mánudagur, 21. maí 2007

Pælingar

Ég kíkti til Guðnýjar frænku og Ingólfs í morgun þegar ég var að bíða eftir að koma bílnum mínum á verkstæði. Það var nú ekki mikið að drekanum, þurfti bara aðeins að herða á bremsudælunum. Við ræddum heima og geima, og Guðný sagði mér frá grein sem hún hafði lesið, þar sem í stuttu máli var komið með þá kenningu að vegna þess að karlmenn eru ósjálfbjarga (þá er talað um þá sem ráða í dag, pólitíkusar um heim allan í kringum og yfir fimmtugt), ósjálfbjarga er meint að þeir sjá ekki um föt sín né heimili, þurfa varla að hugsa um líkama sinn heldur, þá geti þeir ekki lengur sett sig í spor náttúrunnar, tekið tillit til hennar og horft á hana sem eitthvað annað en hlut sem er einskis virði nema hann sé nýttur. Þeir nýta hana (náttúran er kvenkyns), arðræna og nota eins og þeir vilja. Á sama tíma heyja þeir stríð til þess að fá útrás fyrir karlmennsku sinni og það bitnar á jörðinni og konunum (gæti verið samasem merki þarna á milli). Ég verð að segja frá á þessu stigi að frænka mín er í meistaranámi í kynjafræði, og skýrir það um margt þetta umræðuefni :) Fyrir mér er þetta mjög góð og athyglisverð kenning. Erfitt er auðvitað að finna samanburð, land, þar sem konur hafa ráðið í gegnum aldirnar (það land er jú ekki til) og því er e.t.v. hægt að hrekja þessa kenningu á þeim forsendum, en samt ekki. Karlar hafa ráðið frá örófi alda, stjórnað með góðu eða illu, nýtt og herjað og konur hafa, með fáum undantekningum, verið leikföng í höndum hinna "miklu" manna. Það að yfirfæra kúgun kvenna yfir á þá kúgun sem við beytum og höfum beytt náttúruna er fyrir mér rökrétt. Jörðin og náttúran eru kvenkyns, oft nefnd móðir. Þar er tengingin komin. Landslag er oft persónugert og því lýst eins og kvenlíkama með sínar kúrvur og fallegu form.
Hvað er hægt að gera, breytist viðhorf mannsins til konunnar/náttúrunnar einhvern tíma? Er von? Í samræðum okkar í dag kom fram að Guðný telur að viðhorf karlmannsins til kvenna/náttúrunnar, mun ekki breytast fyrr en konan sjálf breytir sínu viðhorfi til kynsystra sinna. Ef ég skildi hana rétt þá á það við þá kynímynd sem konur hafa ýtt undir í gegnum árin með háttum sínum og gjörðum (endurtek, ef ég skil hana rétt). Ábyrgðinni er hins vegar ekki varpað yfir á konurnar, heldur vil ég meina að þeim hafi með miklum þrýstingi verið þröngvað til þess að fara á þessa braut, braut eylífrar og ótakmarkaðrar fegurðardýrkunar.
Að mínu mati erum við þá komin að kjarna málsin. Til að bera virðingu fyrir öðrum þarftu að bera virðingu fyrir sjálfum þér. Þegar því stigi hefur verið náð að karlmenn bera virðingu fyrir konum og konur á sama tíma bera virðingu fyrir sér (þær bera virðingu fyrir körlum) þá munu hlutirnir breytast en hvenær það mun gerast veit ég ekki.

2 ummæli:

dax sagði...

skrifa svarpistil á bloggið mitt á eftir :)

Nafnlaus sagði...

Jæja, legg orð í belg Óla. Þessi deila um menningu-náttúru og karlmann-konu er búin að standa í nokkra áratugi í mannfræðinni og þegar ég byrjaði í henni í Sverige á sínum tíma var allt á fullu (um 20 ár síðan) og maður las bók eftir bók með titlum eins og Is Man to Woman like Culture is to Nature í ýmsum útfærslum - og deilan stendur enn og mun seint leysast og nú er hún farin að færa sig yfir í aðrar greinar, sérstaklega eftir að kynjafræði komu til sögunnar sem eru jú þverfagleg í eðli sínu. Dax segir að kenningarnar séu einföldun á raunveruleikanum, hann er alltaf miklu flóknari og þar er ég sammála en af því kenningar geta aldrei fangað raunveruleikann nema í einfaldri og táknrænni mynd má segja að karlmaðurinn geri konunni það sem menningin geri náttúrunni; nýti hana og noti og í mörgum tilfellum arðræni hana. Kyn orða passar í sumum tungumálum við þessa heimsmynd, stundum ekki. Í sumum samfélögum er meiri harmónía í samskiptunum, sumum ekki en í kapítalísku samfélagi er arðrán oftast endir mála og nú stöndum við, sem lifum í hinum vestræna heimi, frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til þess hvort við viljum eða getum haldið svona áfram...