Sælt veri fólkið,
Þá er kominn mánudagur og fyrir liggur vika með alveg ótrúlega fáum verkefnum. Ástæðan hins vegar fyrir þessari færslu er skemmtanalíf helgarinnar. Málið er nefnilega að ég veit vel að þeir sem ég þekki og eru orðnir ráðsettir öfunda þá sem eru lausir og liðugir af því hversu mikið þeir geta stundað næturlífið. Enda mjög skiljanlegt. Svo er auðvitað einhver öfund í hina áttina, en hún er nú bara efni í aðra færslu.
"Skemmtanirnar". Á meðan margir slöfruðu í sig þorramat á föstudagskvöldið bauð Helga systir í mat, spænskar tortillur með öllu tilheyrandi (og ekki saknaði ég þorramatarins). Þegar Dagný duglega var svo búin að læra skeiðuðum við í fornleifafræðipartý/vísindaferð. Það var alveg ágætis skemmtun þar sem fornleifafræðingar framtíðarinnar drukku bollu með spirtus fortis og létu vel af. Ótrúlegir naglar þarna á ferð!!! Við þessi eldri (D og ég) héldum okkur auðvitað bara við bjórinn. Þegar hins vegar gítarinn var tekinn upp var í snarhasti ákveðið að yfirgefa samkvæmið og halda niður í bæ (stál og hnífur er ágætt í útilegunni og á heima þar). Farið var á Hlölla og maður renndi niður einni sveittri langloku, sem gerði það að verkum að lítil áfengisáhrif fundust það sem eftir var nætur, en bjargaði laugardeginum frá þynnku dauðans. Mæli með þessu fyrir þá sem eru ráðsettir og hafa gleymt svona lykilatriðum!!! Þá erum við komin að lykilatriði þessa kvölds. Bærinn (og þar með allir staðir sem við fórum á) var SUBBULEGUR í einu orði sagt. Það flæddi upp úr klósettunum á Celtic, þeim annars ágæta stað. Þess ber þó að geta að ekki sást til neins að létta af sér yfir borðin og stólana niðri. 11 var svo sem laus við portkonuviðskipti í þetta skipti en var útúrreyktari en venjulega. Þetta átti svo alla aðra staði sem við fórum á. Það var því farið snemma heim (svona um 3 hehe).
Laugardagskvöld. Eftir júróvisjón héldum við D svo aftur niður í bæ. Ég ætla ekki að ræða meira um þá "skemmtun" í bili, m.a. vegna þess að hin brjóstagóða gyðja Heiða komst ekki einu sinni áfram, þó svo hún hafi verið sú eina sem hélt lagi (ekki það að lagið var kannski ekki mjög júróvisjonlegt, en það var Lordí heldur ekki). Hins vegar komst eitthver Brink áfram, sem missti næstum í buxurnar þegar hann reyndi að syngja, söss...
Ég veit ekki alveg hvernig skal lýsa miðbænum að nóttu til um helgar þegar magn hormóna er mjög hátt og dýrslegt eðli fólks kemur bersýnilega í ljós. Ég ætla þó að reyna. Fyrst dettur mér í hug hópur úlfa sem nálgast bráð sína með lævísi og aðgætni. Hópar testósteronklumpa koma inn á staðina, skima og skanna, dreyfa sér um lókalið og bera kennsl á tilkippileg kvendýr sem senda frá sér ferómón (ef ég man rétt) í réttu magni og eru því að beiða. Sumir nota hins vegar kattardýraleiðina. Þeir eru einir á ferð, nálgast bráðina lævísir eins og úlfarnir en fara sér hægar. Bakland hópsins er ekki fyrir hendi og því þarf að fara varlegar. Mér sýnist þetta reyndar vera ágæt leið til árangurs. Ef menn kunna líkamstáknmál markaðarins, sulla kannski smá bjór yfir fórnarlambið og þurrka varlega, þá virðist björninn oft vera unninn. Ég gæti kannski einhvern tíma skrifað um þessar aðferðir, ef maður nær einhverntíma að meistara þær (eða þið skiljið hvað ég meina). Laugardagskvöldið var því ekki jafn subbulegt, ekkert hland flaut um gólf þeirra staða sem farið var inná, mikil framför. Og Nota bene, aftur var áfengismagnið í blóðinu undir öllu velsæmi.
Þangað til næst,
kv. Óli
mánudagur, 22. janúar 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
já kannski er manni að takast að mastera hófsamt sukklíferni. Það væri ekki verra..
Skrifa ummæli