fimmtudagur, 27. mars 2008

"Skilja við ömmu og afa auk pabba" - Frétt af mbl.is í dag

Við skilnað foreldra veikjast tengsl barnsins við föður sinn og föðurforeldra og virðist sjaldgæft að föðurleggur komi í stað móðurleggs þegar móðurættin veitir lítinn stuðning, skv. umfangsmikilli nýrri rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, á aðlögun og líðan 18 ára ungmenna í kjölfar skilnaðar.

Minni tengsl við föðurættina má m.a. sjá af því að þeir sem reynt höfðu skilnað töluðu sjaldnar við föður sinn og hans foreldra en hin ungmennin gerðu, leituðu síður til þeirra og voru ólíklegri til að telja þau til nánustu aðstandenda. Þetta skýrir Sigrún með sterkri stöðu móðurinnar í lífi barnsins, sem rækti meira tengslin við sitt fólk en tengdafólk. Það mynstur verði svo skýrara við skilnað.

Aðspurð um hvernig megi skýra það að meiri þátttaka feðra í barnauppeldi hafi ekki skilað jafnari ábyrgð, segir Sigrún niðurstöðurnar hafa komið á óvart en mögulega liggi þetta í ólíkum hlutverkum foreldranna. Þótt pabbinn sé mikið með börnin sé hann oft að leika við þau en móðirin taki að sér ábyrgð og stjórn.

Pabbinn ósýnilegur

Ein af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir ungmennin sem reynt höfðu skilnað foreldra var hvort þau teldu þar einhverjum um að kenna. Af þeim sem það gerðu nefndi skýr meirihluti, 87%, föðurinn sem sökudólg. Til samanburðar kenndu aðeins 3% móðurinni um.

Aðspurð um hver hefði sagt þeim frá skilnaðinum sagði þriðjungur foreldrana hafa gert það í sameiningu og fjórðungur að móðirin hefði gert það. Í handriti að skýrslunni, sem 24 stundir hafa undir höndum, er bent á að tengsl geti verið á milli þess og að föðurnum sé kennt um skilnaðinn. „Draga má þá ályktun að ósýnileiki föður í sjálfu skilnaðarferlinu ýti undir hugmyndir barna um hann sem „sökudólg“, ekki síst þar sem móðir ber jafnframt mesta ábyrgð og tekur frekar að sér útskýringar.“

Þá kemur fram að þótt fráskildu foreldrarnir hefðu flestir hafið aðra sambúð þegar könnunin var gerð voru feðurnir líklegri til að skipta oftar um maka og eignast börn í seinni samböndum. Telja höfundar að þetta geti veikt stöðu föðurins í huga barnsins enn frekar.

Þarf meiri fræðslu um skilnaði

Til þess að draga úr neikvæðum áhrifum skilnaðar á börn, leggja skýrsluhöfundar til að efld verði fjölskyldufræðsla fyrir verðandi foreldra og að þeir foreldrar sem sækja um skilnað fái sérstaka fræðslu um hvernig best sé að standa að málum svo að skilnaðurinn hafi sem minnst áhrif á börnin.

Að lokum er lagt til að þeir foreldrar sem hvað erfiðast eiga með að leysa úr sínum málum fái til þess aðstoð og að börn þeirra fái sérstakan stuðning.

Í hnotskurn
Skýrslan „Aðlögun og líðan ungmenna í kjölfar skilnaðar foreldra,“ er eftir Sigrúnu Júlíusdóttur, Jóhönnu Rósu Arnardóttur og Guðlaugu Magnúsdóttur. Hún verður gefin út á næstu dögum af Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd í HÍ. Notaðir voru spurningalistar og var úrtakið 1200 framhaldsskólanemar. Svarhlutfall var 71,2%.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Síðbúið páskablogg :)

Já þá er páskarnir liðnir, maður er búinn að reyna á það enn einu sinni að öl er böl, en einhvern vegin gleymir maður því alltaf á milli þess sem maður fær "sér einum" of mikið. Reyndar er raunarsögu (mánudagsins síðasta) því um að kenna að ég borðaði ekkert á leiðinni heim úr bænum, því er note to self alltaf að koma við á Pizza-King og fá sér eina 12". Þetta frí er annars búið að vera alveg frábært. Vinir mínir frá Tübingen í Þýskalandi, þeir Stephan (Stebbi) og Niels eru búnir að vera tíðir gestir hjá okkur Vöku í mat. Mikið er búið að skrafa og láta vitleysislega, og ég verð að hrósa henni Vöku minni fyrir frábæra tilburði í Þýskunni. Það er hreint ótrúlegt að hún hafi aldrei áður talað Þýsku af neinu viti. Hún er einfaldlega náttúrutalent þessi elska :) Við fórum svo með þeim félögum í bíltúr á mánudaginn (þynnkudaginn), ég svaf fyrsta hluta leiðarinnar en frá Búðum var ég með rænu og svo eftir vöfflurnar og kaffið á Ólafsvík á ömmu og afa Vöku reis landið hratt og ég var hinn brattasti þegar heim var komið hehe. Afi Vöku, hann Elinbergur, bað okkur svo vinsamlegst að koma sem oftast því hann fengi aldrei svona gott með kaffinu nema þegar gesti bæri að garði. Eitthvað held ég nú að þar sé um ýkjur að ræða, en hann getur treyst á að við komum sem oftast, það er alltaf jafn gaman að koma til hans og Heiðu.
Ég vona að þið hafið haft það sem allra best mín kæru, ég set bráðum inn myndir úr ferðinni um Snæfellsnesið, sem virðist mér vera óendalegt ljósmyndaefni :)

mánudagur, 17. mars 2008

Spam-komment

Þá er það fyrsta komið í höfn, var sett inn við síðustu færslu. Athyglisvert að einhverjir skuli vera að stunda þessa iðju.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Endurvinnsla - réttur trjánna



mánudagur, 10. mars 2008

Híhí

laugardagur, 1. mars 2008

Úti á landi

Stjörnuspá dagsins af mbl.is:
Vatnsberi: Losaðu þig við alla óþarfa sviðsmuni. Þeim mun hæfileikaríkari sem þú ert, þeim mun minna aukadót hefurðu þörf fyrir. Þjálfaðu það sem skiptir máli.

Ég veit nú ekki nákvæmlega hvað þetta þýðir - en tek þessari ábendingu með brosi á vör :).

Ég er annars staddur á Ólafsvík - Snæfellsnesi. Vaka er hérna á læknavakt yfir helgina og það er vægast sagt búið að vera nóg að gera hjá henni. Ég vona nú samt að hún fái frið til þess að slappa aðeins af - svo hún verði nú ekki of þreytt í næstu viku!

Eigiði svo góðan bjórdag elskurnar mínar :) og áframhaldandi góða helgi!