föstudagur, 17. ágúst 2007

Loks sigur... Og svo smá nöldur auk almennrar gleði

KR vann loks sigur í Landsbankadeildinni í gær. Undur og stórmerki hafa því gerst þessa vikuna og eru mér margfalt tilefni til þess að blogga pínu. Ég fór á völlinn í gær þar sem meira en 500 aðrir KR-ingar mættu (mín ágiskun) og voru því ansi stórt hlutfall af þeim 1200 sem mættu í heildina á völlinn. Það væri ekkert smá tap hjá öðrum liðum ef KR félli úr deildinni, þar sem þetta eru dyggustu áhangendur Íslands. Það sýna meðaltalstölur áhorfenda af leikjum sumarsins, KR og FH eru með lang hæst meðaltalið, rúmlega 2000 manns á leik og eins og glöggir vita eru þetta fyrir síðustu umferð efsta og neðsta lið deildarinnar. Hvort mínir menn eiga hins vegar skilið að falla er allt annar handleggur. En nú nóg af fótbolta, nöldrum nú aðeins.
Ég keyri ekki mikið í Reykjavik, geng frekar það sem ég þarf að fara. Það sem ég hef tekið eftir upp á síðkastið (og reyndar lengra aftur í tímann) er að Íslendingar í umferðinni eru glæpamenn. Þetta er alhæfing, ég veit. Þessi alhæfing mín byggir á því að undantekningalaust þegar maður er á ljósum keyrir fólk yfir á rauðu. Þá er ég ekki að tala um gulu eða appelsínugulu eins og flestir lenda einhvern tíma í að gera, heldur RAUÐU LJÓSI. Oft er þetta á beygjuljósum en líka þegar fólk ætlar að halda beint yfir gatnamót. Þetta gera bílstjórar þótt kassar sem í eiga að vera eftirlitsmyndavélar séu á gatnamótum (mín kenning er að þeir séu bara til skrauts, ég sé þá alla vega aldrei skjóta á þessa syndara). Ég lenti meiraðsegja í því í sumar þegar Ingimar var hjá mér að við vorum að fara yfir gönguljós og það var ekið yfir þau á rauðu ljósi, og fyrir einhverja algjöra rælni hélt ég á stráksa sem annars hefði getað verið hlaupandi á undan mér og þá hefði ekki þurft að spyrja um leikslok. Bíllinn hægði ekki á sér heldur keyrði á töluverðri ferð yfir ljósin. Ástæðan fyrir þessari fyrringu sem á sér stað í umferðinni er mér ekki fyllilega ljós. Ástandið er hins vegar að versna og þakka ég fyrir að ég er oftast á stórum bíl þannig að ég nýt e.t.v. aðeins meiri virðingar í umferðinni en ef ég væri á Fiat Panda. Arnþór félagi minn segir hins vegar að þótt hann sé á jeppa skipti það engu máli, hann gæti eins verið á Pöndu (samanber færslu á blogginu hans). Ef einhver hefur ráð við því hvernig má bregðast við þessari óáran sem umferðarmenning í Reykjavík er, er gefinn kostur á því hér.
Að lokum langar mig til að lýsa ánægju minni yfir náminu sem ég legg stund á þessa stundina. Meistaranám í auðlinda- og umhverfisfræði. Í þessu fagi leynast tækifærin og framtíðin er björt. Það er nánast sama hver bakgrunnur fólks er sem leggur stund á námið, það finnur alltaf einhverja tengingu við umhverfið og auðlindirnar sem svo hjálpar öllum við að finna bestu leiðirnar við nýtingu þessara tveggja þátta (sem eru um margt sami hluturinn, bara mismunandi nálganir). Hafir þú lesandi góður áhuga á þessu, er ég til í að svara spurningum ykkar eftir bestu getu því það er alltaf pláss fyrir gott fólk sem vill setja mark sitt á framtíðina, ekki bara verða einn af baunateljurum framtíðarinnar...
Lifið heil!!!