laugardagur, 22. september 2007

13...

föstudagur, 21. september 2007

14 dagar

Eftir akkurat 14 daga verð ég kominn á danska grundu!!!

fimmtudagur, 20. september 2007

Sugar-ekki dady :)

Þegar Ingimar var hérna síðast var amma hans að búa til eftirmat. Það var súkkulaðimús sem kom í ljós að stráksa fannst ROSALEG GÓÐ. Ég hef aldrei áður séð þetta rólega barn jafn upp tjúnað, hann skipti gjörsamlega um ham. Það var reyndar ekkert skrítið því hann sleikti skálin mjög vel (vildi meina að hann væri eins og sá mikli Þvörusleikir :). Hér er ein mynd gleðinni til vitnis...

Gjöf frá Vöku

Vaka var svo elskuleg að senda Ingimar og mér pakka í síðustu viku. Ég fékk seðlaveski (til að geyma alla peningana mína í ;) og Ingimar fékk svaka fínar grifflur og húfu í stíl



auk pleimókarla sem vöktu ekki litla lukku (búið að opna flesta pakkana)



Takk fyrir okkur elsku Vaka okkar :)

Athyglisvert!!!

Ég rakst á athyglisverða frétt á spiegel.de þar sem fjallað er um myndaalbúm SS foringja sem var í Auschwitz. Myndirnar eru teknar í lok árs 1944 og sýna SS-foringja, afslappaða að njóta lífsins gæða þessa tíma á meðan verið var að murka lífið úr gyðingunum ekki langt frá.
Þessar myndir eru mjög ólíkar þeim sem maður hefur hingað til séð frá Auschwitz, myndir sem Rússar tóku þegar þeir náðu búðunum á sitt vald nokkrum mánuðum seinna, vannærða ungverska fanga sem biðu dauðans. Þessar myndir eru til sýnis núna (yfir 100) á safni í Washington. Firringin er ótrúleg, sem sést á þeim nokkru myndum sem birtar eru á spiegel, fólk í söng og leik með foringjum eins og yfirlækninum Josef Mengele, sem sjaldan leyfði að teknar væru myndir af sér á meðan fýrað var stöðugt upp í gasklefunum.
Þess má geta að lokum að eigandi albúmsins, SS-foringinn Karl Höcker dó árið 2000, þá 88 ára gamall. Hann sat inni í 5 ár eftir að réttað hafði verið yfir honum og öðrum SS foringjum sem höfðu verið í Auschwitz. Einhver myndi nú segja að það væri vel sloppið fyrir fjöldamorðingja. Fyrir þá sem hafa áhuga á að heimsækja búðir þar sem hryllingnum er vel lýst bendi ég á að heimsækja Dachau, næst þegar þið eigið leið um München. Heimsókn sem setur mark sitt á mann og maður hefur gott af!!! Hér er svo ein myndin úr safninu (fyrir þá sem ekki nenna að fletta í gegnum það allt).

"Erholung vom Dienst: Lagerkommandant Richard Bär, KZ-Arzt Josef Mengele, der Kommandant des Lagers in Birkenau Josef Kramer (verdeckt) und der vorherige Kommandant Rudolf Höss" tekið af http://www.spiegel.de/img/0,1020,973125,00.jpg

þriðjudagur, 18. september 2007

Það sem vantaði

Í syrpuna af stráksa vantaði nýja mynd. Gerði það að ásettu ráði, vissi að ég ætti eftir að taka nokkrar (reyndust yfir 100) myndir af honum meðan hann væri hérna hjá mér og múttu. Hér koma 2:



mánudagur, 17. september 2007

Síðustu dagar, eða skv. Vöku svokallað gelgjublogg :)

Föstudagur:
Franz Ferdinand tónleikar, flottir, þegar þeir spiluðu en Jakobínarína - þrílík vonbrigði, voru fullir á sviðinu!!! Sofnað 3 sem var gott, var vakinn 9.
Laugardagur:
Vinna og svo var ég með Ingimar. Helga systir átti afmæli, borðaði köku hjá henni og svo var kjöt í karrý hjá múttu. Sofnaði svo með stráksa þegar hann átti að fara að sofa (ég sofnaði örugglega á undan). Rankaði við mér um 12, fór í sturtu. Ætlaði að kíkja í bæinn á bíl, en þegar ég var kominn að hringtorginu á Suðurgötu snéri ég við, nennti þá ekki lengra :) Var heillavænlegt skref, var vakinn 9 :)
Sunnudagur:
Horft á dvd, farið á kaffihús og svo flogið norður á Krók. Óvenju "þægilegt" að skilja við hann, sem skýrist meðal annars með því að hann var hjá mér í 9 nætur, nýtt fyrirkomulag sem hentar vel (svona áður en hann fer í skóla).
Mánudagur:
Skóli, skvass og farið á skotsvæði við Hafnir. Hrikalega léleg riffilaðstaða en ágæt haglabyssubraut. Vantar samt trappvél (sem er í boði hjá Ósmann á Króknum).

Þetta hafa því verið frábærir dagar, þótt Vöku mína vanti samt sárlega :( En ég hitti hana eftir ekki svo marga daga :)

laugardagur, 15. september 2007

FH (skammstöfun fyrir Fimleikafélag Hafnarfjarðar)

Já nú (eða fyrir nokkrum dögum) hefur verið kveðinn upp úrskurður í máli tveggja leikmanna fimleikafélagsins um hvort þeir megi spila úrslitaleik bikarmótsins í knattspyrnu fyrir núverandi lið sitt, Fjölni, gegn einmitt fimleikafélaginu. Þetta er pínu ruglingslegt en málið er að þeir eru á lánssamningi hjá Fjölni (Grafarvogi) en einmitt FH og Fjölnir mætast í áðurnefndum úrslitaleik. Klásúla er í samningum tveggja leikmanna að þeir megi ekki spila gegn FH mætist liðin í keppni.

En nú að úrskurðinum sem endaði með að verða að þessir tveir leikmenn fá ekki að taka þátt í leiknum. Nú vona ég svo innilega að FH vinni og það verði hægt að nudda þeim upp úr því að þeir hafi ekki þorað að mæta Fjölni með þeirra sterkasta lið, en þessir tveir lánsmenn eru einmitt bestu leikmenn Fjölnis :) Ofan á þetta klúður FH-inga bætist svo að þjálfari þeirra, sem ég held að heiti Ólafur (nafninu til skammar), var með einhverjar fáránlegar afsakanir hvað þetta varðar í fráttablaðinu í vikunni. Eitthvað á þá leið að þetta væri gert með hag leikmannanna að leiðarljósi, væri slæmt ef þeir klúðruðu boltanum fyrir Fjölni sem svo myndi e.t.v. leiða af sér mark fyrir FH. Ef eitthvað er nú langsótt er það þetta.

Mér persónulega er svo alveg sama hvort þetta standi í samningi (reyndar ótrúlegt að íþróttalið setji svona klásúlur í samninga leikmanna á Íslandi), þessir leikmenn Fjölnis eiga að fá að spila svo bæði lið geti leikið með sín bestu lið og að áhorfendur geti þ.a.l. fengið að njóta eins góðs úrslitaleikjar og hægt er (svona miðað við að KR er ekki að spila hann ;)!!!

Ein góð frétt (tekið af mbl.is)

Holdafar unglinga hefur áhrif á frjósemi síðar meir

Holdafar á unglingsárum hefur áhrif á hve mörg börn fólk eignast síðarmeir. Vísindamenn fylgdust með þrettán hundruð finnskum ungmennum, frá árinu 1980, en þau voru þá á aldrinum 3 - 18 ára.

Vísindamenn við háskólann í Helsinki mældu líkamsþyngdarstuðul þáttakendanna þegar þeir voru unglingar. Þeir sem höfðu verið of grannir sem unglingar áttu 10-16 prósent færri börn síðar á ævinni en þeir sem töldust innan eðlilegra þyngdarmarka. Þeir sem töldust of þungir áttu hinsvegar 32-38 prósent færri börn en hinir meðaþungu.

Annar aðstandenda rannsóknarinnar, Dr. Liisa Keltikangas-Jarvinen, sagði við Reuters fréttastofuna að lengi hefði verið vitað um tengsl þyndar og frjósemi hjá fullorðnum. Hinsvegar væri þetta í fyrsta sinn sem sýnt væri fram á að þyngd fólks á unglingsárum hefði áhrif á fjölda afkvæma á fullorðinsárum, óháð þyngd fólks þá.

Í skýrslu vísindamannanna segir einnig að þeir sem voru of léttir, eða of þungir sem unglingar hafi einnig verið síður líklegir til að búa með maka á fullorðinsárum, og gæti það að hluta útskýrt af hverju þeir eignuðust færri börn.

Vísindamennirnir segja niðurstöðurnar benda til að síaukið hlutfall feitra gæti haft alvarlegáhrif á frjósemi fullorðinna síðar meir.

fimmtudagur, 13. september 2007

Þegar unnið er...

Þegar maður situr og vinnur, sérstaklega langt fram á nótt, gefur maður sér oftar tíma til að blogga en ef maður er ekki að vinna. Þetta er kannski bara nokkuð lógískt, kannski ekki? Alla vega held ég að það sé kominn tími til að koma sér í rúmið, annars bulla ég bara eitthvað meira hérna...

miðvikudagur, 12. september 2007

Minn tími er kominn...

Klukkan að verða eitt að nóttu og ég sit við skriftir, sem sagt á mínum tíma :) Ég er að leggja lokahönd á sumarverkefnið mitt (Binna gerði margar athugasemdir við það sem ég er að laga) og á "fóninum" er Franz Ferdinand (flott nafn ef hreimurinn er þýskur). Ég er að fara á tónleika með þeim á föstud.kvöldið (já, þú getur alveg öfundað mig) og ég hlakka mjög til. Það er Dagnýju að þakka að ég þekki þá yfir höfuð og á hún mikið hrós skilið fyrir það.
But now, back to business...

þriðjudagur, 11. september 2007

Hugumstóri riddarinn, með litla hjartað



Meira hvað börn geta verði yndisleg þegar þau sofa. Við þetta hef ég átt að glíma síðust nætur og eftir stjórnlausa baráttu í nótt hef ég játað mig sigraðan. Í kvöld verður búið til fleti fyrir Ingimar á gólfinu þar sem hann mun svofa í nótt og hér eftir. Það er því miður ekki hægt að koma fyrir öðru rúmi fyrir hann inni hjá mér og því verður að grípa til þessa ráðs sem er löngu tímabært. Ég hef aldrei verið fylgjandi því að börn sofi uppí hjá foreldrum sínum því það veldur oft því að allir sofa illa, bæði börnin sem og foreldrarnir. Neyðin rak mig eiginlega út í þetta (vegna plássleysis) en nú er hann orðinn svo stálpaður að hann getur sofið einn á dýnu á gólfinu (með kassa sitthvoru megin við sig svo hann rúlli ekki út á gólf :). Frá og með nóttinni í nótt getum við því báðir hvílst til að hlaða batterýin fyrir orustur morgundagsins. Þær hafa ekki verið fáar síðan Ingimar kom. Orusturnar hafa einkum verið háðar í stofunni á T12 og svo uppi á lofti. Þar hafa alls konar forynjur, tröll, galdrakerlingar og hugumstórir prinsar riðið um héröð. Hið góða hefur að sjálfsögðu alltaf sigrað að lokum, þótt hugumstóra riddaranum (Ingimar, sem skaffar litla hjartað) verði ekki alltaf um sel þegar mótleikararnir (mamma eða ég) verðum of ógurleg í leik okkar. Hér verður að taka fram að riddarinn hugumstóri, en með litla hjartað, er sá eini sem klæðist búningi og því er það einungis ímyndunarafl hans sem gerir okkur ógurleg.
Það verður ekki annað sagt en að stráksi sé varkár að eðlisfari :)

sunnudagur, 9. september 2007

Chris Cornell - Black Hole sun

Chris Cornell


Ég fór á tónleika í gærkvöldi. Guðný frænka bauð mér með sér og strákunum hennar á Chris Cornell í Laugardalshöll. Það er óhætt að segja að ég var bara mjög spenntur fyrir þá, enda þarna á ferð söngvari Soundgarden, hljómsveitar sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér (þeirra þekktasta lag Black hole sun ætti að birtast á blogginu líka). Ég verð að viðurkenna að ég þekkti svona 1/4 laganna sem tekin voru, töluvert minna að margir aðrir sem þarna voru og sungu með öllum lögunum, en þvílíkt stuð. Til þess hins vegar að koma því frá þá voru þetta hreint út sagt frábærir tónleikar. Stemmingin var með afbrigðum góð, Cornell stóð undir væntingum með sína rosalegu rödd (söng samfleitt í 2 1/2 klst), sást varla áfengi á nokkrum manni og aldursdreifing áhorfenda var mjög dreifð og gaf það tónleikunum annan og skemmtilegri blæ en ef einungis hefðu verið unglinar á þeim. Ég endurtek, frábærir tónleikar, sem ég fæ seint þakkað Guðnýju frænku fyrir að hafa boðið mér á :)

laugardagur, 8. september 2007

Le petit prince

Ég er búinn að vera að sameina í eina tölvu allar þær myndir sem ég á á stafrænu formi. Flestar eru af Ingimar, eins og við mátti búast. Hér koma nokkrar þeirra, allt frá því að hann var pínku ponsu.

Jólin 2003

Sumarið 2004

Feb 2005

Júní 2005

Des 05

Maí 2006

mánudagur, 3. september 2007

sunnudagur, 2. september 2007

Elvis - 30 ár frá dauða kóngsins


Á þessari mynd er vitnað í orð John Lennon "Before Elvis there was nothing".
Á mínu æskuheimili þóttu þetta orð að sönnu. Pabbi var þvílíkur aðdáandi að það hálfa hefði verið nóg, Elvis var mér sem uppeldisbróðir (sem ég þekkti samt aldrei persónulega). Þegar Elvis kom fyrst til landsins (gefur að skilja tónlistin hans) slógust menn um hvort hann væri góður eða ekki. Pabbi vildi nú aldrei viðurkenna að hann hafi tekið þátt í því.
Þessi smá pistill er ritaður vegna þess að fyrir nokkrum dögum voru 30 ár frá dauða kónsins, eða alla vega frá því að tilkynnt var að hann væri látinn. Margir trúa því reyndar að hann sé enn á lífi, en fólk deyr víst ekki á meðan það lifir í minningum fólks.

Síðasta vika í orðum og myndum


Vaka mín fór fyrir tæpri viku síðan. Hér er mynd af Düsenjäger sem tekin var af bílastæðinu á Keflavíkurflugvelli þann dag. Það er greinilegt að herinn (hvers lenskur sem hann er) er ekki alveg farinn. Einhverjar hundakúnstir í gangi.

Eftir að hafa horft á eftir henni í gegnum tollinn fór ég Krísuvíkurleið vegna þess að ferðinni var heitið í Grímsnesið. Maggi og Rósa voru þar í bústað. Leiðin er rosalega falleg en vegurinn er rosalegt þvottabretti. Ég hélt bara að bíllinn minn myndi ekki hafa þetta af. Fyrri myndin er af gamla skólanum í Krísuvík og sú seinni af Krísuvíkurkirkju.





Í gær fór ég með Dagný, Warsha og Ravi til Keflavíkur. Við ákváðum að kíkja á Ljósanótt. Það var bara ágætt, fundum mjög fínan pöbb (Írskan) þar sem allir nema ég (the designated driver) gátu hlýjað sér á guða veigum. Það veitti nú ekki af vegna vosbúðar. Eitthvað eru Suðurnesjamenn nú slappir í landafræðinni. Á einu húsi bæjarins var plakat með fánum þjóðlanda allra íbúa bæjarins. Þar rak Ravi (sem er frá Mauritius - ísl. Máritíu eða eitthvað svoleiðis) augun í að það fór ekki saman nafn og fáni. Máritanía og Máritía eru jú ekki sama landið.
Þetta var annars ott kvöld í alla staði :) Það þarf nú samt að vera betra veður til þess að ég leggi leið mína aftur á Ljósanótt.





Hlýnun í garð páfans?


Eins og fólk hefur tekið eftir er mér nú ekkert sérlega hlýtt til páfans í Róm. Er það helst vegna viðhorfa hans gagnvart samkynhneigð, fóstureyðingum og almennra fornaldar viðhorfa gagnvart íbúum þessarar jarðar og boðum og bönnum um hvernig það á að haga lífi sínu. Á mbl.is í dag er hins vegar frétt:

"Benedikt XVI hvetur til umhverfsverndar

Benedikt XVI, páfi, hvatti í dag unga kaþólikka til að taka frumkvæði í að hugsa betur um jörðina og auðlindir hennar. Páfi hélt ræðu í dag úti undir beru lofti á ungmennaráðstefnu kaþólsku kirkjunnar í bænum Loreto á Ítalíu. Sagði hann einkum mikilvægt að vernda vatnsforða jarðarinnar þar sem það gæti valdið ófriði og spennu ef honum verður ekki skipt á sanngjarnan hátt.

Páfi hefur verið í nokkurs konar umhverdisverndarherferð og hefur m.a. tjáð sig um skógareldana í Ítalíu nýlega og umhverfisáhrif þeirra. Páfagarður hefur gripið til aðgerða síðan Benedikt XVI tók við embætta á borð við að fjárfesta í skógræktarverkefnum til að kolefnisjafna útblástursmengun sína, auk þess sem sólarorkurafhlöður hafa verið settar upp á þökum Vatikansins".

Það er greinilegt að hann er ekki al slæmur, en eitthvað minnir nú þessi kolefnisjöfnun á aflátsbréf kaþólskra til forna (og Íslendinga á þessum síðustu og verstu...).

Þrátt fyrir þessa litlu siðbót hefur viðhorf mitt til páfans hins vegar ekkert breyst. Hann er nú ennþá rottweiler guðs (sjá mynd)....

föstudagur, 31. ágúst 2007

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

AndVaka...



Já þá er hafinn tími AndVöku (Dagnýju verður seint full þakkað fyrir þessa nafngift :). Ég get nú ekki sagt að þetta sé mikill gleðitími og viðbrigðin mikil þar sem við höfum verið eins og samlokur síðustu tvo mánuði. Til þess að létta mér lundina hef ég því sett upp mikið prógram sem er fullt af hreyfingu og annarri skemmtun, svo sem að fara í Hafnarfjörðinn í dag og sjá KR-inga (vonandi) flengja FH-inga á þeirra heimavelli, Kapplakrika. En sá hlær víst best sem síðast hlær og bíð ég því með mínar frægu rokur þangað til svona um áttaleytið (skipti þeim þá kannski bara út fyrir brjóstumkennanlegum grátrokum, við sjáum til). Skólinn er svo að byrja, ég mæti í minn fyrsta tíma klukkan 8.15 í fyrramálið, Mat á umhverfisáhrifum og svo er það Vistfræði B næsta mánudagsmorgun á sama tíma. Þetta hefur nú aldrei verið beint minn tími en maður lætur sig hafa það, svona alla vega þegar maður er á landinu. Nú er hins vegar verið að leggja lokahönd á sumarverkefnið og það verður klárað að mestu um helgina. Ómæld gleði mun fylgja þeim verknaði :)
Bíb, kveðja grasekkillinn

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Púff

Það er nú meira hvað er brjálað að gera, svona á þessum síðustu og bestu tímum. Mamma er í bústað svo við Vaka ásamt frönskum vini fjölskyldunnar renndum austur að Flúðum og kíktum í mat til múttu. Nú fer að líða að því að ég skili af mér lokaskýrslu sumarverkefnisins, skólinn er að byrja og þ.a.l. skrif á lokaverkefninu mínu auk þess að Vaka mín er að fara til DK, þá hefst tími AndVöku (eins og Dagný komst svo vel að orði). Skotveiðin fer líka að byrja (er reyndar byrjuð) svo maður fer eitthvað að halda til heiða og leggjast svo í skurði þegar líða fer meira á haustið.
Lifið heil (ekki hálf ;)

mánudagur, 20. ágúst 2007

Dagný á afmæli

Kæra vinkona, hjartanlega til hamingju með daginn :)

Helgin sem menningin réð ríkjum

Þá er liðin helgi menningarinnar. Það er nú dáldið fyndið að það þurfi að skipuleggja sérstaka helgi fyrir menninguna en er á sama tíma skemmtilegt framtak. Frá því ég var síðast í Rvk. á menningarnótt fyrir einhverjum 5 árum hefur margt breyst, menningin (núna er ég farinn að endurtaka þetta orð full oft) hefur tekið völdin en ómenningin hefur þurft að láta í minni pokann (með einhverjum undantekningum þó). Það var reyndar svo mikið að gerast að manni féllust bara hendur. Tónleikarnir á Klambratúni stóðu heldur betur fyrir sínu (ég sá Mínus eftir að hafa "misst" af þeim á Lunga) þar sem Pétur Ben, Ampop og Mannakorn stóðu uppúr (að mínu mati) en allar hljómsveitirnar voru góðar. Í alla staði fínt kvöld og nótt sem ég ætla mér að mæta á aftur næsta sumar, ef maður verður á landinu :).

föstudagur, 17. ágúst 2007

Loks sigur... Og svo smá nöldur auk almennrar gleði

KR vann loks sigur í Landsbankadeildinni í gær. Undur og stórmerki hafa því gerst þessa vikuna og eru mér margfalt tilefni til þess að blogga pínu. Ég fór á völlinn í gær þar sem meira en 500 aðrir KR-ingar mættu (mín ágiskun) og voru því ansi stórt hlutfall af þeim 1200 sem mættu í heildina á völlinn. Það væri ekkert smá tap hjá öðrum liðum ef KR félli úr deildinni, þar sem þetta eru dyggustu áhangendur Íslands. Það sýna meðaltalstölur áhorfenda af leikjum sumarsins, KR og FH eru með lang hæst meðaltalið, rúmlega 2000 manns á leik og eins og glöggir vita eru þetta fyrir síðustu umferð efsta og neðsta lið deildarinnar. Hvort mínir menn eiga hins vegar skilið að falla er allt annar handleggur. En nú nóg af fótbolta, nöldrum nú aðeins.
Ég keyri ekki mikið í Reykjavik, geng frekar það sem ég þarf að fara. Það sem ég hef tekið eftir upp á síðkastið (og reyndar lengra aftur í tímann) er að Íslendingar í umferðinni eru glæpamenn. Þetta er alhæfing, ég veit. Þessi alhæfing mín byggir á því að undantekningalaust þegar maður er á ljósum keyrir fólk yfir á rauðu. Þá er ég ekki að tala um gulu eða appelsínugulu eins og flestir lenda einhvern tíma í að gera, heldur RAUÐU LJÓSI. Oft er þetta á beygjuljósum en líka þegar fólk ætlar að halda beint yfir gatnamót. Þetta gera bílstjórar þótt kassar sem í eiga að vera eftirlitsmyndavélar séu á gatnamótum (mín kenning er að þeir séu bara til skrauts, ég sé þá alla vega aldrei skjóta á þessa syndara). Ég lenti meiraðsegja í því í sumar þegar Ingimar var hjá mér að við vorum að fara yfir gönguljós og það var ekið yfir þau á rauðu ljósi, og fyrir einhverja algjöra rælni hélt ég á stráksa sem annars hefði getað verið hlaupandi á undan mér og þá hefði ekki þurft að spyrja um leikslok. Bíllinn hægði ekki á sér heldur keyrði á töluverðri ferð yfir ljósin. Ástæðan fyrir þessari fyrringu sem á sér stað í umferðinni er mér ekki fyllilega ljós. Ástandið er hins vegar að versna og þakka ég fyrir að ég er oftast á stórum bíl þannig að ég nýt e.t.v. aðeins meiri virðingar í umferðinni en ef ég væri á Fiat Panda. Arnþór félagi minn segir hins vegar að þótt hann sé á jeppa skipti það engu máli, hann gæti eins verið á Pöndu (samanber færslu á blogginu hans). Ef einhver hefur ráð við því hvernig má bregðast við þessari óáran sem umferðarmenning í Reykjavík er, er gefinn kostur á því hér.
Að lokum langar mig til að lýsa ánægju minni yfir náminu sem ég legg stund á þessa stundina. Meistaranám í auðlinda- og umhverfisfræði. Í þessu fagi leynast tækifærin og framtíðin er björt. Það er nánast sama hver bakgrunnur fólks er sem leggur stund á námið, það finnur alltaf einhverja tengingu við umhverfið og auðlindirnar sem svo hjálpar öllum við að finna bestu leiðirnar við nýtingu þessara tveggja þátta (sem eru um margt sami hluturinn, bara mismunandi nálganir). Hafir þú lesandi góður áhuga á þessu, er ég til í að svara spurningum ykkar eftir bestu getu því það er alltaf pláss fyrir gott fólk sem vill setja mark sitt á framtíðina, ekki bara verða einn af baunateljurum framtíðarinnar...
Lifið heil!!!

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Vika milli færslna

Jæja, þá er næstum vika frá næstu færslu (eða eitthvað þar um bil). Stráksi fór norður um helgina, við Vaka keyrðum á móti Gísla á sunnudagsmorguninn og drukkum þ.a.l. morgunkaffi í Staðarskála rúmlega 10 að morgni. Það sem bjargaði að við yrðum ekki fyrir trukkakaffi-eitrun var að það var ný uppáhellt, enda engin heilvita manneskja á ferð svona snemma á sunnudagsmorgnum. Helgin var annars alveg ágæt. Dagný kom í bæinn á föstudaginn og við enduðum með að sitja á T12 og sötra bjór fram eftir kvöldi þar sem D fékk ekki miða á setningaratöfn Hinsegin daga sem var í Loftkastalanum. Það var rosa gaman að sitja svona og spjalla, taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrr í sumar þegar hún gekk í klaustrið.
Næsta helgi verður svo viðburðarík líkt og flestar aðrar helgar sumarsins. Vinir Vöku og ég erum að fara í bústað uppi í Svínadal, þar sem verður grillað, bjórinn sötraður og farið í pottinn. Ég hlakka mjög til, það verður gott að fara aðeins út úr bænum í rólegheitum með góðu fólki. Svo er það menningarnótt með öllum sínum uppákomum. Mér skilst að þá verði stefnt á að fara á Miklatún og hlusta á það sem þar verður í boði.
Nú er bloggið farið að þjóna tilgangi dagbókar... Jæja, læt þetta fljóta í þetta skiptið en ég vona að blogg-andinn fari að koma yfir mig aftur þegar skólinn hefst með öllum sínum herlegheitum. Vistfræði B verður setin aftur auk þess sem ég verð í MÁU (mati á umhverfisáhrifum framkvæmda) víhíííííí. Veit ekki með aðra kúrsa. Ble í bili

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Þegar hugurin reikar...

Nú rignir í henni Reykjavík. Ekki veitir af eftir þurrkana undanfarið og því er ágætt að hann helli smá úr sér. Síðustur vikur hafa verið annasamar, mikið um ferðalög en síðasta helgi var tekin í afslöppun. Laugardagurinn reyndar dáldið þunnur eftir smá uppáhellingu á föstudagskvöldið. Það var haldið matarboð á K12, Hjördís og Nonni, vinir Vöku komu í mat og við skemmtum okkur þræl vel, enda með eindemum skemmtilegt fólk þarna á ferð sem ég hlakka til að kynnast betur (það var líka þeim að þakka að Ingimar fékk Batman-búninginn frá mér í afmælisgjöf og þakka ég þeim hér enn og aftur fyrir þá björgun). Ég prófaði á þeim nýjan grilllög sem ég bjó til þetta kvöld og það er óhætt að segja að hann hafi heppnast vel. Bjórdrykkja kvöldsins tók hins vegar sinn toll og ég var þunnur á laugardaginn. Ber þar nýrra við því ég hef ekki fundið fyrir þeim kvilla lengi og er þar helst ágætis formi að þakka. Í dag er því hins vegar ekki að prísa, ég er frekar farinn að líkjast þeim Vamba og Þamba, félögum mínum, full mikið eftir hreyfingarleysi síðasta mánaðar og mikið át á góðum mat. Gymmið í HÍ opnar hins vegar á ný í næstu viku og þá verður tekið á því að nýju. Smá ótti hefur reyndar gripið um sig hjá mér vegna komandi átaka en hann næ ég væntanlega að yfirvinna.
Hvatinn af þessum skrifum mínum var hins vegar löngum í bjór, sem greip mig á miðvikudegi og klukkan ekki orðin tvö. Lífsnautnirnar hafa ekki herjað svona sterkt á mig lengi en ég tel þetta vera merki um að haustið sé að nálgast, skólinn fer að byrja (Dagný fer að koma til byggða eftir klausturlíf sumarsins en henni á ég mikla bjórdrykkju síðasta vetrar að þakka, nota bene þetta er ekki illa meint og á hún mínar dýpstu þakkir skildar enda ef ég hefði ekki kynnst henni væri ég ekki svona ánægður með lífið í dag) og lífsmynstur manns breytist. Bjórsötr inni í miðri viku hefst, vonandi vísindaferðir og skemmtikvöld með nýjum og auðvitað gömlum félögum úr náminu. Það eina sem skyggir á þessa gleði er að Vaka mín er að fara til DK í eina önn. Ég ætla hins vegar að vera duglegur að heimsækja hana til Odense og hún þarf kannski, "því miður", að koma til landsins í smá tíma um miðja önn til að taka eitthvað verklegt á spítala í Rvk. (kann ekki að segja betur frá því), þetta verður því ekki al slæmt :) Það sem ýtir svo auðvitað líka undir að ég fari sem oftast til DK (ekki það að Vaka er ástæða nokk) er að mér hefur verið boðið í veiði í DK, á Sjálandi að veiða fasana. Hann Stefán Holm vinur minn er kominn með byssuleyfi og Are vinur hans hefur aðgang að bóndabæ þar sem hægt er að veiða þessar annars fallegu skepnur. Haglarinn verður því gripinn með og lífið verður vonandi murkað úr saklausum málleysingjanum eins og sagt var í Dalalíf. Veiðin á Íslandi fer líka að hefjast þannig að maður er bara spenntur fyrir haustinu. Gæsin, öndin og vonandi rjúpan verða á matardiski mínum í vetur eftir haustið. Hreindýrið er tryggt en Maggi og Atli fengu úthlutað dýrum og ég hef tryggt mér hálfan skrokk :)
Vonandi leikur lífið við ykkur lesendur góðir eins og það leikur við mig, takið því alla vega með brosi á vör og ég get næstum lofað að það breytir miklu, ef ekki bara öllu :) (og mér tókst bara næstum að verða korný). Borðið vel, hreyfið ykkur með og gerið allt sem ég mundi gera...
Látum þetta verða síðustu orð þessarar færslu :)

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Myndir úr lífi mínu síðustu tvær vikur


Snjóflóðavarnirnar í Neskaupstað

Lautin í Hellisfirði (þær eru víst fleiri en þessa hefur fjölskyldan notað í áratugi og í þetta skiptið var ekki breytt út af vananum, frekar en venjulega)

Viðfjörður, Hellisfjörður (fjörðurinn "minn"), Norðfjörður (talið fra vinstri)

Amma mín, Dunna langamma eins og Ingimar kallar hana nokkrum dögum fyrir níræðis afmælið sitt. Hún er svo ern og yndisleg að það sést sko ekki að hún sé komin á tíunda tuginn.

Skrúður, útsýni úr Oddskarði

Ástirnar mínar á gangi á Norðfirði

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Ef þetta virkar vil ég sjá þetta innleitt í íslenskum fangelsum

Ef þetta virkar sem forvörn í fangelsum, ef þetta hjálpar, þá innleiðum dansinn í íslensk fangelsi. Flesta hefur nú líka dreymt um að dansa eins og MJ (sem sagt ekki tusku-framleiðandinn). Sjá link http://politiken.dk/poltv/?ExtID=2021
Þá er afmælið fyrir austan yfirstaðið, ég kominn suður að vinna og stráksi og mamma eru enn á Norðfirði. Snúðurinn minn var nú ekki sáttur við að ég færi en hann jafnaði sig fljótt. Það er alltaf eins og hjartað sé rifið úr manni þegar hann er í þessum gír. Það er hins vegar bara eitthvað sem maður verður að harka af sér. Ég er svo sestur við skriftir að nýju, nú fer að líða að skuldadögum og ég ekki kominn nógu langt með þetta...
Afmælið hennar ömmu (Guðnýjar Pétursdóttur) heppnaðist mjög vel, bara alveg frábærlega. Það voru örugglega nærri 200 manns sem mættu og fór fjöldinn fram úr björtustu vonum. Ég hafði giskað á svona 150 gesti en aðrir á í kringum 100. Sú gamla var ótrúlega hress, það var gaman að sjá hvað margir sáu sér fært að mæta.