mánudagur, 30. apríl 2007

Fiskveiðar á erlendum miðum

Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifa um fiskveiðar á þessu bloggi, ég held bara að það hafi aldrei gerst. En nú verður sem sagt breyting á. Ég rakst nefnilega á frétt á vefnum skip.is sem er ágætis netmiðill blaðsins Skipafrétta sem kemur út reglulega (man reyndar ekki hversu reglulega). Í dag er fjallað um flaggskip íslenska fiskiskipaflotans, Engey RE-1 sem nýverið komst í eigu Samherja. Eftir eina veiðiferð í viðbót á kolmunna á skipið að fara í slipp þar sem gerðar verða breytingar á því fyrir nýtt hlutverk, eða veiðar við strendur Afríku. Þeir sem eitthvað til þekkja vita að þar er stunduð massíf rányrkja vestrænna útgerða og lítið sem ekkert skilar sér til almennra íbúa þessara fátæku landa. Það er nú gott að vita að við leggjum okkar að mörkum og stuðlum að ofveiði stofna sem ekki eru undir neinni vernd fiskveiðistjórnunarkerfa. Í áhöfn verða 5-7 Íslendingar af um 80 manns. Skipstjórinn sem ráðinn hefur verið hefur víðtæka reynslu á veiðum við Afríku, hefur stýrt skipum sem m.a. hafa verið gerð út frá Máritaníu og Marokko. Ísland - Bezt í heimi
Eftir ábendingu langar mig til að koma með smá tilkynningu: "Ég vona að Íslendingar séu ekki að fara að stunda rányrkju við strendur Afríku heldur sýni gott fordæmi og veiði af skynsemi".

1 ummæli:

Arnþór sagði...

Ekki ætla ég nú að fullyrða neitt um fyrirætlanir Samherja með þetta skip en finnst ekki endilega sanngjarnt að úthrópa þá sem glæpamenn og skúrka fyrirfram. Síðast þegar heyrðist af skipi sem var sent til veiða á Afríkumið var það fyllt af hjálpargögnum áður en siglt var af stað. Ég veit nú ekki hvort að Engey verður fyllt svo auðveldlega af hjálpargögnum en það væri auðvitað verðugt verkefni.