausa baráttu í nótt hef ég játað mig sigraðan. Í kvöld verður búið til fleti fyrir Ingimar á gólfinu þar sem hann mun svofa í nótt og hér eftir. Það er því miður ekki hægt að koma fyrir öðru rúmi fyrir hann inni hjá mér og því verður að grípa til þessa ráðs sem er löngu tímabært. Ég hef aldrei verið fylgjandi því að börn sofi uppí hjá foreldrum sínum því það veldur oft því að allir sofa illa, bæði börnin sem og foreldrarnir. Neyðin rak mig eiginlega út í þetta (vegna plássleysis) en nú er hann orðinn svo stálpaður að hann getur sofið einn á dýnu á gólfinu (með kassa sitthvoru megin við sig svo hann rúlli ekki út á gólf :). Frá og með nóttinni í nótt getum við því báðir hvílst til að hlaða batterýin fyrir orustur morgundagsins. Þær hafa ekki verið fáar síðan Ingimar kom. Orusturnar hafa einkum verið háðar í stofunni á T12 og svo uppi á lofti. Þar hafa alls konar forynjur, tröll, galdrakerlingar og hugumstórir prinsar riðið um héröð. Hið góða hefur að sjálfsögðu alltaf sigrað að lokum, þótt hugumstóra riddaranum (Ingimar, sem skaffar litla hjartað) verði ekki alltaf um sel þegar mótleikararnir (mamma eða ég) verðum of ógurleg í leik okkar. Hér verður að taka fram að riddarinn hugumstóri, en með litla hjartað, er sá eini sem klæðist búningi og því er það einungis ímyndunarafl hans sem gerir okkur ógurleg.
Það verður ekki annað sagt en að stráksi sé varkár að eðlisfari :)

sunnudagur, 9. september 2007

Chris Cornell - Black Hole sun

Chris Cornell


Ég fór á tónleika í gærkvöldi. Guðný frænka bauð mér með sér og strákunum hennar á Chris Cornell í Laugardalshöll. Það er óhætt að segja að ég var bara mjög spenntur fyrir þá, enda þarna á ferð söngvari Soundgarden, hljómsveitar sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér (þeirra þekktasta lag Black hole sun ætti að birtast á blogginu líka). Ég verð að viðurkenna að ég þekkti svona 1/4 laganna sem tekin voru, töluvert minna að margir aðrir sem þarna voru og sungu með öllum lögunum, en þvílíkt stuð. Til þess hins vegar að koma því frá þá voru þetta hreint út sagt frábærir tónleikar. Stemmingin var með afbrigðum góð, Cornell stóð undir væntingum með sína rosalegu rödd (söng samfleitt í 2 1/2 klst), sást varla áfengi á nokkrum manni og aldursdreifing áhorfenda var mjög dreifð og gaf það tónleikunum annan og skemmtilegri blæ en ef einungis hefðu verið unglinar á þeim. Ég endurtek, frábærir tónleikar, sem ég fæ seint þakkað Guðnýju frænku fyrir að hafa boðið mér á :)

laugardagur, 8. september 2007

Le petit prince

Ég er búinn að vera að sameina í eina tölvu allar þær myndir sem ég á á stafrænu formi. Flestar eru af Ingimar, eins og við mátti búast. Hér koma nokkrar þeirra, allt frá því að hann var pínku ponsu.

Jólin 2003

Sumarið 2004

Feb 2005

Júní 2005

Des 05

Maí 2006

mánudagur, 3. september 2007

sunnudagur, 2. september 2007

Elvis - 30 ár frá dauða kóngsins


Á þessari mynd er vitnað í orð John Lennon "Before Elvis there was nothing".
Á mínu æskuheimili þóttu þetta orð að sönnu. Pabbi var þvílíkur aðdáandi að það hálfa hefði verið nóg, Elvis var mér sem uppeldisbróðir (sem ég þekkti samt aldrei persónulega). Þegar Elvis kom fyrst til landsins (gefur að skilja tónlistin hans) slógust menn um hvort hann væri góður eða ekki. Pabbi vildi nú aldrei viðurkenna að hann hafi tekið þátt í því.
Þessi smá pistill er ritaður vegna þess að fyrir nokkrum dögum voru 30 ár frá dauða kónsins, eða alla vega frá því að tilkynnt var að hann væri látinn. Margir trúa því reyndar að hann sé enn á lífi, en fólk deyr víst ekki á meðan það lifir í minningum fólks.

Síðasta vika í orðum og myndum


Vaka mín fór fyrir tæpri viku síðan. Hér er mynd af Düsenjäger sem tekin var af bílastæðinu á Keflavíkurflugvelli þann dag. Það er greinilegt að herinn (hvers lenskur sem hann er) er ekki alveg farinn. Einhverjar hundakúnstir í gangi.

Eftir að hafa horft á eftir henni í gegnum tollinn fór ég Krísuvíkurleið vegna þess að ferðinni var heitið í Grímsnesið. Maggi og Rósa voru þar í bústað. Leiðin er rosalega falleg en vegurinn er rosalegt þvottabretti. Ég hélt bara að bíllinn minn myndi ekki hafa þetta af. Fyrri myndin er af gamla skólanum í Krísuvík og sú seinni af Krísuvíkurkirkju.





Í gær fór ég með Dagný, Warsha og Ravi til Keflavíkur. Við ákváðum að kíkja á Ljósanótt. Það var bara ágætt, fundum mjög fínan pöbb (Írskan) þar sem allir nema ég (the designated driver) gátu hlýjað sér á guða veigum. Það veitti nú ekki af vegna vosbúðar. Eitthvað eru Suðurnesjamenn nú slappir í landafræðinni. Á einu húsi bæjarins var plakat með fánum þjóðlanda allra íbúa bæjarins. Þar rak Ravi (sem er frá Mauritius - ísl. Máritíu eða eitthvað svoleiðis) augun í að það fór ekki saman nafn og fáni. Máritanía og Máritía eru jú ekki sama landið.
Þetta var annars ott kvöld í alla staði :) Það þarf nú samt að vera betra veður til þess að ég leggi leið mína aftur á Ljósanótt.