miðvikudagur, 31. janúar 2007

Einn góður


þriðjudagur, 30. janúar 2007

Hugleiðingar um handbolta, pólitík og afhommun

Sælt veri fólkið,
draumur Íslendinga um sigur á þessu blessaða handboltamóti er úti. Það gengur bara betur næst!!!.
Mikið fjör hefur verið í pólitíkinni um helgina. Margrét nokkur Sverrisdóttir hefur sagt skilið við sinn flokk, þá Frjálslyndu, og veit ekki núna hvað hún á að gera. Ganga í annan flokk... Það kemur víst allt í ljós. Annars er ég mjög ánægður fyrir hennar hönd. Pabbi hefði stutt hana í þessu vafstri sínu, enda var hann mikill fylgismaður hennar og hefði kosið hana í næstu kosningum. Ég vona bara innilega að hennar fyrri flokkur muni tapa sem feitast af þessu (jafnvel eins feitt og Guðjón Arnar Kristjánsson er núna) og að þeir gráti hana, þó ekki sé nema í laumi!!!
Það sem mig langar hins vegar að gera að aðal umræðuefni þessa pistils er koma eins frægasta afhommara heimsins hingað til lands. Hann var hérna um síðustu helgi og fór það því miður framhjá mér. Frændur mínir í hvítasunnusöfnuðinum í Keflavík gleymdu greinilega alveg að láta mig vita. Hann var hér á landi á vegum þeirra. Bömmer þetta. Þessi blessaði afhommari heitir Alan Chambers og er víst góður í að afhoma (hlýtur líka að þýða aflessa, væri annars gaman að komast að því). Alla vega var frétt í fréttablaðinu í dag, 30. janúar 2007, um þennan mann og hvað hann gerir. Að því hversu góður hann er að afhomma, þá afhommaði hann sjálfan sig fyrir margt löngu. Mikið afrek það þykir mér :) Mér finnst bara hvað þetta varðar ekki öll vitleysan eins!!! Að halda og trúa því að hægt sé að afhomma fólk, þá hlýtur líka að vera hægt að breyta gagnkynhneigðum í samkynhneigða, er það ekki (þá meina ég án þess að þær kenndir séu fyrir hendi)? Þetta er svo mikið BULL að ég á bara varla til orð. Mér finnst þetta bara lýsa heimsku þeirra sem trúa þessu meira en heimsku þeirra sem trúa þessu bulli. Að lokum langar mig til að benda ykkur á linkinn á Baggalút hér til hægri. Þeir eru snillingar!!!
Kv. Óli

mánudagur, 29. janúar 2007

föstudagur, 26. janúar 2007

Tvöhundruðaðasta heimsóknin

Þá hafa 200 einstaklingar skoðað síðuna, sem gefur raunsannari mynd af hversu margir hafa skoðað en ekki hversu oft þeir hafa valið síðuna. Ég vil hins vegar þakka ykkur fyrir innlitin, kommentiði endilega, rífisti og skammist því það er svo gaman :)
Kveðja á föstudegi,
Óli

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Texti

Þessi lagatexti er fyrirmynd fyrirsagnar síðustu færslu. Alveg ágætis lag hér á ferð. Nú þarf ég bara að læra að setja inn spilara á bloggið til að þið getið heyrt það.


Eitt lítið tár læðist niður kinnina þína
einmanna vinalaus lítill í hjartanu og smár
brosið þitt gægjist samt alltaf í gegn um tárin
manstu hvað þú sagðir einu sinni við mig

Geta pabbar ekki grátið
geta pabbar ekki grátið

Allir að dást að því hvað þú sért stór og sterkur
kinkað kolli og klappað hraustlega á bak
ef þú svo dettur og meiðir þig máttu ekki gráta
það er sko merki um dugleysi og aumingjaskap

Geta pabbar ekki grátið
geta pabbar ekki grátið

Flytjandi: SSSÓL

Kv. Óli

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Karlmenn og grátur

Daginn,
hvernig er það. Nú voru fréttir að enda og sagt var að John Kerry hefði grátið þegar hann tilkynnti að hann byði sig ekki fram til forseta us and a í næstu kosningum. Er karlmannlegt að vatna músum? Hvað þá á almannafæri? Kannski vitið þið það?
Mín skoðun er alla vega sú, vegna þess að ég er svo soft :) að það er í lagi, sýnir ótrúlega styrk og karlmennsku. Þess vegna hef ég sett þetta á listann yfir áramótaheitin, ég ætla að vera sígrátandi við öll tækifæri.... Það myndi þá kannski líka kenna syni mínum honum Ingimar að pabbar gráta líka, en hann segir að þeir geri það sko EKKI. Hvaðan ætli hann hafi þá karlrembu??? Alla vega ekki frá mér.
Hvað finnst fólki annars um kosningarnar í vor, ég er orðinn svo spenntur að ég get ekki beðið eftir að leðjuslagurinn byrji (leðja og slagur er eitthvað svo spennandi). Þetta leggst mjög vel í mig og ég vona innilega að baráttan verði sem hatrömmust og opinber slagsmál væru fín. Árni Johnsen gæti þar m.a. sýnt hvað hann lærði í steininum, þ.e. annað en að höggva í grjót.
Að lokum hvet ég alla til að kaupa sér sápukúluvél til að hafa í næsta partýi, veit ekki hvað Helga systir segir um það fyrir afmælið mitt, en ég er að reyna að telja hana á að þetta sé málið. Reynir mágur er örugglega sammála mér :)
Ég segi ykkur svo bráðum frá plönum mínum um heimsyfirráð eða dauða (alla vega að leggja HÍ að fótum okkar D).
Geðveikar kveðjur í bili,
Óli

mánudagur, 22. janúar 2007

Mánudagur!!!

Sælt veri fólkið,
Þá er kominn mánudagur og fyrir liggur vika með alveg ótrúlega fáum verkefnum. Ástæðan hins vegar fyrir þessari færslu er skemmtanalíf helgarinnar. Málið er nefnilega að ég veit vel að þeir sem ég þekki og eru orðnir ráðsettir öfunda þá sem eru lausir og liðugir af því hversu mikið þeir geta stundað næturlífið. Enda mjög skiljanlegt. Svo er auðvitað einhver öfund í hina áttina, en hún er nú bara efni í aðra færslu.
"Skemmtanirnar". Á meðan margir slöfruðu í sig þorramat á föstudagskvöldið bauð Helga systir í mat, spænskar tortillur með öllu tilheyrandi (og ekki saknaði ég þorramatarins). Þegar Dagný duglega var svo búin að læra skeiðuðum við í fornleifafræðipartý/vísindaferð. Það var alveg ágætis skemmtun þar sem fornleifafræðingar framtíðarinnar drukku bollu með spirtus fortis og létu vel af. Ótrúlegir naglar þarna á ferð!!! Við þessi eldri (D og ég) héldum okkur auðvitað bara við bjórinn. Þegar hins vegar gítarinn var tekinn upp var í snarhasti ákveðið að yfirgefa samkvæmið og halda niður í bæ (stál og hnífur er ágætt í útilegunni og á heima þar). Farið var á Hlölla og maður renndi niður einni sveittri langloku, sem gerði það að verkum að lítil áfengisáhrif fundust það sem eftir var nætur, en bjargaði laugardeginum frá þynnku dauðans. Mæli með þessu fyrir þá sem eru ráðsettir og hafa gleymt svona lykilatriðum!!! Þá erum við komin að lykilatriði þessa kvölds. Bærinn (og þar með allir staðir sem við fórum á) var SUBBULEGUR í einu orði sagt. Það flæddi upp úr klósettunum á Celtic, þeim annars ágæta stað. Þess ber þó að geta að ekki sást til neins að létta af sér yfir borðin og stólana niðri. 11 var svo sem laus við portkonuviðskipti í þetta skipti en var útúrreyktari en venjulega. Þetta átti svo alla aðra staði sem við fórum á. Það var því farið snemma heim (svona um 3 hehe).
Laugardagskvöld. Eftir júróvisjón héldum við D svo aftur niður í bæ. Ég ætla ekki að ræða meira um þá "skemmtun" í bili, m.a. vegna þess að hin brjóstagóða gyðja Heiða komst ekki einu sinni áfram, þó svo hún hafi verið sú eina sem hélt lagi (ekki það að lagið var kannski ekki mjög júróvisjonlegt, en það var Lordí heldur ekki). Hins vegar komst eitthver Brink áfram, sem missti næstum í buxurnar þegar hann reyndi að syngja, söss...
Ég veit ekki alveg hvernig skal lýsa miðbænum að nóttu til um helgar þegar magn hormóna er mjög hátt og dýrslegt eðli fólks kemur bersýnilega í ljós. Ég ætla þó að reyna. Fyrst dettur mér í hug hópur úlfa sem nálgast bráð sína með lævísi og aðgætni. Hópar testósteronklumpa koma inn á staðina, skima og skanna, dreyfa sér um lókalið og bera kennsl á tilkippileg kvendýr sem senda frá sér ferómón (ef ég man rétt) í réttu magni og eru því að beiða. Sumir nota hins vegar kattardýraleiðina. Þeir eru einir á ferð, nálgast bráðina lævísir eins og úlfarnir en fara sér hægar. Bakland hópsins er ekki fyrir hendi og því þarf að fara varlegar. Mér sýnist þetta reyndar vera ágæt leið til árangurs. Ef menn kunna líkamstáknmál markaðarins, sulla kannski smá bjór yfir fórnarlambið og þurrka varlega, þá virðist björninn oft vera unninn. Ég gæti kannski einhvern tíma skrifað um þessar aðferðir, ef maður nær einhverntíma að meistara þær (eða þið skiljið hvað ég meina). Laugardagskvöldið var því ekki jafn subbulegt, ekkert hland flaut um gólf þeirra staða sem farið var inná, mikil framför. Og Nota bene, aftur var áfengismagnið í blóðinu undir öllu velsæmi.
Þangað til næst,
kv. Óli

Grár mánudagur!!!

Ég fékk það komment í skólanum í dag að áhyggjur hefðu risið upp vegna gleði minnar í gær yfir góðu veðri. Hér kemur því þessi þunglyndislega færsla.
Það er mánudagur, dimmt og endalausir skóladagar framundan :(
Kv. Óli

sunnudagur, 21. janúar 2007

Sólríkur sunnudagur

Til hamingju með daginn öll sömul, sólin skín í Reykjavík :)
Eigiði góðan sunnudag!!!
Kv. Óli

fimmtudagur, 18. janúar 2007

Færsla sem átti að koma inn í gær!!!

Eins og titillinn gefur til kynna þá ætti ég að sitja við heimavinnuna núna, en vegna þess að ég vonast til að geta póstað nýja færslu núna (netið virðist vera stöðugt) þá ætla ég að leita færis og reyna á það. Það er nefnilega dáldið sem mig langar til að deila með ykkur. Þegar ég var að lesa Fréttablaðið í gær rakst ég á "frétt" sem mér finnst ótrúlegt að hafi verið eytt jafn miklu plássi í og raun bar vitni. Það er frétt af einhverri Idol-"stjörnu", sem tók upp á sitt einsdæmi að létta sig. Kílóin urðu ansi mörg, en kommon, er þetta frétt til að eyða hálfri blaðsíðu í??? Í sama blaði fær ný skýrsla eftir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor um um þróun tekjudreifingar á Íslandi 1993-2005 sama fjölda cm2. Þetta finnst mér alveg ótrúlegt, ég verð bara að segja það. Það er alveg ágætt að strákurinn hafi létt sig (ekki það að ég vorkenni honum heldur ekkert að hafa gert það) en þetta sýnir að það sem skiptir máli fyrir þjófélagið, viðgang þess, vöxt og aukinn þroska er á sama plani og einhver feit Idol-"stjarna" hjá fréttamönnum Fréttablaðsins. Svo má reyndar geta þess að þessi grein um skýrslu Ragnars segir alls ekki neitt, mætti vera miklu ýtarlegri vegna þess að allir sem kannski vildu komust ekki á kynningu skýrslunnar í dag, þ.á.m. ég. Nú er sem sagt fyrsta rausið komið á bloggið mitt :)
Nú að léttara hjali. Eitt skipti sem oftar fór ég út á lífið í desember með þjáningarsystur minni henni Dagnýju ásamt nokkrum vinum hennar. Almennt pöbbarölt í gangi og svo var stefnan tekin á 11. Við fórum inn niðri, og ekki leið á löngu þar til "undarlegir" hlutir fóru að gerast. Inn kom ungur maður á óræðum aldri (frá 20-25), gekk rakleiðis að konu sem var af erlendu bergi brotin (æðislegt nafn á útlendingum) og á 90 sek var búið að ræða um verð, deila munnvatni og ganga út. Hún hefur verið um fertugt held ég. Snilld að verða vitni af svona, það á 11 í miðbæ Reykjavíkur. Mæli með að þið hafið augun opin næst þegar steðjað verður á lífið, það er aldrei að vita nema þið fáið að verða vitni að því hvernig viðskiptin ganga fyrir sig á eyrinni.
Nú er komið að því að setjast yfir LogFrame Matrix.
Góðir hálsar, þangað til næst, kv. Óli

þriðjudagur, 16. janúar 2007

Loksins tókst að blogga :)

Jæja, þá er skólinn byrjaður og það með krafti. Einhverntíma í fyrndinni datt manni í hug að janúar yrði "rólegur" mánuður en annað hefur komið á daginn. Allt byrjaði á fullum krafti og fyrstu verkefnaskil í næstu viku. Hér verð ég þó að taka fram að þetta er rosalega skemmtilegt og svo velur maður sér þetta sjálfur ;) Annars er verið að skipuleggja hallarbyltingu í faginu. Ég tjáði mig í tíma um hvað mér þætti betur má fara og komst að því að fleiri voru á sömu skoðun (þá aðrir en Dagný sem ég hafði rætt þetta við), það kom skemmtilega á óvart og fundur verður haldinn á föstudagsmorgun (í fyrramálið) til að setja punkta á blað sem svo verður komið á framfæri á næsta fagfundi. Það er alltaf sama lognmollan í kringum mann hehe. Svo er verið að skipuleggja næsta sumar, og margar hugmyndir eru í gangi. Vinna hjá einhverri stofnun/fyrirtæki í Reykjavík... Það kemur allt í ljós. Það sem hins vegar er næst á dagskrá er skipulagning ferðar til Austurlands, til að sjá herlegheitin þar (Álver og virkjun) og svo verður auðvitað kíkt í andaglas (eða alla vega eitthvert glas) eins og í öllum almennilegum kennsluferðum!!! Það er nú svo gaman að segja frá því að fjölskyldan mín fyrir austan virðist "öll" vinna í tengslum við aðal uppbygginguna á svæðinu svo auðvitað sé ég um þessa ferð (eða þykist gera það hehe).Á laugardaginn síðasta var ég svo í brúðkaupi, þegar hinir góðu vinir mínir Óli Jón og Sigga gengu í það heilaga. Frábær veisla og mikið stuð og jamm í góðra vina hópi. Engin slagsmál. Ég lofa svo að fara að koma með einhverja vitsmunalega umræðu, er bara eitthvað svo andlaus (enda mætir maður í skólann rúmlega 8 nær alla morgna vikunnar, ömurlegt).
Kv. í bili, Óli

þriðjudagur, 9. janúar 2007

Annáll 2006

Góðan dag góðir lesendur, gleðilegt ár og takk fyrir þau gömlu!!!

Það er víst óhætt að segja að árið 2006 hafi verið viðburðaríkt. Það gæti örugglega einhver notað það sem ágætt handrit í grátmynd svokallaða, og bíð ég því eftir tilboðum ;) Reyndar var það ekki alslæmt eins og síðar mun koma fram.

Vegna þess að árið 2006 náði ég þeim merka áfanga að komast á fertugsaldurinn (15. febrúar, svo þið munið eftir afmælinu mínu í næsta mánuði) stóð til að halda upp á það með pompi og pragt, en vegna veikinda föður míns, sem svo lést í byrjun mars, varð ekkert af því. Hann háði stutta en ótrúlega kraftmikla baráttu við krabbann sem náði honum að lokum. Hann kom mér alla vega á óvart hversu duglegur hann var, en þó ekki á sama tíma. Eitthvað er þetta kannski óskýrt vegna móksins sem maður var í á þessum tíma og í framhaldinu, en ótrúlega kjarkaður var hann og duglegur sem svo veitti manni ótrúlegan styrk í sorgarferlinu sem fylgdi í kjölfar fráfalls hans. Sá dagur var sem sagt 8. mars 2006.
Það sem gerði það að verkum að maður hélt sönsum á þessum tíma var mikill skilningur fólks allt í kringum mann og svo síðast en ekki síst samheldni fjölskyldunnar og hlýhugur vina. Á svona stundum verðu manni ljóst hversu mikilvægir þessi hópur er manni og að gott fólk er gulli betra. Eiga þeir allir mínar dýpstu þakkir skilið og þakklæti um alla ævi.

Ég hef alltaf haft trú á því að þegar óumflýjanlegar breytingar verða í lífi manns eigi maður að nýta þær og læra af þeim. Og það var einmitt það sem ég gerði. Reyndar verð ég að bæta hér við að við kjarnafjölskyldan áttum saman góðan tíma bæði í bústað í Hálsasveit og svo þegar við fórum í 10 daga ferð til DK og Svíþjóðar í júlí. Það var ógleymanlegt og þjappaði okkur saman. Kannski verða bara settar myndir úr þessum ferðum hérna á þessa síðu, hver veit.

En er þá ekki kominn tími til að segja aðeins frá þessum breytingum?
Ég sótti um inngöngu í mastersnám, og komst inn, í auðlinda- og umhverfisfræði við HÍ. Þetta er þverfaglegt nám sem flestar deildir HÍ standa að. Þetta er mjög skemmtilegt nám sem mun örugglega verða uppspretta margra skrifa hérna á blogginu, og þá væri gaman ef fólk tjáir sig um þau mál á uppbyggilegan hátt (hehe) og rífst dáldið og skammast!!! Í þessu námi tel ég mig hafa fundið fjöl mína, sem svo vonandi gerir mig að betri manni (það má alltaf gera sér vonir hehe). Þetta nám hefur á mestan hug minn á síðustu önn, en hún byrjaði samt frekar seint vegna þess að ekki voru skakkaföllin búin í lífi mínu og fjölskyldunnar, af því að Margrét móðursystir mín, sú mæta kona, dó líka á árinu úr krabba eins og pabbi. Það er hreint ótrúlegt að ekki sé búið að finna lækningu á þessum fjanda ennþá, en við mannskepnan erum jú einmitt að einbeita okkur að því að taka líf í staðin fyrir að bjarga þeim (þetta verður kannski rætt síðar). Þetta áfall varð til þess að maður endurlifði alla rússíbanaferðina aftur og eins og ég nefndi áðan, þá byrjaði önnin frekar seint af þessum sökum. Reyndar það seint að ég frestaði öðru prófinu sem ég átti að fara í í desember, maður tekur það bara í ágúst á þessu herrans ári í staðin.

Námið hefur verið mjög stembið, en eins og áður var sagt, skemmtilegt, og ótrúlegt en satt (sýnir aukinn þroska) hlakka ég bara til að hann byrjar :) .

Nú tekur nýtt og örugglega betra ár við, sólin hækkar stöðugt á himni og ég vona að það hafi sömu góðu áhrif á þig og það gerir á mig lesandi góður!!!

Kv. Óli

laugardagur, 6. janúar 2007

Á norðurlandi

Þá er maður staddur á norðurlandi til að vera með stráksa. Þar sem mitt blogg-mojo er til staðar ákvað ég að bíða ekki til mánudags til að blogga að nýju. Annáll 2006 bíður bara betri tíma.
Ég tók hann strax á fimmtudagsmorguninn, þar sem sá stutti var veikur og er reyndar enn. Hann er með hita og hvef, en er nú að hressast. Fer líklega í leikskólann á mánudaginn. Við erum búnir að vera hjá Stínu ömmu og Ingimar afa í góðu yfirlæti. Málið er nú samt það að ég er held ég sé að verða veikur (er með einhverja hitavellu) og svo var Stína orðin slöpp í gærkvöldi. Ég hef reyndar engan tíma til að verða veikur, skólinn byrjar á mánudaginn á fullum krafti, ég er búinn að velja 20 einingar, en segi mig úr einum áfanga áður en frestur rennur út til þess 21. jan. Þetta virðist ætla að verða ágætis önn, nóg að gera þannig að manni ætti ekki að leiðast. Svo er auðvitað vonandi að félagslífið í félagi meistaranema verði virkara á þessari önn en þeirri síðustu (þar sem ekkert var á dagskrá). Málið er kannski að maður verði að taka málin í sínar eigin hendur til að eitthvað gerist, ætla þó alla vega að skipuleggja ferð austur á land til að skoða álverið og virkjunina á Kárahnjúkum. Eitthvað sem er nauðsynlegt fyrir hvert mannsbarn að sjá. Ég hef nefnilega ekki farið að Kárahnjúkum en hef séð álverið nokkrum sinnum úr fjarlægð. Svo hefur líka verið hálf asnalegt í allt haust að þegar umræðan hefur snúist um þessi stóru verkefni á austurlandi hafa útlensku samnemendur mínir verið frekar úti að aka, þar sem nær ekkert efni er til um þessar framkvæmdir á ensku.
Nú kallar stáksi, ég á að sitja með hann :)
Kv. Óli

föstudagur, 5. janúar 2007

Og það reyndist rétt!!!! Læt heyra í mér betur á mánudag, þegar ég hendi út á veraldarvefinn annál síðasta árs.

Prufa

Jæja, nú er verið að athuga hvort auðveldara sé að blogga með explorer en firefox