mánudagur, 30. apríl 2007

F5

F5 er takkinn minn (og þetta rímar meiraðsegja)

Fiskveiðar á erlendum miðum

Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifa um fiskveiðar á þessu bloggi, ég held bara að það hafi aldrei gerst. En nú verður sem sagt breyting á. Ég rakst nefnilega á frétt á vefnum skip.is sem er ágætis netmiðill blaðsins Skipafrétta sem kemur út reglulega (man reyndar ekki hversu reglulega). Í dag er fjallað um flaggskip íslenska fiskiskipaflotans, Engey RE-1 sem nýverið komst í eigu Samherja. Eftir eina veiðiferð í viðbót á kolmunna á skipið að fara í slipp þar sem gerðar verða breytingar á því fyrir nýtt hlutverk, eða veiðar við strendur Afríku. Þeir sem eitthvað til þekkja vita að þar er stunduð massíf rányrkja vestrænna útgerða og lítið sem ekkert skilar sér til almennra íbúa þessara fátæku landa. Það er nú gott að vita að við leggjum okkar að mörkum og stuðlum að ofveiði stofna sem ekki eru undir neinni vernd fiskveiðistjórnunarkerfa. Í áhöfn verða 5-7 Íslendingar af um 80 manns. Skipstjórinn sem ráðinn hefur verið hefur víðtæka reynslu á veiðum við Afríku, hefur stýrt skipum sem m.a. hafa verið gerð út frá Máritaníu og Marokko. Ísland - Bezt í heimi
Eftir ábendingu langar mig til að koma með smá tilkynningu: "Ég vona að Íslendingar séu ekki að fara að stunda rányrkju við strendur Afríku heldur sýni gott fordæmi og veiði af skynsemi".

Óskapnaður

Öl er böl segir frænka mín reglulega, sérstaklega þegar dóttir hennar hvartar undan þynnku. Einhverjir kunna að vera sammála og eftir nýjustu fréttir á politiken.dk er ég jafnvel farinn að hallast á sveif með frænku minni. Þar kemur nefnilega í ljós að eftir að Svíar gengu í ESB og aðgangur fólks að áfengi batnaði mjög, hafa dauðsföll tengd áfengisneyslu aukist umtalsvert. Skorpulifur meðal karlmanna eru 10% algengari og 15% hjá konum (skv. rannsókn frá Stockholms Universitet, sem nær yfir 6 ára tímabil í kringum 2000). Heimur versnandi fer, maður ætti kannski að hugsa sig tvisvar um áður en bjórinn verður gripinn næst úr ísskápnum eða pantaður á barnum?
Ég veit nú reyndar ekki hvort þetta hafi nein áhrif á mig, maður verður að passa að geilsabaugurinn verði ekki of strekktur skiljiði og svo verður nú að vera gaman að lífinu (og så krydser mand jo bare finger og håber jeg ikke får "skorpeliver"). Skál

Facebook

Mæli með Facebook (smella á þetta bláa) fyrir þá sem hafa ekkert að gera og eru að lesa undir próf eða skrifa ritgerðir eða bara slæpast eins og allir sem eru í skóla :)....... NOT

Plokkað hringinn með Rás2

Tónleikarnir á föstudagskvöldið..

Ég fór á tónleika, Plokkað hringinn með Rás2, á föstudagskvöldið með hópi vina og kunningja. Ég get ekki sagt að ég hafi stundað þess konar samkomur mikið í gegnum tíðina, en upp á síðkastið hef ég nú samt verið nokkuð duglegur (tónleikarnir með hjálmum). Þetta er nefnilega alveg afbragðs skemmtun. Hljómsveitin sem mér fannst standa uppúr var upphitunarbandið Hjaltalín stórgott band sem ég hlakka til að heyra meira frá. Ekki voru nú allir jafn hrifnir af þeim en sem betur fer höfum við ekki öll sama smekk. Ólöf Arnalds var allt í lagi, höfðar ekki til mín og Lay Low var fín. Pétur Ben var hins vegar aðal númerið. Snillingur á einari (og hinn í gifsi) sem þurfti því að sitja tónleikana á enda. Ég hlakka til að sjá hann aftur á sviði, þá á báðum því hann virðist mjög líflegur á sviði. Keypti mér svo diskinn hans og verð að segja að hann er betri live. Pétur tók svo eitt aukalag, Billy Jean eftir Jackson og ég verð að segja að P tók lagið miklu betur en Jacko Wacko. Snilldar útfærsla!!! Ég mæli svo með að þið hlustið á þessa tónleika (hlekkur á þá) meðan hægt er á netinu, stórgóð skemmtun. Nú er það hins vegar næsta verkefni sem bíður, lokaritgerð í NRM (natural resource management). Segi betur frá því síðar.

sunnudagur, 29. apríl 2007


Til minningar um hetju

Í tilefni af því að ég er búinn með heimaprófið í SemII þá hef ég ákveðið að segja frá smá “leyndarmáli” um mig sem ekk margir vita um. Ég er með blæti fyrir ákveðnu atriði. Nú dettur þér lesandi góður örugglega eitthvað kynferðislegt og jafnvel subbulegt í hug, en svo er nú alls ekki raunin. Þetta blæti hefur sem sagt ekkert með tær, sokkabuxur eða einhvers konar voyeur hátt að gera (mæli með skilgreningunni á þessu skemmtilega orði í ensk-íslenskri orðabók). Alla vega þá er blætið mitt fyrir látnum manni. Nei, þetta er ekki Charles Bronson eða einhver sambærilegur snillingur, en snillingur er hann samt!!! Nafn þessa einstakling er Johann Hölzel. Kveikir einhver á perunni???? Á heimasíðu hans er eftirfarandi quote :

One year ago – ein Jahr wie eine Ewigkeit

aber es war Liebe auf den ersten Blick

Niemand wollte uns verstehen

Quit livin’ on dreams

Life is not what it seems

there’s someone who needs you

Hans Hölzel

Því miður náði Hans ekki háum aldri, en það er hægt að segja um hann eins og James Dean, he lived fast and died young. Það á reyndar við um óskaplega mörg óskabörnin sem fæðast á þessa jörð.

Aftur að blætinu. Ég deili þessu blæti með ansi mörgum manneskjum þessa lands (Íslands) og svo eru ótal fylgjendur þessa snilling um allan heim, þó mest sé líklega af þeim í hinum þýskumælandi heimi. Svo ég nefni tvo blætisfélaga mína á Íslandi þá eru það þær Dagný og Rán. Ég mæli með partýi tileinkað Hans við fyrsta tækifæri stúlkur!!!

En er ekki kominn tími til að leysa frá skjóðunni og segja frá listamannsnafni þessa mikla lífskúnstner? Jú mér finnst það. Það er FALCO.

Á þessu stigi finnst mér réttast að vitna í bloggið Dagnýjar, þar sem hún sagði í dag:

“Þetta er tileinkað gærkvöldinu, meistari Falco heitinn með hið ódauðlega lag Jeanny (heitir reyndar Jeanny Part 1, úr hinu metnaðarfulla verki Jeanny sem er í einum fjórum hlutum).

Dramatísk rapp-ballaða á þýsku og ensku, segi bara why change a winning formula? Að þetta skuli ekki hafa verið leikið eftir af öðrum listamönnum. En, myndbandið er ekki fyrir viðkvæmar sálir.

Ps. Ég tók eftir því að það er allsterkur svipur með Óla og átrúnaðargoðinu austurríska! Grínlaust” (Dagný Arnarsdóttir, http://101reykjavik.blogspot.com/ 29. apríl 2007).

Ekki veit ég nú hversu líkir við erum við Falco, en ekki myndi mér nú leiðast að vera jafn mikið kyntröll og hann var nú í lifanda lífi!!!

Í minningu látinnar hetjur og stórmennis (myndböndin við Jeanny, Der Kommissar, Amadeus)

Bloggleysi - bragarbót á

Já, hef ekki verið duglegur (í einn sólarhring) að blogga en mojoið hefur bera verið að stríða mér. Set inn færslu sem átti að koma inn í gær en blogger vildi ekki:

Á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu í dag er að finna margar ansi spennandi fréttir, m.a. þrjár úr Skagafirði!! Fyrst ber að geta að bátur strandaði við Fagranes í vikunni, mannbjörg varð. Ekið var á tvö hús á Króknum sama daginn og mun þetta ekki vera algengt á þessum slóðum, alla vega að þetta gerist tvisvar sama daginn. Um ótengd mál var að ræða. Þriðja fréttin er svo öllu stærri og fær meira pláss á blaðsíðunni. Það er að Vaktstjóri á vakt í bjórauglýsingu pilta. Þeir hafa jú alltaf verið líberal í Skagafirði og er greinilegt að svo á einnig um yfirbaldið. Vaktstjórinn umræddi er Sveinbjörn Ragnarsson, ekki veit ég hvort hann er AA (aðfluttur andskoti) en vel fellur hann að ímyndinni (skál og syngja og allt það). Mun myndbandið vera hið skemmtilegasta, þar sem vímuefnaneysla er mærð og slagsmál brjótast út uns varðstjórinn mætir á svæðið, í búningi enda á vakt og styngur leikendum inn (í steininn) með nokkrar dósir af Víking-bjór, mjöði okkar auðlindafræðinga. Vífilfell sver af sér öll tengsl við myndbandsgerðina. Mál þetta ku vera í rannsókn og verður spennandi að fylgjast með framvindu þess. Ekki er tekið fram hvort löggumanninn hafi verið settur í tímabundið leyfi. Svo er fólk sem segir að úti á landi gerist aldrei neitt. (Fréttablaðið föstud. 27. apríl 2007)

föstudagur, 27. apríl 2007

Umhorfs...





Svona er umhorfs þessa stundin í vinnustofu minni. Það mætti halda að einhver byggi þarna :)

fimmtudagur, 26. apríl 2007

Tónleikar á morgun...

Ég ætla á tónleika annað kvöld, föstudagskvöld. Plokkað hringinn með Rás2. Lay Low og fleiri spila. Ég hlakka bara mjög til, það verður gulrót næturinnar svo ég haldi vel á spöðunum og hafi eitthvað til að hlakka til (reyndar SEA í fyrramálið 8.20, en maður massar það). Ef ykkur langar með á tónleika, kaupiði miða og við sjáumst á Nasa 21.00 annað kvöld!!!

Köbenhavn, akkúrat núna... NÆS

Byrgið VII



Afeitrun hafnfirsku jómfrúanna

Þarna vildi ég vera núna...




Myndar teknar rúmlega 10 að kvöldi 14/7 2004 á Víðidal í Vesturfjöllunum milli Skagafjarðar og Austur-Húnavatnssýslu. Pápi sálugi á myndinni með gönguhattinn sinn á dalnum sínum. Hann var manna fróðastur um þetta svæði og þekkti hvern stein á þessum dal. Þarna vildi ég óneitanlega vera núna, frekar en að sitja hér og húka yfir prófi um miðja nótt!!!

Næturgöltur

... og talar svona góða íslensku!!!

Sláandi

48% norskra karlmanna telja að daðursamar konur geti sjálfum sér um kennt sé þeim nauðgað. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is
Sláandi niðurstöður að mínu mati!!!

miðvikudagur, 25. apríl 2007

Spegill

Spegill, spegill herm þú mér, hver á landi fagrastur er????

Googla

Okkur Dagnýju og Lindu vantaði mynd af Bezt í heimi slóganinu hjá Thule-bjórauglýsingunum (sem nota átti í fyrirlestur sem við vorum með í dag). Við prófuðum því að slá inn Thule en niðurstöðurnar voru spúgí!!! Prófaðu að googla Thule, þá veistu hvað ég er að meina og veldu myndir. Flott þessi germanska kona ;)

Óþolandi

Óþolandi þessir dúddar sem syngja alltaf lag þegar maður segir eitthvað orð eða línu úr lagatexta. Finnst þér það ekki????

Heimapróf, heimapróf úlalalal....

Fyrsta próf annarinnar (svona "alvöru" próf). Er frekar heppinn með spurningar, er búinn að gera einstaklingsritgerðir sem snerta tvær af 5 spurningum sem sem velja á svo 3 af. Nú er bara að klára þetta í einum grænum sem ég geti snúið mér að öðrum fyrirliggjandi verkefnum :) Man. Utd. vann sigur í meistaradeildinni í gær og ég er nú farinn að hlakka til sumarsins þar sem ég verð vonandi tíður gestur á KR-vellinum, eða Mekka eins og ég kýs að kalla þann völl!!! Gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar mínar :), sumarið er alvega að koma ;)

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Mojo arrived

Eftir smá kaffihúsaspjall með D kom lærdóms-mójóið sem elding :) Ég nýtti það og kláraði SemII ritgerð III nánast. Á bara eftir lokaorð. Það er sem sagt von um að þetta náist allt...

mánudagur, 23. apríl 2007

Frá þjáningu til gleði

Nóg af þjáningarpistlum, í bili. Langaði að deila með ykkur að það er fyrst núna sem Þjóðverjar fá að njóta "Little Britain". Döbbað auðvitað en þeir þekkja sjónvarpið víst ekki öðruvísi blessaðir. Betra seint en aldrei segi ég bara :)

Þjáningarsystkini!!!

Til ykkar þjáningarsystkina langar mig að senda baráttukveðjur í öllu amstrinu. Þetta reddast eins og alltaf og svo verður tekið á því 12. maí næstkomandi með Júróvisjón og kosningum!!!!! Op með humöret :)
Ástæðan fyrir þessu hvatningar-bloggi mínu er sú staðreynd að skörð hafa verið hoggin í hóp bestu vina og vandamanna og þjáningarsystkina sem nema við HÍ. Ekki er þetta fólk nú farið yfir móðuna miklu (sem betur fer) en ýmiskonar sjúkdómar eru farnir að hrella lýðinn sem ég vil meina að orsakist af þeirri einföldu ástæðu (sé sem sagt rót vandans) að álagið í skólanum sé allt of mikið!!!!! Yfirgnæfandi stress leggst á fólk og kemur það fram í líkamlegum kvillum.
Sú einfalda staðreynd að maður þurfi að skila 100% námsárangri til að fá fullt lán frá LÍN er ótækt (15 einingar). Þetta er magnað þegar t.d. í Boston University fullt mastersnám er skilgreint sem 12 einingar.
Eitthvað þarf að gera við þessu, því þeir sjúkdómar sem leggjast á ungt fólk geta fylgt þeim það sem eftir er og geta leitt til alvarlegri sjúkdóma í framtíðinni!!!!

Lærdóms-MÓJÓ óskast

Ég óska eftir lærdóms-mójói!!!!! Getur einhver bent mér á næsta sölustað?

sunnudagur, 22. apríl 2007

Jet-leg

Kominn suður aftur eftir hopp á Krókinn. Maður gæti nú alveg vanist þessu jet-set lífi. Verð að segja að það er dáldið magnað að koma þangað og fara ekki lengra en á flugvöllinn. Ég sem bjó þarna ekki fyrir svo löngu. Nína sagði einmitt við mig í dag að þetta væri nú hálf fyndið. Ég dró hana á Krókinn, en nú er ég fluttur burtu og hún er þarna enn og er ekki að fara :) Fljótt skipast veður í lofti. Stráksi er sem sagt kominn í fjörðinn og ég byrjaður að stauta á fullu, hópavinna áðan og nú er það environmental Kuznets curve sem stefnt er að að skila á morgun. Bis später!!!

Sunnudagur



Hmmm, þá er runninn upp sunnudagur og stráksi fer norður í dag (súperman). Ég komst að því fyrir helgi að það er ekki bara tímasparnaður sem fylgir því að fljúga með hann norður. Annars vegar tekur ferðalagið 2,5 klst í staðin fyrir um 8 með bíl (ef veður er gott) og svo kostar bara rúmlega 5þ. kr að fljúga. Það finnst mér mjög ódýrt!!! Keyrslan myndi kosta 12-14þ. kr. Ingimar verður svo aftur hérna um kosningahelgina :) þannig að maður hefur eitthvað að hlakka til í geðveikinni sem bíður næstu 3 vikur :) Úps, en nú er það lærdómurinn, amman er í sundi með alla hersinguna og ég á að nota tímann á meða.

laugardagur, 21. apríl 2007

Föstudagskvöld



Föstudagskvöld sem átti að vera mjög rólegt en endaði með pínu bjórdrykkju. Dagný, Bryn og Sandra, takk æðislega fyrir góða kvöldstund (fékk myndina af bloggi Dagnýjar)

Léttmeti



Léttmeti á laugardegi

föstudagur, 20. apríl 2007

Nær orðlaus


Svona líta ný-nasistar út í Moskvuborg.
Erlendir nemendur við háskóla í Moskvu eru hvattir til að vera heima dagana í kringum 20. apríl vegna þess að þá átti Hitler (Hjalti) afmæli og nota þessi illar þá tækifærið og ráðast á fólk sem er öðruvísi á litin. Það er magnað að þetta sé að gerast árið 2007. Ég á ekki til orð.

Hundraðasta færslan!!!

Mér reiknast til að þetta sé hundraðasta færslan á þessari bloggsíðu minni. Ég hef haft mikið yndi af því að skrifa á hana og þess vegna ætla ég að halda áfram að láta ljós mitt skína á henni, alla vega 100 færslur í viðbót :)
Eins og glöggir hafa e.t.v. tekið eftir eru alltaf slegin tvö bil á eftir punkti og í þá sérvisku mun verða haldið í, og kannsi verður z tekin upp auk gömlu kommusetningarinnar sem mér finnst miklu betri en sú nýja (en þarf að lesa mér meira til til þess að fullkomna hana, geri það kannski í sumar). Kæru lesendur. Nú kallar sonurinn og við ætlum að skemmta okkur yfir Línu Langsokki á Sjónarhóli. Alveg afbragðs mynd það.

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Sumarið er tíminn...

Gleðilegt sumar allir saman...
Munið bara að:

Sumarið er tíminn
þegar kvenfólk springur út...

Systkinin og frændi þeirra


Ingimar, Margrét systir hans og Emil Andri frændi þeirra í baksýn :)

Næturbrölt

Mér leiðist dáldið þegar stjórnmálaflokkar geta ekki markað sér stefnu og haldið sig svo við hana. Það fer bara ROSALEGA í pirrurnar á mér þegar það gerist. Samfylkingin hefur leikið þennan leik hvað varðar umhverfismálin, VG á Húsavík eru gegn sumri en ekki allri stóriðju. Frjálslyndir eru á móti útlendingum, en samt ekki. Framsókn hefur enga sérstaka stefnu, nema helst þá að gera hvað sem er til að vera í stjórn. Þá er bara íhaldið eftir sem hefur þá stefnu að allur flokkurinn hafi sömu stefnu. Jú og auðvitað að gera þá ríku ríkari. En eitt meiga þeir eiga að flokkurinn talar allur (alla vega svo ég muni eftir) sama rómi í hvað einstaka mál varðar (leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál). Þýðir þetta að ég sé kannski bara íhald eftir allt saman? Er það bara uppeldið sem gerir það að verkum að ég kýs ekki íhaldið? Mun ég einhverntíma trúa á stöðugleikann? Verður hagvöxtur mér einhverntíma svo ofarlega í huga, og verðbólgan auðvitað, að ég gangi til liðs við íhaldið? Ég bara spyr...

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Mynd frá laugardeginum


Stephan Anders og ég. Endurfundir eftir allt of mörg ár og nú er jafnvel planað að fara til Tübingen í maí/júní

Áframhald um olíustöð

Heyrði eftirfarandi í fréttum áðan frá fréttaritara RUV í Noregi.
Það er sem sagt olíuhreinsunarstöð í Noregi, sú nærst stærsta í Evrópu (en er talin meðal á heimsvísu). Það leggja sex olíuflutningarskip að á dag, stærðir þeirra eru 380.000 tonna og svo 440.000 tonna skip. Nú spyr sá sem ekki veit hvort þetta er heildarþungi með farmi eða hvað þau geta borið? Alla vega er um mikið magn af olíu að ræða. Þessi skip þola illa lagðan sjó og ekki er talið æskilegt að byggja svona hreinsunarstöðvar þar sem hætta er á hafís (er hafísinn ekki einmitt stutt frá landi núna þarna fyrir vestan?). Svo sagði fréttamaðurinn að skip hafi strandað fyrir strönd Noregs fyrir nokkrum árum, en "heppnin" hafi elt menn, það var tómt og þvi fóru bara nokkur þúsund lítra af eldsneyti í sjóinn en hefði getað verið MIKLU meira!!! Hins vegar kom í ljós að yfirvöld í Noregi voru ekki viðbúin slysum af þessari gerð (eru samt búnir að bora eftir olíu í tugi ára) svo ein spurningin er hvort við værum eitthvað betri? Auðvitað eru þetta bara pælingar nema í umhverfis og auðlindafræði, en mér finnst nú ansi mikið á henni huldu með þetta og vil ég nota tækifærið til að vara menn við áður en farið er út í atkvæðaveiðar og loforð fyrir komandi kosningar. Precautionary principle er hér hið gullna hugtak!!!!!!

Elja...

Fyrir ekki mörgum dögum síðan tjáði ég mig um að það væri stórt hópverkefni í gangi í SEA. Við erum búin að vera rosalega dugleg og kynningin var næstum kláruð í dag sem flytja á á föstudginn. SEA er ensk skammstöfun fyrir það sem á íslensku útleggst umhverfismat áætlana og verða m.a. öll aðalskipulög landsins að fara í gegnum þetta ferli. Þetta var hins vegar bara útúrdúr frá því sem ég ætlaði eiginlega að blogga um. Þrátt fyrir annríkið með SEA hef ég nefnilega aðeins náð að fylgjast með fréttum og þá helst þeim háleitu hugmyndum Vestfjarðarnefndarinnar að athuga með hvort ekki megi reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar (eða hvað sveitarfélagið heitir nú) segist ekki geta slegið frá svona hugmyndir og er æstur í að láta kanna þetta nánar. Hreinsunarstöðin myndi nefnilega skaffa 500 störf, hún sé ekki mengandi (að hans sögn), ekki sé um stóriðju að ræða (enda Vestfirðir auglýstir sem stóriðjulaust landsvæði) og að aðeins þurfi um 130 hektara fyrir stöðina (hvað er það á flatlendinu Vestfjörðum). Ekkert var rætt um áhættuna fyrir lífríki sjáfar í þessari umræðu og áhættuna á að olíuflutn.skipin gætu strandað eins og Wilson Muga gerði svo vel á Reykjanesi, enda hlýtur það að teljast aukaatriði (eða svo má halda af fréttunum að dæma). Fylgist vel með þessari umræðu, hún gæti orðið hin mesta skemmtun ;)

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Slydda með köflum...

Það er slydda úti... og sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn :) Þetta er Ísland í dag

mánudagur, 16. apríl 2007

Læri

Læri, læri, læri en fá tækifæri.
Helgin var frekar viðburðarík. Ég fékk mjög óvænta símhringingu frá Stephan nokkrum Anders gömlum vini mínum frá Tübingen sem staddur var á klakanum. Það var því ekkert annað að gera en að fara og hitta hann og Niels félaga hans í bænum á laugardagskvöldið, eftir að hafa farið út að borða á Shalimar. Yfirlýsingin um að detta ekki í það meira fram yfir próf datt því úr gildi, auðvitað ekki nema von þegar ég á í hlut, en nú hefur heitið aftur verið strengt. Það var auðvitað frábært að hitta félaga Stepahan, þýskan vall upp úr mér og við gátum rifjað upp gömlu vitleysunar sem við áorkuðum að gera þegar ég bjó í Tübingen. Stefnan er svo sett á að heimsækja hann í sumar :) Frá því á sunnudaginn hefur svo tími minn farið í að vinna að hópverkefni í SEA. Það vill til að hópfélagar mínir eru flestir áreiðanlegir og vinnan gengur vel að mér finnst. Svo hélt ég líka eitt stykki fyrirlestur í dag og það gekk líka vel (meiri bjartsýnin þetta). Fór svo í gymmið eftir allt of langt hlé í dag og ætla aftur á morgun. Nú á að taka þetta með enn einu trompinu!!!
Látið ykkur ekki leiðast,
kv. Ó

miðvikudagur, 11. apríl 2007

Eftir kosningaspá...


Eftir svona spá er ekki annað hægt en að setja inn mynd af prinsinum minum (gæti haldið úti bloggi bara með myndum af honum). Þessi tekin síðasta sumar, eftir Danmerkur og Svíþjóðarferð :)

Kosningaspá

Mín spá um næstu ríkisstjórn eftir Alþingiskosningarnar í vor er eftirfarandi:

Það verða D og VG sem sættast á samstarf vegna þess að þeir geta sameinast um andstöðu við ESB aðild!!! Stjórnin mun hafa meira en 65% fylgi þjóðarinnar.
Athyglisvert verður að sjá hvort þessi spá rætist, eða hvað finnst þér?

mánudagur, 9. apríl 2007

Myrkraverk???


Dagur frændi tók þessa mynd þegar ég tók við styrkinum frá LV um daginn. Hún er skemmtilega "svört".

Tired tired tired

Það hlýst þreyta af að fara seint að sofa. Hef rannsakað það og sannað all rækilega núna. Kíkti til Atla vinar mins og hans konu og var kominn heim mjög seint, og er ótrúlega þreyttur. En það er bara eitt við þreytu að gera og það er að hella í sig kaffi og vona að maður hressist ekki eitthvað. Næsta úrræði er svo að leggja sig sem kannski verður gripið til seinnipartinn...

sunnudagur, 8. apríl 2007

Gleðilega páska öll sömul :)


Í tilefni páskanna langar mig að deila með ykkur mynd sem tekin var í ferðinni á Suðurnes um daginn. Mundi ekki eftir að hafa tekið hana.

laugardagur, 7. apríl 2007

Tjúttað fram á nótt?

Nú er aldrei að vita nema farið verði út að tjútta í kvöld, en fyrst er það matarboð/stofnfundur sem er á dagskránni. Þar sem ekki er alveg klárt hvort verður af stofnun þess í kvöld verður ekkert meira látið uppi um hvers konar félag málið snýst, að svo stöddu.
Lög og siðareglur félagsins verða ræddar í kvöld og þær bornar undir atkvæði og ef næg þátttaka fæst verður af stofnun félagsins. Nú eru án efa margir orðnir spenntir og verða þeir hinir sömu að byrgja spenninginn inni eða hafa samband við D eða mig til þess að fá nánari skýringar á samkomunni. Ekki er útilokað að talað verði tungum og skápagrín í hávegum haft!!!
Ég kveð að sinni með línu úr kvæði sem fannst í gömlu íslensku handriti sem fannst í British Library:

"Harmagrátur einnar stúlku eptir burtdauðan tittling er hún missti"

Kv. Óli

Mynd af afkvæminu


Af afkvæminu

Saga höfð eftir Ingimar. Þegar ég var 3 ára, og ég var að brölta, kom maður og skjótti í rúllun en ég flaug, var Batman og sló hann á munninn og grípti það. Þú átt að vera kurteis við refinn sagði pabbi minn og ég sagði já elsku pabbi minn, en rebbinn hljópti eins hratt og hann gat ofaní gjótuna og hlóð fyrir svo stóra nátttröllið geti ekki náð honum... Hann er mjög uppátækjasamur og mamma hans var orðin þreytt á stælunum við matarborðið um daginn og spurði hvort hann væri að bíða eftir að hún yrði reið? Nei, sagði hann, ég er að bíða eftir að ég verði stilltur. Svo hvarf hann um daginn og upp hófst mikil leit að honum. Svo fannst hann hjá barni í nágreninu. Nína stóð í ganginum og skammaði hann fyrir að láta ekki vita hvert hann hefði farið, foreldrar barnsins voru þarna líka og hann snéri sér að henni og sagði, ahh, ég man það bara næst og hvarf svo inn að leika sér :) Nína vissi hreint ekki hvernig hún átti að vera eftir þessi svör stráksa. Að lokum sagði mamma hans við hann um daginn að hann ætti að hætt að tala í boðhætti. Nei sagði Ingimar, mér finnst svo gott að tala í boðhætti :)
Hvernig er annað hægt en að hlæja að þessu, svörin á reiðum höndum og lætur sko ekki eiga hjá sér. Nú fer hann svo bráðum að koma suður og tilhlökkunin eykst með hverjum deginum :)

Myndir úr ferð gærdagsins



Allt með ró og spekt...

Þá er kominn laugardagur :) og nú er farið að rigna þannig að maður tollir kannski eitthvað við lærdóminn í dag (það er reyndar nauðsynlegt svo allir í sea-hópnum haldist rólegir :)
Eins og sást á færslu gærdagsins ákvað ég að fara í smá bíltúr til að virða fyrir mér Wilson Muga sem strandaði við Sandgerði fyrir ekki svo alls löngu. Veðrið var flott en pínu svalt í skeggið.
Þegar við (Dagný fór með mér) komum að strandstaðnum gátum við ekki annað en hlegið vegna þess að það var svaka umferð af fólki, sem vildi auðvitað helst ekki ganga neitt og draumurinn hefði verið að geta keyrt alveg út í skip. Við hins vegar, eins létt á fæti og við erum, löbbuðum til að leyfa þeim eldri og hrumari að keyra alvega niður í fjöruna. Myndir af þessu hér fyrir ofan. Okkur fagidjótunum varð auvitað hugsað til mengunarinnar sem þetta strand hefur valdið með aukinni umferð um svæðið og átroðningi. Það hefði jafnvel þurft að taka hana út. Strandið hefur lítil jákvæð áhrif fyrir þetta svæði, það þarf ekki að keyra í gegnum Sandgerði til að fara að skipinu. Til að klára svo rúntinn um Reykjanesið komum við við á Garðskagavita og svo í 10/11 í Keflavík. Þaðan var svo strauið tekið heim og kvöldið tekið rólega og bara glápt á imbann og farið snemma að sofa.

föstudagur, 6. apríl 2007

Camping

Í anda páskanna ;)

Páskar

Ég verð að segja að það er eitt sem ég á mjög erfitt með að þola við að vera í skóla. Það er að hann vofir yfir manni stöðugt og við undarlegustu aðstæður er maður með hugann við næstu verkefni. Af þessum sökum ákvað ég í gær að hætta að hugsa um skólann, og það tókst bara alveg ágætlega, og svo vaknaði ég í morgun og hugurinn var við námið :) Skammgóður vermir en samt rosalega upplífgandi. Nú er ég svo að hugsa um að gera eins og í gær, og nota daginn til að fara rúnt út á suðurnes og skoða Wilson Muga, áður en íslenska ríkið þarf að borga fyrir niðurrif dallsins (ég spái því alla vega að það endi svoleiðis). Ég verð líka að viðurkenna að suðurnesin þekki ég alls ekki nógu vel og eru þau samt svona nálægt, eru vannýt auðlind í mínu lífi alla vega. Nú er sem sagt kominn tími til að breyta því.
Dagur frændi var að fara af landi brott í dag, eins bölvað og það er nú. Frábært að hafa hann hérna í húsinu, nú er bara að láta sig hlakka til að fá hann aftur á Klakann. Gæti reyndar verið að ég sjái hann næst í Köben (væri nú ekki slæmt) og þá verður kannski tekin smá rimma í Nintendo Wii tölvunni hans sem hann fékk í útskriftargjöf... Man það er skemmtilegt tæki :) en sem betur fer á ég ekki svoleiðis því þá færi of mikill tími í það hehee
Góðir hálsar, nú ætla ég út í góða veðrið og njóta þess áður en suðvestan-áttin kemur með hvelli,
gleðilega páska
kv. Ó

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Páskafrí hafið

Góðir hálsar, nú er páska"frí" námsmannsins hafið. Gleðilega páska, gangið hægt um gleðinnar dyr (ég mun alla vega gera það) og njótiði nú eggjanna :)
Kv. Ó

mánudagur, 2. apríl 2007

Afsakaðu

Minn kæri Stefán Arason yfirnobbari,
ég biðst hér með opinberlega afsökunar á að hafa farið til Kaupmannahafnar án þess að hafa látið heyra í mér!!!!
Ég bæti úr þessu með að heimsækja land baunanna (eins og þeir sögðu alltaf við mig fyrir Östan) aftur á haustdögum!!! Mun ég þá ekki gera sömu mistök aftur.
Kv. Ó