sunnudagur, 31. ágúst 2008

Varaforsetaefni repúblikana

heitir Gov. Sarah Palin.
Haft hefur verið eftir henni að hún trúi ekki að lofslagsbreytingar séu af manna völdum!
(heimild: http://sikunews.com/art.html?artid=5345&catid=19)

Á sömu vefsíðu er greint frá ótta sænskra vísindamanna um að metan sé farið að losna úr sífreranum í Síberíu í meira mæli en áður var talið.
(heimild: http://sikunews.com/art.html?artid=5347&catid=19)

föstudagur, 29. ágúst 2008

Besta kaffi í Reykjavík!!!


Og þótt víðar væri leitað. Ég var að klára besta kaffi sem ég hef smakkað lengi! Það var Americano, keyptur á Kafé d´Haiti sem er smá-kaffihús staðsett í Tryggvagötu, í næsta húsi við Crua Thai (nær miðbænum). Ég veit ekki opnunartímann en það er alla vega opið þar yfir miðjan daginn. Kaffið er Fair Trade! Endilega verslið ykkur kaffi þarna, það er vel þess virði.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Verðbólgan..

mælist núna 14,5%. Það mun vera hæsta verðbólga sem mælist á Íslandi síðan 1990.

Smáborgarinn ég...

Menntamálaráðherra fór ásamt ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins og mökum til Peking að hvetja strákana okkar (og aðra keppendur líka). Þetta kostaði 5 millur. Hún fór nefnilega tvisvar út. Hefði ekki verið nóg að borga fyrir opinberu starfsmennina en ekki makana?

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Ólympíuæði

Í tilefni af því að við, Íslendingar, erum þriðja sigursælasta þjóð Ólympíuleikanna, miðað við höfðatölu auðvitað þá langar mig að benda á nokkrar "íþróttagreinar" sem keppt hefur verið í á ólympíuleikum en eru ekki lengur keppnisgreinar. Þar eru nokkrar greinar sem við gætum örugglega einnig gert garðinn frægar í - og unnið jafnvel gull (sem er auðvitað krafan, sama hversu lítil þjóðin er!!!).
Reyndar eru þetta allt greinar sem við Íslendingar getum verið góð í, vegna þess hversu "bezt í heimi" við erum:
  • 100 metra sund sjómanna með frjálsri aðferð (sjóstakkasund tíðkaðist á árum áður á sjómannadaginn) - síðast keppt í árið 1896
  • Hindrunarsund - síðast keppt í árið 1900
  • Dúfuskotfimi - með lifandi dúfum - síðast keppt í árið 1900
  • Næst er það kraftlyftingar úti um allt (mín þýðing). Til nánari skýringar sjá mynd! - síðast keppt í árið 1904
  • Skotfimi með byssum notuðum til einvígja (kannski lítlar líkur á að við ynnum þetta, enda friðsemisþjóð) - síðast keppt í árið 1912
  • Tvíhent spjótkast. Okkur gæti alla vega ekki gengið ver í þessari íþrótt en spjókasti almennt - síðast keppt í árið 1912
  • Reipitog. Öruggur sigur, við erum jú sterkust í heimi! - síðast keppt í árið 1920
  • Kaðlaklifur. Bókað gull þar - síðast keppt í árið 1932
Svo mætti bæta við íslenskri glímu. Við hlytum að vinna hana, hún er nú einu sinni kennd við okkur!

ÍSLAND - BEZT Í HEIMI!

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Mengun

Já, við erum meira að segja eftirbátar Kínverja (þegar þeir sýna sparíandlitið) hvað mengun varðar þessa dagana. Við getum reyndar kennt restinni af Evrópu um í þetta skiptið :) en stöndum okkur "rosalega" vel líkt og fyrri daginn Við búum jú á svo "hreinu" landi!
(heimild Vísir.is)

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Uppeldi!


Ingimar: "Hvoru megin er KR-merkið?" (á KR-buningnum)
Pabbi hans: "Vinstra megin"
Ingimar: "Af hverju?"
Pabbi hans: "Vegna þess að það er þar sem hjartað er!"

Já, uppeldið er í fullum gangi, hann mun halda með KR. Og hana nú!

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Vestmannaeyjar

Þá er maður kominn úr Eyjum (komumst þaðan í gær). Við unglingarnir höfðum það fínt, Vaka lappaði upp á þá marga og var svo að fram kominn eftir þessa 24 tíma vinnutörn að hún svaf í rúmlega hálfan sólarhring. Myndir koma von bráðar :)