þriðjudagur, 23. desember 2008

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Étið nú á ykkur gat, drekkið eins og þið getið og njótið augnabliksins :)

Ég biðst annars forláts á vöntun á jólakortum, enn eitt árið, en við Vaka erum að hugsa um að gera gangskör í þessum málum fyrir næstu jól.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Tilkynning


Fyrir þá sem hafa misst af þessari frétt þá er Horst Tappert aka Derrick látinn, 85 ára að aldri.

Þáttaröðin um Derrick er sú vinsælasta í flokki lögregluþátta í Þýskalandi frá upphafi og engin þýsk þáttaröð hefur náð jafn mikilli dreifingu erlendis eins og Derrick.

Derrick var ekki lítið þekktur á Íslandi karlinn, hver man ekki eftir því þegar hann kom til Íslands, ef ég man rétt upp úr 1980. Íslenskar húsmæður urðu að grúpppíum á svipstundu og voru það helst hans frægu augnpokar sem heilluðu og svo auðvitað gleraugun (einn af mínum bestu vinum hefur á afrekaskránni að sporðrenna einu sambærilegu pari)

mánudagur, 24. nóvember 2008

Hún Þórhildur Reynisdóttir er systurdóttir mín. Hún er 11. ára og orti eftirfarandi ljóð. Síðasta erindi ljóðsins er viðlag. Njótið, þetta er tær snilld:

Ég ætla að segja þér sögu af lítilli þjóð,
sem stritað hefur í aldir sæl og rjóð.

Allir vildu vel og hjálpuðust að,
Það var í þátíð, þannig var það,

Svo tók yfir þjóðina klár maður mjög,
þó hann og hans menn þekktu engin lög,

Hans flokksmenn hræddir fylgdu með,
þorðu ekkert að segja enda bara peð,

úr ráðherrastóli hann gamall steig niður,
héldu þá menn að yrði loks friður,

En þá fór hann í bankann og tók fjármálin yfir,
og flokkurinn í hans stjórn enn lifir,

Hann neitaði vexti að lækka,
og í staðinn skuldir fólksins hækka,

Hann tók sína menn á næturfund,
þeir keyptu banka, léttir í lund,

og menn á hausinn fara eftir hlutabréfaleik,
því þjóðin sparaði ekki og er peningaveik,

Nú er það svart og engin von,
og hver verður NÆSTI Davíð Oddsson?


Höf. Þórhildur Reynisdóttir
Ort 23. nóv. 2008.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Heimasími

Heimasíminn á nýja heimilinu okkar Vöku hérna á Framnesvegi 34 er 5710285. Nú er því ódýrara að hringja í okkur so feel free :)

föstudagur, 21. nóvember 2008



þriðjudagur, 21. október 2008

Íslenska útrásin

Íslensku útrásinni eru gerð góð skil í síðasta Kompási á Stöð 2. Slóðin er eftirfarandi: http://www.visir.is/article/20081021/FRETTIR04/331387412&sp=1
Þetta er mjög góður þátt sem allir ættu að horfa á.

Annars er allt gott að frétta, ég var læknisfrú á Sauðárkróki síðustu viku, lærdómurinn réð ríkjum og maður rétt heimsótti nánustu ættingja. Stáksi var hjá okkur í tvær nætur, lilli snilli var í essinu sínu og var vægast sagt ánægður með nýju klippinguna sína, hanakamb og það er ekki laust við að hann hafi þroskast mikið eftir að lokkarnir hurfu.Ég var að ræða við Helgu systur í dag um þessa miklu tísku-meðvitund stráksa og hún segir að þetta sé frá mér. Ég man nú reyndar ekkert eftir því að hafa eytt miklum tíma fyrir framan speginlinn, en hvað man maður. Ég get ekki efast um hennar orð.

Ritgerðin mín gengur bara vel, ég er búinn að taka 3 viðtöl af um 10 og svo bætast við 3 á næstu 5 dögum, já maður nær kannski bara að útskrifast í febrúar 2009. Svo verður bara að sjá hvernig gengur að fá vinnu. Ef það gengur ekki þá er ég með eitt hálmstrá, það er að telja bíla, en það hefur verið "vinnan" sem ég hef verið að þvælast í síðustu vikur. Fín vinna, ágætlega borguð sem maður getur kannski helgað sig ef atvinnuleitin ber ekki árangur. Reyndar er ég bjartsýnn, ennþá :)

Síðast eru svo fréttir af okkur Vöku, við erum að fara að flytja á Framnesveginn, slotið okkar, svo það verður innflutningspartý einhvern tíma á næstu vikum. Dagsetning hefur ekki verið ákveðin!

Ég bið ykkur svo bara vel að lifa, og lifið lífinu lifandi :)

föstudagur, 10. október 2008

Landbúnaður

Nú heyrist ekki mikið í þeim sem hafa agíterað fyrir frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum! Íslenska sauðkindin er nú betri en engin. Borðum innlent!!!
(Myndin tekin af síðunni http://www.simnet.is/lon/Kindviku.htm)

fimmtudagur, 9. október 2008

Ignorance is a BLISS!!!

mánudagur, 6. október 2008

Glitnir

Talsmaður Glitnis fer á kostum í viðtali við fréttamann NRK - sjá á slóðinni http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item229868/
Eins gott að maður verði betur undirbúinn ef maður verður einhvern tíma á skjánum :)

föstudagur, 26. september 2008

Story of Stuff

Hafirðu smá tíma aflögu á annars annasömum degi, horfðu þá endilega á myndina Story of Stuff sem hægt er að horfa á á linknum www.storyofstuff.com

Rjúpnaveiðar!!!

Veiði á rjúpu hefur verið heimiluð með sama sniði og í fyrra, veiða má fimmtudaga til sunnudaga :) Maður fer sem sagt austur í nóvember!!!

miðvikudagur, 24. september 2008

Nú er

allt í járnum, brjálað að gera, og þótt ótrúlegt megi virðast sé ég fram á að útskrifast í nánustu framtíð (eftir svona eina meðgöngu) :)

miðvikudagur, 10. september 2008

Sikunews.com/

http://sikunews.com/ er vefsíða sem enginn áhugamaður um norðurslóðir og fréttir þaðan ætti að láta framhjá sér fara. Fréttir af umhverfisbreytingum og fréttir úr öllum hornum norðurslóða eru þar ríkjandi!

þriðjudagur, 9. september 2008

Slóðar á vinstri akrein!!!

Fólki er ekki við bjargandi. Frétt á mbl.is í dag segir frá 4. bíla árekstri á Hringbraut í morgun og á myndinni sem fylgir fréttinni sést að þessir aðilar voru á vinstri akrein. Skilur fólk virkilega ekki að vinstri akreinin er ekki aðalakreinin, heldur sú hægri. Sú vinstri er til þess hugsuð að hægt sé að taka framúr og fyrir hraðari umferð. Lenti meirað segja í því á leiðinin yfir Hellisheiði um helgina að það voru sleðar á vinstri akrein þar sem vegurinn yfir heiðina hefur verið tvöfaldaður!!

Það er bara eitt um þessa aðila að segja: "Fólk er FÍFL"!!!

Myndir úr lífi mínu síðust vikur...

Skuggarnir fara að lengjast en hreindýrin í óróanum mínum láta ekki deigan síga og hringsnúast þegar sólar nýtur við

Geitungarnir fóru að finna að endirinn var nærri og fóru því í hverja sjálfsmorðsárásina á fætur annarri í dauðagildruna mína. Hún kom alla vega í veg fyrir að þeir væru að angra okkur Vöku inni í íbúðinni okkar (sem er nota bene á 5. hæð)

Leifur (til vinstri á myndinni), mágur minn, komst með liði sínu Stjörnunni í undanúrslit í sínum flokki í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Þeir komust því miður ekki í úrslitin en greinilegt er að Stjarnan stendur vel að ungmennastarfi sínu!Ein mynd verður að fylgja af prinsinum, frá því hann var hjá okkur síðast fyrir um mánuði síðan. Man nú ekki alveg hvað var í gangi en fjörið var alla vega mikið, líkt og alltaf þegar þessi elska kíkir í 101 Reykjavík :)

sunnudagur, 31. ágúst 2008

Varaforsetaefni repúblikana

heitir Gov. Sarah Palin.
Haft hefur verið eftir henni að hún trúi ekki að lofslagsbreytingar séu af manna völdum!
(heimild: http://sikunews.com/art.html?artid=5345&catid=19)

Á sömu vefsíðu er greint frá ótta sænskra vísindamanna um að metan sé farið að losna úr sífreranum í Síberíu í meira mæli en áður var talið.
(heimild: http://sikunews.com/art.html?artid=5347&catid=19)

föstudagur, 29. ágúst 2008

Besta kaffi í Reykjavík!!!


Og þótt víðar væri leitað. Ég var að klára besta kaffi sem ég hef smakkað lengi! Það var Americano, keyptur á Kafé d´Haiti sem er smá-kaffihús staðsett í Tryggvagötu, í næsta húsi við Crua Thai (nær miðbænum). Ég veit ekki opnunartímann en það er alla vega opið þar yfir miðjan daginn. Kaffið er Fair Trade! Endilega verslið ykkur kaffi þarna, það er vel þess virði.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Verðbólgan..

mælist núna 14,5%. Það mun vera hæsta verðbólga sem mælist á Íslandi síðan 1990.

Smáborgarinn ég...

Menntamálaráðherra fór ásamt ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins og mökum til Peking að hvetja strákana okkar (og aðra keppendur líka). Þetta kostaði 5 millur. Hún fór nefnilega tvisvar út. Hefði ekki verið nóg að borga fyrir opinberu starfsmennina en ekki makana?

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Ólympíuæði

Í tilefni af því að við, Íslendingar, erum þriðja sigursælasta þjóð Ólympíuleikanna, miðað við höfðatölu auðvitað þá langar mig að benda á nokkrar "íþróttagreinar" sem keppt hefur verið í á ólympíuleikum en eru ekki lengur keppnisgreinar. Þar eru nokkrar greinar sem við gætum örugglega einnig gert garðinn frægar í - og unnið jafnvel gull (sem er auðvitað krafan, sama hversu lítil þjóðin er!!!).
Reyndar eru þetta allt greinar sem við Íslendingar getum verið góð í, vegna þess hversu "bezt í heimi" við erum:
  • 100 metra sund sjómanna með frjálsri aðferð (sjóstakkasund tíðkaðist á árum áður á sjómannadaginn) - síðast keppt í árið 1896
  • Hindrunarsund - síðast keppt í árið 1900
  • Dúfuskotfimi - með lifandi dúfum - síðast keppt í árið 1900
  • Næst er það kraftlyftingar úti um allt (mín þýðing). Til nánari skýringar sjá mynd! - síðast keppt í árið 1904
  • Skotfimi með byssum notuðum til einvígja (kannski lítlar líkur á að við ynnum þetta, enda friðsemisþjóð) - síðast keppt í árið 1912
  • Tvíhent spjótkast. Okkur gæti alla vega ekki gengið ver í þessari íþrótt en spjókasti almennt - síðast keppt í árið 1912
  • Reipitog. Öruggur sigur, við erum jú sterkust í heimi! - síðast keppt í árið 1920
  • Kaðlaklifur. Bókað gull þar - síðast keppt í árið 1932
Svo mætti bæta við íslenskri glímu. Við hlytum að vinna hana, hún er nú einu sinni kennd við okkur!

ÍSLAND - BEZT Í HEIMI!

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Mengun

Já, við erum meira að segja eftirbátar Kínverja (þegar þeir sýna sparíandlitið) hvað mengun varðar þessa dagana. Við getum reyndar kennt restinni af Evrópu um í þetta skiptið :) en stöndum okkur "rosalega" vel líkt og fyrri daginn Við búum jú á svo "hreinu" landi!
(heimild Vísir.is)

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Uppeldi!


Ingimar: "Hvoru megin er KR-merkið?" (á KR-buningnum)
Pabbi hans: "Vinstra megin"
Ingimar: "Af hverju?"
Pabbi hans: "Vegna þess að það er þar sem hjartað er!"

Já, uppeldið er í fullum gangi, hann mun halda með KR. Og hana nú!

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Vestmannaeyjar

Þá er maður kominn úr Eyjum (komumst þaðan í gær). Við unglingarnir höfðum það fínt, Vaka lappaði upp á þá marga og var svo að fram kominn eftir þessa 24 tíma vinnutörn að hún svaf í rúmlega hálfan sólarhring. Myndir koma von bráðar :)

miðvikudagur, 30. júlí 2008

Next we...

take Reykjavík. Já næsta stopp er Reykjavík. Meira flakkið á manni, meirað segja svo mikið að Ingimar vatt sér víst að ókunnri konu á Króknum og sagði henni allt um flakk pabba síns. Það var eitthvað á þessa leið: "Ég á pabba, hann á heim langt í burtu og hann á aldrei heima á sama stað. Hann átti heima í Reykjavík. Núna á hann heima á Akureyri en er aftur að flytja til Reykjavíkur".
Það er fátt sem fer framhjá þessum snilla :)

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Prins

Prinsinn minn átti afmæli fyrir viku síðan :) Einhverjir gætu undrast yfir því af hverju ég segi svona seint frá því, en þannig er mál með vexti að þegar barnið mans verður 5 er það ágætis realití tékk sem maður þarf tíma til að ná sér á. Svo sá ég líka í veislunni BÁÐAR tengdadætur mínar sem var nú ágætis biti í háls, hélt að ein væri nú nóg (eru á myndinni hérna fyrir ofan).
Afmælisveislan var annars mjög fín, nánast enginn grátur og stráksi fékk fullt fullt af gjöfum. Tæplega fjörutíu manns voru í veislunni, svo það er spurning hversu margir verða þegar drengurinn fermist. Afmælistertan var Súperman-terta og hann fékk líka slíkan búning frá okkur . Reyndar var ManU gallinn fyrir valinu til að vera í í veislunni, enda verðandi atvinnumaður þarna á ferð!
Margrét, litla systir Ingimar var líka rosa hress, er hætt að vera mannafæla og hún og Vaka voru hinar bestu vinkonur. Vaka las fyrir hana og svo skottaðist hún um í prinsessupilsi, hin mesta dama þar á ferð :)

þriðjudagur, 22. júlí 2008

Faðir rekinn

úr vinnu vegna þess að hann tók fæðingarorlof - í Danmörku (politiken.dk). Spurning hvenær þetta fer að gerast á Íslandi - eða er þetta kannski að gerast án þess að maður frétti af því?

Fer fólk virkilega til Kamtjatka

og er ekki með byssur (riffla) með sér? Það virðist alla vega raunin hjá þessum 30 jarðfræðingum sem verið er að éta á þssum slóðum (sjá frétt á politiken.dk). Ótrúlegt að ekki hafi verið haft samband við mig og ég beðinn um að fara með, með byssu í hendi (eða einhver annar veiðimaðurinn). Alla vega þá bíð ég mig fram í næstu ferð!

mánudagur, 21. júlí 2008

Ný heimasíða

Nei ég hef ekki opnað nýja heimasíðu, en það hefur Gylfi Ægisson hins vegar gert - www.gylfiægisson.is - Ég vil endilega mæla með þessari síðu. Hún er hrein og tær snilld og sýnir enn og aftur hversu mikill snillingur hann Gylfi er! Sjón er sögu ríkari.

Niðurstöður

Niðurstöður óvísindalegrar rannsóknar minnar, sem gerð var með samanburði á ökulagi Reykvíkinga og Akureyringa, benda til að ökumenn (muna, konur eru líka menn) á Akureyri virði frekar umferðarreglurnar en þeir sem aka í Reykjavík. Sést það helst á því að ekki er farið jafn mikið yfir á rauðu hér á Akureyri en sjá má í Reykjavík. Takið eftir þessu þegar þið eruð næst á ferðinni!

sunnudagur, 6. júlí 2008

Allt að róast...

Nú er stráksinn farinn, ég að fara að keyra mömmu og ömmu til Neskaupstaðar þannig að það verður heldur tómlegt þegar Vaka kemur heim úr vinnunni í kvöld. Stefnan er jafnvel tekin á Hellisfjörð á morgun, ef ekki verður þoka. Enn eru ekki allar nætur bókaðar hérna hjá Hótel Óla, þannig að áhugasamir geta enn bókað gistingu í júlí :) Ein mynd látin fylgja af kósý-heitum per exelance á meðan Ingimar var hérna, lestur fyrir svefninn, Goggur glænefur í þetta skiptið.

þriðjudagur, 24. júní 2008

Frá sömu framleiðendum

og Fahrenheit 9/11 og Bowling for Columbine, myndin Bigger, Stronger, Faster
Athyglisverður trailer þetta :)

sunnudagur, 22. júní 2008

Allt að gerast

á blogginu.
Ruth benti mér á þessa frábæru síðu fyrir þá sem vilja geta slegið um sig með fræknum frösum http://www.atrixnet.com/bs-generator.html
Sem dæmi má nefna setninguna:
"authoritatively deliver granular niche markets" hvað þetta hins vegar merkir, veit ég ekki :)

James Bond-heilkennið

er heilkenni sem hrjáir playera sem eiga til að nýta bráð sína og hugsa bara um eigin hag. Þeir eru víst hins vegar ekki eftirsóknarverðir þegar byggja á upp fjölskyldu. Þetta er ein þeirra frétta sem ég hef hugsað mér að fjalla um á þessu bloggi, en vegna leti hefur það bara ekki orðið að veruleika.

Önnur frétt sem mig hefur langað til að fjalla um er mótleikur Dana við reykingabanninu sem sett var á á síðusta ári. Það er "den elektriske cigaret" eða »e-cigs«. Hún gefur ekki frá sér reyk en í hana eru settar fyllingar með nikótíni. Þær eru því ekki bannaðar vegna þess að þessar sígarettur eru flokkaðar sem "livsstilsprodukt". Danirnir alltaf góðir :)

Þriðja fréttin var að Svarthöfði, síðasti göngumaður í "skrúðgöngu" presta á prestaþingi hafi verið á vegum Vantrúar. Hann tók sig mjög vel út í göngunni og ég held bara að biskup ætti að bjóða honum næst að vera með. Lífgaði heldur betur upp á þessa annars drungalegu göngu (segir mikið til um gönguna fyrst svarthöfði lífgar upp á hlutina.

mánudagur, 16. júní 2008

Bað rauðhöfðaandarinnar

laugardagur, 14. júní 2008

Muna brosið :)

Kínverjar æfa Olympíu-brosi (sjá nánar þennan link). Einhvernvegin kemur þetta manni ekki á óvart, "kommarnir" standa fyrir sínu :)
Annars erum við V að fara á Mugison og fleiri núna, með bros á vör (óæft). Ég óska ykkur gleðilegrar helgar, ég er að fara að skemmta mér á tónleikum.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Akureyri

Þá er maður kominn til Agureyris - eins og Bjöggi Halldórs sagði um árið. Erum í fanta fínni íbúð og getum því tekið á móti gestum og gangandi :) Hér verður besta veðrið í sumar!!!

föstudagur, 23. maí 2008

Á meðal jafningja

Nú hefur verið haft í hótunum um að bloggið mitt verði afskrifað eftir 58 daga (í dag), ef ég man rétt! Ég verð því að bregðast við svoleiðis hótunum og henda inn færslu.

Þannig er mál með vexti að nú er listahátíð í Reykjavík, og eitt af listaverkunum eru myndir af flestöllum börnum á landsbyggðinni milli 3. og 6. ára. Mamma fór því að rýna í vegginn með myndunum, sem er á horninu á Lækjargötu og Austurstræti, til þess að sjá hvort okkar maður leynist ekki þar, og jú, vitir menn, þarna er hann og það í tvíriti :) Auðvitað ekki að undra þar sem hann er jú fallegasta barn í heimi (fjögurra að verða fimm). Hérna er mynd af veggnum, nú er spurning hvort þú sérð stráksa:

Annars er allt að gerast, hún Vaka mín er að fara til Akureyrar um næstu helgi, ég fer einhverjum dögum síðar og við verðum þar í júní og júlí - sért þú því lesandi góður á ferðinni, hafðu þá samband - við tökum alltaf vel á móti gestum, og gangandi :)

mánudagur, 5. maí 2008

Vinnan

Ég fékk ekki vinnuna sem ég sótti um :-( En í staðin förum við Vaka bara út saman fyrstu mánuði næsta árs :-)
Það borgar sig að vera með backup plan :-)

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Nýja Jórvík

Nýja Jórvík er næsti viðkomustaður minn. Kannski verður bloggað þaðan næst?

Gleðilegt sumar öll sömul!!

föstudagur, 11. apríl 2008

Mín heittelskaða yndislegasta kærasta


átti að sjálfsögðu mynd af Rollunni minni, þ.e. Patrolnum. Hvað gerði ég án hennar? Auðvitað hefði ég átt að spyrja hana bara strax... ohh... ég get stundum verið svo eitthvað utan við mig.


Takk elsku besta Vaka dúllan mín!!! Set inn eina frábæra mynd af þér í þakklætisskyni!!!







ps... Þetta bloggaði "mín heittelskaða" sjálf, ég bað hana bara að setja inn mynd af Pattanum

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Hehehe....

Ég er búinn að selja jeppann minn :(

Ég seldi Rolluna í gær (nick fyrir Nissan Patrol). Svo þegar ég var að leita að mynd af kagganum fyrir þessa færslu komst ég að því að ég á ekki mynd af honum.... búhúhúú... Ég bið þig því lesandi góður, ef þú átt mynd af minni elskulegu rollu að senda mér eintak af myndinni.

Þjóðarsorg hefur því verið lýst yfir frá og með deginum í dag!

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Umhverfisdagar við HÍ - Hefur þú grænan grun?

Það er mér mikil ánægja að kynna umhverfisdaga í HÍ - ÞETTA ER EKKI GABB!!!

Dagskrá Umhverfisdaga í Háskóla Íslands er eftirleiðis:

1. apríl:

11:30
Opnir básar á Háskólatorgi - umhverfisvænar vörur og lausnir

16:40
Sýning heimildamyndarinnar „We Feed the World“ (96 mín – enskur texti) og umræður í lok myndar um efni hennar.
Stofa HT-105, Háskólatorgi.

2. apríl:

12:00
Hádegisfyrirlestrar Umhverfisdaga: Kaupa fyrst, henda svo?

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda. - Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR
Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu: Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni. - Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu
Stofa HT-104, Háskólatorgi.

20:30
Umhverfis-Quiz - Spurningameistari er Katrín Jakobsdóttir.
Staður: Highlander, Lækjargötu 10.

3. apríl:

21:00
Uppskeruhátíð Umhverfisdaga á Grand Rokk!
Staður: Grand Rokk, Smiðjustíg 6.

Ég hvet alla til að mæta og leggja þessu málefni lið. Þeir sem standa að þessum dögum eru:

GAIA - félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði
Stúdentaráð HÍ
Stofnun Sæmundarfróða

fimmtudagur, 27. mars 2008

"Skilja við ömmu og afa auk pabba" - Frétt af mbl.is í dag

Við skilnað foreldra veikjast tengsl barnsins við föður sinn og föðurforeldra og virðist sjaldgæft að föðurleggur komi í stað móðurleggs þegar móðurættin veitir lítinn stuðning, skv. umfangsmikilli nýrri rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, á aðlögun og líðan 18 ára ungmenna í kjölfar skilnaðar.

Minni tengsl við föðurættina má m.a. sjá af því að þeir sem reynt höfðu skilnað töluðu sjaldnar við föður sinn og hans foreldra en hin ungmennin gerðu, leituðu síður til þeirra og voru ólíklegri til að telja þau til nánustu aðstandenda. Þetta skýrir Sigrún með sterkri stöðu móðurinnar í lífi barnsins, sem rækti meira tengslin við sitt fólk en tengdafólk. Það mynstur verði svo skýrara við skilnað.

Aðspurð um hvernig megi skýra það að meiri þátttaka feðra í barnauppeldi hafi ekki skilað jafnari ábyrgð, segir Sigrún niðurstöðurnar hafa komið á óvart en mögulega liggi þetta í ólíkum hlutverkum foreldranna. Þótt pabbinn sé mikið með börnin sé hann oft að leika við þau en móðirin taki að sér ábyrgð og stjórn.

Pabbinn ósýnilegur

Ein af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir ungmennin sem reynt höfðu skilnað foreldra var hvort þau teldu þar einhverjum um að kenna. Af þeim sem það gerðu nefndi skýr meirihluti, 87%, föðurinn sem sökudólg. Til samanburðar kenndu aðeins 3% móðurinni um.

Aðspurð um hver hefði sagt þeim frá skilnaðinum sagði þriðjungur foreldrana hafa gert það í sameiningu og fjórðungur að móðirin hefði gert það. Í handriti að skýrslunni, sem 24 stundir hafa undir höndum, er bent á að tengsl geti verið á milli þess og að föðurnum sé kennt um skilnaðinn. „Draga má þá ályktun að ósýnileiki föður í sjálfu skilnaðarferlinu ýti undir hugmyndir barna um hann sem „sökudólg“, ekki síst þar sem móðir ber jafnframt mesta ábyrgð og tekur frekar að sér útskýringar.“

Þá kemur fram að þótt fráskildu foreldrarnir hefðu flestir hafið aðra sambúð þegar könnunin var gerð voru feðurnir líklegri til að skipta oftar um maka og eignast börn í seinni samböndum. Telja höfundar að þetta geti veikt stöðu föðurins í huga barnsins enn frekar.

Þarf meiri fræðslu um skilnaði

Til þess að draga úr neikvæðum áhrifum skilnaðar á börn, leggja skýrsluhöfundar til að efld verði fjölskyldufræðsla fyrir verðandi foreldra og að þeir foreldrar sem sækja um skilnað fái sérstaka fræðslu um hvernig best sé að standa að málum svo að skilnaðurinn hafi sem minnst áhrif á börnin.

Að lokum er lagt til að þeir foreldrar sem hvað erfiðast eiga með að leysa úr sínum málum fái til þess aðstoð og að börn þeirra fái sérstakan stuðning.

Í hnotskurn
Skýrslan „Aðlögun og líðan ungmenna í kjölfar skilnaðar foreldra,“ er eftir Sigrúnu Júlíusdóttur, Jóhönnu Rósu Arnardóttur og Guðlaugu Magnúsdóttur. Hún verður gefin út á næstu dögum af Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd í HÍ. Notaðir voru spurningalistar og var úrtakið 1200 framhaldsskólanemar. Svarhlutfall var 71,2%.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Síðbúið páskablogg :)

Já þá er páskarnir liðnir, maður er búinn að reyna á það enn einu sinni að öl er böl, en einhvern vegin gleymir maður því alltaf á milli þess sem maður fær "sér einum" of mikið. Reyndar er raunarsögu (mánudagsins síðasta) því um að kenna að ég borðaði ekkert á leiðinni heim úr bænum, því er note to self alltaf að koma við á Pizza-King og fá sér eina 12". Þetta frí er annars búið að vera alveg frábært. Vinir mínir frá Tübingen í Þýskalandi, þeir Stephan (Stebbi) og Niels eru búnir að vera tíðir gestir hjá okkur Vöku í mat. Mikið er búið að skrafa og láta vitleysislega, og ég verð að hrósa henni Vöku minni fyrir frábæra tilburði í Þýskunni. Það er hreint ótrúlegt að hún hafi aldrei áður talað Þýsku af neinu viti. Hún er einfaldlega náttúrutalent þessi elska :) Við fórum svo með þeim félögum í bíltúr á mánudaginn (þynnkudaginn), ég svaf fyrsta hluta leiðarinnar en frá Búðum var ég með rænu og svo eftir vöfflurnar og kaffið á Ólafsvík á ömmu og afa Vöku reis landið hratt og ég var hinn brattasti þegar heim var komið hehe. Afi Vöku, hann Elinbergur, bað okkur svo vinsamlegst að koma sem oftast því hann fengi aldrei svona gott með kaffinu nema þegar gesti bæri að garði. Eitthvað held ég nú að þar sé um ýkjur að ræða, en hann getur treyst á að við komum sem oftast, það er alltaf jafn gaman að koma til hans og Heiðu.
Ég vona að þið hafið haft það sem allra best mín kæru, ég set bráðum inn myndir úr ferðinni um Snæfellsnesið, sem virðist mér vera óendalegt ljósmyndaefni :)

mánudagur, 17. mars 2008

Spam-komment

Þá er það fyrsta komið í höfn, var sett inn við síðustu færslu. Athyglisvert að einhverjir skuli vera að stunda þessa iðju.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Endurvinnsla - réttur trjánna



mánudagur, 10. mars 2008

Híhí

laugardagur, 1. mars 2008

Úti á landi

Stjörnuspá dagsins af mbl.is:
Vatnsberi: Losaðu þig við alla óþarfa sviðsmuni. Þeim mun hæfileikaríkari sem þú ert, þeim mun minna aukadót hefurðu þörf fyrir. Þjálfaðu það sem skiptir máli.

Ég veit nú ekki nákvæmlega hvað þetta þýðir - en tek þessari ábendingu með brosi á vör :).

Ég er annars staddur á Ólafsvík - Snæfellsnesi. Vaka er hérna á læknavakt yfir helgina og það er vægast sagt búið að vera nóg að gera hjá henni. Ég vona nú samt að hún fái frið til þess að slappa aðeins af - svo hún verði nú ekki of þreytt í næstu viku!

Eigiði svo góðan bjórdag elskurnar mínar :) og áframhaldandi góða helgi!

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Háskólinn á Hólum í Hjaltadal

Ég rakst á þessa mynd um Hólaskóla á holar.is núna áðan. Ég mæli með henni. Hún er mjög flott.

mánudagur, 25. febrúar 2008

Hreindýr


Ég fékk ekki úthlutað hreindýri, en er númer 70 (kvóti 68 kýr á svæðinu) á svæði 5 (
Svæði 5. Fjarðabyggð, þ.e. Eskifjörður, Norðfjörður og Reyðarfjörður, einnig sjá mynd) sem þýðir að ef tveir hætta við að taka sín dýr býðst mér að fara. Nú er því bara spurningin hvort ég tek því boði (ef það býðst)?

föstudagur, 22. febrúar 2008

Hylling

Loksins hefur vinur minn hann Hlynur tileinkað mér færslu á blogginu sínu - Nokkuð sem hann hefur lofað mér um langt skeið. Takk fyrir Maple!! Hér er linkurinn http://www.themapleman.blogspot.com/

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Hugleiðingar

Ég er í áfanga sem nefnist svæði og menning. Hér kemur ein dagbókarfærslan úr þeim áfanga sem við þurfum að skila vikulega. Það er spurning hvort þessi nýbreytni fellur í kramið :)

Í umræðum um „vísindaritið“ National Geographic (N.G) í síðasta tíma vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar, þar á meðal hvort N. G. sé vísindatímarit (í eiginlegum skilningi þess orðs) og svo í kjölfarið mörkin milli þess að birta vísindagreinar og greinar sem frekar hafa skemmtana- og eða fræðigildi fyrir lesandann án þess að textinn sé tormeltur og illskiljanlegur fyrir hinn almenn a lesanda. Þar sem markhópur útgefenda N. G. er menntuð millistétt Ameríkana mætti ætla að hægt væri að fæða þá með öðru en léttsöðnum greinum um allt hið góða í heiminum og yfirburði hvíta mannsins (Ameríkana).

Þegar rit eru gefin út í heiminum eru þau flokkuð eftir markhópnum með því að bjóða upp á greinar sem henta og höfða til hvers flokks lesenda. Blöð ætluð verkfræðingum fjalla um viðfangsefni verkfræðinga, svo byggingar brúa og blöð ætluð mannfræðingum fjalla um umfjöllunarefni mannfræðinga, t.d. vettvangsrannsóknir gerðar um heim allan. Oft á tíðum eru þessi rit mjög sérhæfð og þýðir þá lítið fyrir hinn almenna borgara, sem ekki hefur bakgrunn eða aðra þekkingu á viðfangsefnum sérritanna, að ætla að setjast niður og fá eitthvað út úr þeim lestri. Hvað er þá til ráða til þess að ná til hins almenna lesanda, og fræða, sem ekki less þessi áður nefndu sérfræðirit.

N. G. er eitt elsta „vísindarit“ sem gefið er út í heiminum í dag, ritið á rætur sínar að rekja til loka 18. aldar þegar The National Geographic Society var stofnað árið 1888. Stofnendur félagsins voru úr elítu þess tíma og blaðið var ætlað hinni menntuðu millistétt til að byrja með en ekki ólærðum lýðnum. Ritið var því rit sérfræðinga. Enn þann dag í dag er blaðið ætlað sama markhópi en það sem hefur breyst er að blaðið höfðar til allra, en þá breytingu má rekja til þess að Alexander Graham Bell tók við stjórn blaðsins 1898.

„Bell seemed much more attuned to the Society‘s mission to disperse geographic knowledge rather than to promote new research, and he believed that people would read geography only if it were light and entertaining” (Fjölrit bls. 16)

Breytinguna má einnig rekja til Gilbert Hovey Grosvenor.

„As a result of Grosvenor‘s innovations, the Geographic style became mor similar to that of other popular monthlies, marked by „a realism full of pep and information““ (Fjölrit bls. 16)

Byggt á þessari tilvitnun hef ég, þegar rætt er um N. G., orðið vísindarit í gæsalöppum. Í mínum huga er N. G. nefnilega ekkert vísindarit, nema þá vísindarit fyrir almenning þar sem valdar eru greinar sem ætla má að hann skilji og vilji lesa.

Önnur lögmál gilda fyrir vísindarit ætluð almenningi en þau sem ætluð eru vísindamönnum (sérfræðingsrit). Vísindarit fyrir almenning þurfa ekki að vera bökkuð upp af rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á þeim sviðum sem ritin fjalla um, greinarnar eru byggðar (oftast) á stuttum vettvangsrannsóknum eða upplifun greinarhöfundar. Þetta form bíður upp á skekkju þegar efnið er svo matreitt fyrir lesandann, líkt og þekkt er í mannfræðinni, ef greinarhöfundur passar ekki upp á að blanda ekki eigin skoðun á viðfangsefninu við hlutlausa umfjöllun sína sem lesandinn á heimtu á. Útgáfa á ritum eins og N. G. er því ekki auðveld og þurfa þeir því líklega að hlusta á mikla gagnrýni á skrif sín og passa sig sérstaklega á því að vera hlutlausir í umfjöllun sinni - miðað við umræðuna í síðasta tíma virðist þeim ekki alltaf takast það!

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

mánudagur, 18. febrúar 2008

alltaf góðir

föstudagur, 15. febrúar 2008

Ég á afmæli í dag :)



Sem sjálfhverfur einstaklingur í fílabeinsturni tilkynni ég hér með að ég á afmæli í dag!!! Ég þakka ykkur öllum fyrir öll liðnu árin (úff þetta hljómar orðið eins og jólakveðja). Ég elska ykkur öll (búhúhúhú...)


Jújú, alltaf eðlilegur

mánudagur, 11. febrúar 2008

Fréttaskot

Nú er sko ýmislegt að frétta. Ef einhver skyldi ekki vita af því þá erum við Vaka að flytja saman í íbúð á stúdentagörðunum á Lindargötu. Við erum raunar flutt, erum komin með mest okkar hafurtaks á staðinn og erum farin að sofa þar. Sjón er annars sögu ríkari og ef þig lesandi góður langar til þess að sjá best skipulögðu íbúð á stúdentagörðunum verðurðu bara að koma í heimsókn :)
Það sem er svo líka að frétta er að Ingimar er hérna í Reykjavík núna, er veikur, svo að það verður ekki mikið úr lærdómi næstu daga. Vonandi batnar honum nú samt sem allra allra fyrst svo að hægt verði að fara út og gera eitthvað skemmtilegt hið fyrsta.
Það þriðja sem er í fréttum er að búið er að samþykkja rannsóknaráætlun mína af stjórn verkfræðideildar HÍ (ég mun því útskrifast frá þeirri deild) svo að nú mun ég hald ótrauður áfram í átt að takmarki mínu, sem er að útskrifast eftir akkurat ár, eða í febrúar 2009.
Nú er hins vegar komið að því að fara að hugsa um barnið, sem er auðvitað ótrúlega hress miðað við veikindin (er í tölvunni) en það má ekki hafa hann í tölvunni of lengi eftirlitslausann.
Bless í bili!

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Ein Held starb vor 10 Jahren!

Falco, mein Held, starb vor 10 Jahren. So lange wir uns an ihn erinnern, stirbt er NIE!!!

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Annars konar annáll - nær því að vera hugleiðingar sem markast af áfengismagni í blóði

Vegna þess að ég tel mig hafa gert árinu góð skil nú þegar á þessari bloggsíðu hef ég ákveðið að gera ekki dæmigerðan "klukku"annál (nema andinn komi yfir mig, en hann kemur þá bara eitthvað síðar), heldur smella inn smá pistli sem ég lagði grunninn að þegar ég sat á Hvids Vinstue við Kongens Nytorv í henni Kaupmannahöfn 17. desember 2007 (klukkan var um 2 e.h.) og sötraði Tuborg Julebrygg á meðan ég beið eftir að ástin mín hún Vaka kæmi til borgarinnar. Fyrir utan Vöku er G-meillinn annars uppfinning ársins 2007 og þakka ég Dagnýju kærlega fyrir að kynna mig fyrir þessu mikla undratæki sem nú eru stór þáttur í mínu lífi :)

Það hefur lengi staðið til að fara á stefnumót "með" Hvít (líkt og pabbi kallaði staðinn sem og fleiri Íslendingar) en flestir þekkja staðinn líklega sem Hvids Vinstue. Þetta var mikill uppáhaldsstaður hans. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll viðkomustaður þystra Íslendinga í gegnum aldirnar, meðal annars mun Jónas Hallgrímsson hafa verið þarna tíður gestur. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll hjá Dönum og á veggjum hans hanga margar myndir af frægum gestum staðarins. Eftirfarandi var skrifað þennan umrædda dag, en verst þykir mér þó að ekki fær hin fagra rithönd mín að njóta sín, sem versnaði umtalsvert eftir því sem bjórunum fjölgaði í maga mínum:

"Það er ekki ómerkilegt að sitja á Hvít og sötra Julebrygg, en flestir fá sér þó jólaglögg, sem virðist vera heitasti drykkurinn á köldum eftirmiðdegi í hjarta Kaupmannahafnar við Kóngsins Nýja-Torg. Í dag er 17. desember 2007 og það er ekki laust við að maður sé farinn að kippa (í svona 2-3 tær). Rakastigið í manni er því farið að hækka lítilsháttar en ekki líður manni ver þegar snakkað er á Dönsku allt i kringum mann og atmosfæren er jafn góð og raun ber vitni.

Nú er erfitt að fá þjónustu, staðurinn er orðinn fullur og ég var bara heppinn (nú fyrir 2 klst. síðan) að fá borð, náði nú augnkontakti. Fimmti Tub. Julebrygg liggur brátt í valnum.

Á sama borði og ég sitja bræður (ég hef fundið það út með því að hlera), báðir um áttrætt, og ræða um heyrnartæki. Nánar tiltekið heyrnartæki sem útiloka þrusk og stoj (líkt og danskurinn segir). Það slær svo öðru hverju úti fyrir þeim en þeir ná samt alltaf þræðinum aftur, eftir mis-langan tíma þó :) Þeir hittast greinilega ekki oft, spurningarnar sem þeir spyrja hvorn annan eru þess háttar, en það fer vel á með þeim. Ótrúlega en nú gaman að fylgjast með mannlífinu.

Á næsta borði sitja nokkrir samlandar mínir, og það eru ekki þeir fyrstu sem setjast við það borð síðan ég kom á svæðið. Það er eitthvað í fari þeirra (og þá væntanlega líka í mínu) sem gerir það að verkum að maður spottar þá alltaf í hópnum. Svo ekki sé talað um þegar þeir fara að hefja raust sína, ætli Íslendingar tali hærra en aðrar þjóðir (nema þó kannski ekki hærra en Svíjar). Það er kannski 66°N flíspeysan sem kemur upp um þá líka eða þá allir innkaupapokarnir sem þeir draga á eftir sér, hver veit?

Nú er ég farinn að hugsa mér til hreyfings, Vaka fer að koma með lestinni rúmlega 5. Áður en ég hætti verð ég samt að segja frá því að Dani (á næsta borði) talaði um "vini" mína Íslendingana sem Svía :) Óskaplegt er að við þurfum að vera svona lík Svía-grýlunni ;)

Adju mín kæru,

Kv. einn meir og fullur rétt fyrir jól"

föstudagur, 11. janúar 2008

Posted by Picasa

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Squirrel playing football

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Bloggið árið 2007

Árið 2007, fyrsta ár þessa bloggs, voru settar inn 315 færslur á það og rúmlega 7400 manns heimsóttu það. Ég þakka öllum sem lásu fyrir gott hljóð og skemmtilegar athugasemdir :) Megi þær verða fleiri í framtíðinni.