fimmtudagur, 17. janúar 2008

Annars konar annáll - nær því að vera hugleiðingar sem markast af áfengismagni í blóði

Vegna þess að ég tel mig hafa gert árinu góð skil nú þegar á þessari bloggsíðu hef ég ákveðið að gera ekki dæmigerðan "klukku"annál (nema andinn komi yfir mig, en hann kemur þá bara eitthvað síðar), heldur smella inn smá pistli sem ég lagði grunninn að þegar ég sat á Hvids Vinstue við Kongens Nytorv í henni Kaupmannahöfn 17. desember 2007 (klukkan var um 2 e.h.) og sötraði Tuborg Julebrygg á meðan ég beið eftir að ástin mín hún Vaka kæmi til borgarinnar. Fyrir utan Vöku er G-meillinn annars uppfinning ársins 2007 og þakka ég Dagnýju kærlega fyrir að kynna mig fyrir þessu mikla undratæki sem nú eru stór þáttur í mínu lífi :)

Það hefur lengi staðið til að fara á stefnumót "með" Hvít (líkt og pabbi kallaði staðinn sem og fleiri Íslendingar) en flestir þekkja staðinn líklega sem Hvids Vinstue. Þetta var mikill uppáhaldsstaður hans. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll viðkomustaður þystra Íslendinga í gegnum aldirnar, meðal annars mun Jónas Hallgrímsson hafa verið þarna tíður gestur. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll hjá Dönum og á veggjum hans hanga margar myndir af frægum gestum staðarins. Eftirfarandi var skrifað þennan umrædda dag, en verst þykir mér þó að ekki fær hin fagra rithönd mín að njóta sín, sem versnaði umtalsvert eftir því sem bjórunum fjölgaði í maga mínum:

"Það er ekki ómerkilegt að sitja á Hvít og sötra Julebrygg, en flestir fá sér þó jólaglögg, sem virðist vera heitasti drykkurinn á köldum eftirmiðdegi í hjarta Kaupmannahafnar við Kóngsins Nýja-Torg. Í dag er 17. desember 2007 og það er ekki laust við að maður sé farinn að kippa (í svona 2-3 tær). Rakastigið í manni er því farið að hækka lítilsháttar en ekki líður manni ver þegar snakkað er á Dönsku allt i kringum mann og atmosfæren er jafn góð og raun ber vitni.

Nú er erfitt að fá þjónustu, staðurinn er orðinn fullur og ég var bara heppinn (nú fyrir 2 klst. síðan) að fá borð, náði nú augnkontakti. Fimmti Tub. Julebrygg liggur brátt í valnum.

Á sama borði og ég sitja bræður (ég hef fundið það út með því að hlera), báðir um áttrætt, og ræða um heyrnartæki. Nánar tiltekið heyrnartæki sem útiloka þrusk og stoj (líkt og danskurinn segir). Það slær svo öðru hverju úti fyrir þeim en þeir ná samt alltaf þræðinum aftur, eftir mis-langan tíma þó :) Þeir hittast greinilega ekki oft, spurningarnar sem þeir spyrja hvorn annan eru þess háttar, en það fer vel á með þeim. Ótrúlega en nú gaman að fylgjast með mannlífinu.

Á næsta borði sitja nokkrir samlandar mínir, og það eru ekki þeir fyrstu sem setjast við það borð síðan ég kom á svæðið. Það er eitthvað í fari þeirra (og þá væntanlega líka í mínu) sem gerir það að verkum að maður spottar þá alltaf í hópnum. Svo ekki sé talað um þegar þeir fara að hefja raust sína, ætli Íslendingar tali hærra en aðrar þjóðir (nema þó kannski ekki hærra en Svíjar). Það er kannski 66°N flíspeysan sem kemur upp um þá líka eða þá allir innkaupapokarnir sem þeir draga á eftir sér, hver veit?

Nú er ég farinn að hugsa mér til hreyfings, Vaka fer að koma með lestinni rúmlega 5. Áður en ég hætti verð ég samt að segja frá því að Dani (á næsta borði) talaði um "vini" mína Íslendingana sem Svía :) Óskaplegt er að við þurfum að vera svona lík Svía-grýlunni ;)

Adju mín kæru,

Kv. einn meir og fullur rétt fyrir jól"

föstudagur, 11. janúar 2008

Posted by Picasa

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Squirrel playing football

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Bloggið árið 2007

Árið 2007, fyrsta ár þessa bloggs, voru settar inn 315 færslur á það og rúmlega 7400 manns heimsóttu það. Ég þakka öllum sem lásu fyrir gott hljóð og skemmtilegar athugasemdir :) Megi þær verða fleiri í framtíðinni.

mánudagur, 31. desember 2007

Gleðilegt nýtt ár!!!!!



Kæru lesendur nær og fjær!!!

Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir þau liðnu og vonandi verður árið 2008 jafn skemmtilegt og viðburðaríkt og árið sem er að líða. Megi gæfan fylgja ykkur.

Kær kveðja,
Óli og Ingimar

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg Jól!!!




Kæru lesendur,
gleðileg jól og hafiði það nú sem allra best mín kæru!!!
Hugheilar jóla- og saknaðarkveðjur héðan frá Århus, þar sem við Vaka mín bíðum eftir jólunum með hinu kóngafólkinu í ríki Margrétar Danadrottningar.

Með jólakveðju,

Óli og Ingimar jólabarn, sem er örugglega núna að fara á límingunum af spenningi :)



miðvikudagur, 19. desember 2007

Kominn til útlandsins

Já þá er maður kominn til DK, nánar tiltekið til Odense. Prófin tvö sem ég fór í eru því búin, ég búinn að hrynja í það með skólafélögunum, búinn að vera hjá Degi frænda og Rósu spússu hans í tvær nætur í vellystingum líkt og endra nær og svo komum við Vaka til Odense í gær. Fyrir dyrum standa nú flutningar, stúlkan ætlar að tæma íbúðina sína fyrir jól og við förum því til Árósa á morgun, fimmtudag. Ég get ekki annað sagt en að ég hlakki nú til þessara flutninga og að geta komið sér fyrir í Árósum og farið að undirbúa jólin. Það sem annars er að frétta að ég er farinn að undirbúa nýársfærsluna mína. Hún verður í lengra lagi eins og fyrsta færsla þessa árs þar sem árið verður gert upp með einum eða öðrum hætti.
Ég kveð í bili, ekki fara í Kringluna (nema þið viljið missa vitið, eða svo segir mamma) nema þá á eigin ábyrgð!!!

Kv. Jóli

þriðjudagur, 11. desember 2007

Vitfirring!!!

Ef þú vilt komast að því að það er ekkert að þinni andlegu heilsu, miðað við mjög marga aðra kíktu þá á þetta:

Gúglaðu t.d. Lyftingablogg og/eða kíktu á linkinn hér fyrir neðan

Kreizzzzíness

Nýyrðasmíð


Haft hefur verið samband við orðabókina, og spurt er hvort einhver kannist við orðið Kisutittlingur, kisutittlingur. Ungur maður, 4. ára, sem elur manninn mest á Norðurlandi og 5. hverja viku sunnan heiða, notar þetta orð óspart við vissar aðstæður og segir þá: "þetter er nú meiri kisutittlingurinn".
Orðabókinni er alls ókunnugt um tilurð þessa orðs en biður alla sem heyrt hafa nafnsins getið eða vita hvað það þýðir eru beðnir um að tjá sig um það í athugasemdum á þessari síðu.

mánudagur, 10. desember 2007

Gamla Óla sprorðrennt án nokkurrar fyrirhafnar!!



Stráksi vill helst bara stór stykki, eintóm, þegar hann gæðir sér á últrasterka ostinum Gamle Ole. Sjón er sögu ríkari.

Illur sjóræningi á náttfötum á ferð

Já, maður getur verið töffari...

laugardagur, 8. desember 2007

Heheheh, það er til vistfræðingur sem heitir Rosenzweig (grein á rós - rósagrein). Hann eða hún hefur heldur betur fundið sér starfsheiti sem sæmdi ættarnafni hans, jú eða hennar :) (óskaplega er maður eitthvað karllægur).

Jákvæðni

er dyggð, eða það mætti alla vega ætla miðað við viðbrögðin við lofræðu minni um vistfræði hér um daginn. Nú er ég sem sagt að lesa blessaða vistfræðina og hef ekki skilið alveg við hana (jákvæðnina) en óskaplega er ég samt orðinn þreyttur á öllu þessu hugtakaflóði sem ausið er yfir mann. Ég er því að hugsa um að fá mér rölt í bæinn á eftir og láta jólaandann (ef til vill brjálæðið) veita mér inspírasjón til að halda baráttunni áfram.

Njótið aðventunnar mín kæru!!!

Kv. frá Óla sem alltaf er í skóla

þriðjudagur, 4. desember 2007

Andi kirkjunnar?

mánudagur, 3. desember 2007

Getraun

Af hvaða "stórfljóti eru eftirfarandi myndir?
Þær voru teknar í lok nóvember 2007.


Tekið uppeftir ánni.


Tekið niðureftir ánni.

laugardagur, 1. desember 2007

Hugvekja

Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Nú þegar ég sit og læri fyrir virstfræðipróf haustsins finnst mér það bara gaman (hver hefði trúað því að þessi orð ættu eftir að koma frá mér?). Vistfræðin er flókin vísindi sem þarf að taka inn marga þætti til þess að hægt sé að nota hana til að álykta um framtíð og þróun lífs á jörðinni.
Í haust, vegna þýðingar minnar á skýrslunni um fornleifauppgröftinn í Gautavík í Berufirði og eftir ótalmargar umræður við Dagnýju fornleifafræðing og vini hennar, hef ég líka komist í tæri við fornleifafræðina. Líkt og með vistfræðina finnst mér fornleifafræðin mjög spennandi, en þetta eru ótrúlega ólík vísindi.
Annars vegar er leitast eftir í vistrfræðinni að sjá fyrir hvernig vistkerfi hafa breyst og hvernig þau munu breytast og líta út í framtíðinni. Hvernig þau munu bregðast við t.d. loftslagsbreytingum og hvernig hægt er að nota "hugmyndafræði" vistkerfanna og yfirfæra þau yfir á okkur mennina og gera umhverfi okkar að vistkerfum (Industrial Ecology). Fornleifafræðin hins vegar lítur um öxl, reynir að segja okkur hvernig forfeður okkar lifðu og hrærðust, nytjuðu jörðina og sjóinn.

Hvaða nýju vísindum ég kynnist næst er ekki gott að vita, en ég mæli með að þið staldrið við og njótið þess sem þið lærið á hverjum einasta degi því þegar þeim punkti er náð finniði að þið eruð á réttri hillu!

Lifið heil.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Að sjá ljósið - eða upplifa það

Fyrir ekki svo margt löngu sagði góð vinkona mín mér sögu af því þegar hún fór út að hlaupa um 3 að nóttu (já, rétt athugað, hún er dáldið kúkú). Hún var búin að vera að læra lengi og vantaði að hlaða batterýin fyrir áframhaldandi baráttu. Annar skóþvengur hennar losnaði og þurfti hún því að stoppa og hnýta hann. Var henni þá allt í einu litið upp og við henni blasti ljósið frá friðarsúlunni sem konan Yoko Ono fékk menningarelítuna á Íslandi til að reisa í Viðey (sjá mynd)

Var þá eins og herskarar himnanna hryndu niður til hennar og hún fylltist miklum eldmóði og gleði (sem entist reyndar ekki lengi því hún hringdi svo hálf grenjandi í mig stuttu síðar í von um að ég vorkenndi henni og myndi væla með henni, hún hótaði meðal annars að hætta í náminu. Það gerðist ekki, ég sparkaði aðeins í hana og nú plummar hún sig fint, hefur dregið úr drykkjunni því annars þarf hún að éta hatt sinn 14. des.).

Ég sjálfur hef hins vegar ekki séð ljósið, nema þá í þeim Vöku og Ingimar, en hins vegar var ljósið og birta mér nokkuð hugleikin á ferð minni hringinn í kringum landið sem ég lagði upp í á miðvikudaginn í síðustu viku. Ég keyrði alla leið austur á Norðfjörð þann sama dag og í ferðinni tók ég þessar myndir. Sjáið, njótið og upplifið...


Hekla séð úr vestri í morgunmistri


Brúin yfir minni Jökulsárlóns


Þessi er tekin í Lóninu og má þarna sjá Stokksnesið austanmeginfrá.


Lónið og Stokksnesið


Kvöldsól í Lóni


Kvöldsól við Mývatn

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Naflakusk


Naflakusk getur verið hvimleitur andsk., eða það finnst mér alla vega. Á netslóðinni http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=6707 er hægt að lesa sé til um ástæður þess af hverju naflakusk myndast. Ég geri ráð fyrir að þetta sé meira "vandamál" hjá karlmönnum (alla vega hjá þeim sem farið er að vaxa hár) en konum, nema þær séu með mjög loðinn maga. Fann þess lýsingu á veraldarvefnum: Your typical generator of bellybutton lint or fluff is a slightly overweight, middle-aged male with a hairy abdomen. Ekki slæm lýsing þetta, en þar sem ég er ekki overweight tek ég þetta ekki til min :)
Góðar stundir!!!

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Brennandi áhugi...


Tilefni þessarar blogg-færslu er margvíslegt. Fyrir það fyrsta heyrði ég brot úr útvarpsþætti rúmlega eitt í dag, strax á eftir dánarfregnum og jarðarförum (ef til vill táknrænt) þar sem flutt var viðtal við konu, sem þulurinn sagði svo skemmtilega að hefði brennandi áhuga á helförinni. Hvort þetta sé viðeigandi orðalag læt ég liggja á milli hluta en verð þó að viðurkenna að þetta hljómaði nú eitthvað skringilega í mín eyru.
Annað tilefni þessarar færslu er svo auðvitað að þetta er færsla númer 300 á þessu ári. Í dag líður mér því eins og fegurðardrottningu sem brosir í gegnum tárin af einskærri gleði og hamingju og það sem ég óska mér heitast er að sjálfsögðu "world peace". Þessi ósk mun hins vegar að öllum líkindum aldrei rætast þar sem ég er búinn að segja frá henni opinberlega (held maður megi ekki segja frá óskum sínum). Vil svo við þetta tækifæri þakka öllum þeim sem hafa lesið bloggið mitt, en þeir geta nokkurn vegin hengt sig upp á það (þó ekki í orðsins fyllstu merkingu) að færslur næstu ára verða ekki fleiri en á þessu ári. Alla vega ekki miðað við andleysið þessa dagana!!
Þriðja ástæðan sem mér svo dettur í hug er sú að ég var að klára þýðinguna mína ógurlegu núna um helgina og eitt smáverkefni í dag og því gaf ég mér tíma til að smella inn þessum óskapnaði. Nú er hins vegar komið að smá klukkubloggi, svo ég geti í framtíðinni lesið hjá sjálfum mér hvað á daga mína dreif síðustu vikur.

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið mjög snemma á laugardagsmorgninum 17. nóvember, sótti ég kæra vinkonu mína hana Lilju til þess að taka hana með mér á rjúp norður í Hjaltadal, nánar tiltekið til fyrrum vinnufélaga míns hans Ólafs Sigurgeirssonar. Ólafur þessi er einn af fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar í þættinum Útsvari á RÚV. Leiðin norður gekk hins vegar ekki áfallalaust fyrir sig, þó sérstaklega ekki fyrir hana Lilju. Málið er að Lilja fór í vinnustaðapartý (þó ekki með meizz með sér) kvöldið áður og var á bíl. Ætlaði ekki að fá sér í glas vegna ferðarinnar daginn eftir en vegna þess að hún er dáldið "ginkeypt fyrir vín" (eigið orðatiltæki) gat hún ekki staðist freystingarnar og fékk sér í það minnsta í litlu tærnar. EN til þess að gera langa sögu stutta þurftum við að stoppa í Víðigerði á Víðidal (á malarplaninu) til að Lilja gæti farið út að fá sér frískt loft. Sú ferð endaði með því að það leið yfir hana, hún fékk sár á baki og marði öxl og höfuð. Hún ofandaði greinilega svona greyið að svona fór. Ég hótaði svo að skilja hana eftir á elliheimilinu á Blönduósi ef hún tæki sig ekki saman í andlitinu (sem hún svo og gerði) og var eins og nýsleginn túskildingur eftir einn Sóma á bensínstöðinni á Blönduósi. Ég verð að viðurkenna að þetta var nú frekar skrítin lífsreynsla, að horfa í hliðarspeglinum á þegar líður yfir manneskju en þar sem hún meiddi sig ekki mikið er hægt að segja frá þessu og hlægja líka (mér finnst þetta alla vega frekar fyndið). Veiðiferðin gekk svo bara oggu pínu vel, ég fékk eina rjúpu og svo stoppuðum við Lilja á Pottinum og pönnunni á leiðinni til baka, en þeir eru með útibú á Blönduósi. Það er vel hægt að mæla með þeim stað!!! Þjónustan er góð og maturinn líka og fær því 3* af 5* mögulegum.

Síðasta vika var svo sú síðasta sem ástin mín hún Vaka var á landinu (hún fór aftur út til Odense á sunnudaginn (í gær)). Þessi mánaðardvöl hennar á Íslandi endaði með að verða eldskírn okkar í að búa saman þar sem við vorum allan tímann á T12. Ingimar var svo hjá okkur í viku og ég verð að hrósa Vöku fyrir hversu vel hún tók þeim krass-kúrsi (með öllu því sem fylgir að hafa 4. ára barn "á arminum" allan daginn) og frábært er að sjá hversu hrifinn Ingimar er af henni. Ég gæti alla vega ekki verið hamingjusamari með þau tvö :)

Ætli ég láti þetta ekki bara nægja í bili, er á morgun að fara austur á land til Ömmu á Norðfirði, svo verður haldið til Akureyrar til Magga og Rósu og komið við hjá Stínu frænku og fjölskyldu á sunndaginn. Já það er ljúft að vera í skóla ;)

"Klám", af ráðríki kvenna og svo meira "klám" í tilefni af 299. færslunni á þessu blessaða bloggi





laugardagur, 3. nóvember 2007

þriðjudagur, 30. október 2007

Já maður er á lífi, en notar nú hverja mínútu sem gefst til að læra eða vinna (tvær min fyrir þessa færslu verða að nægja). Stráksi er hérna fyrir sunnan hjá okkur Vöku, litlu fjölskyldunni, og þar sem aðal barnapían (mamma) er að spóka sig í Berlin hefur maður nóg að gera :) Ég hef ekki verið í þessari stöðu frá því ég bjó fyrir norðan, að vera með hann einn allan daginn, og verð ég að segja að þetta er alveg frábært. Auðvitað er gott að hafa múttu og það auðveldar lífið mjög en þetta er alvöru :) Okkur Vöku ferst þetta líka bara vel úr hendi, hún er einmitt með I í afmæli hjá Leif, bróður sínum núna og svo þarf að elda í kvöld (ef þau koma ekki södd úr afmælinu ;) Hér er eldað á hverjum degi, soðinn fiskur í gær, læri á sunnudaginn svo að þetta er hard core!!!

Nú er það hins vegar Gautavíkur-þýðingin sem kallar. Textinn er mjög lélegur á frummálinu (nema ég sé svona lélegur í þýskunni hehehe), setningar sem ná yfirleitt yfir fjórar línur með fullt af aukasetningum og nú er vankunnáttan í fornleifaræðinni farin að segja til sín. Dagný er mér hins vegar innan handar svo þetta reddast, eins og alltaf :)

Góðir hálsar, bless í bili (tvöföldu) og ég hlakka til þegar þessari törn líkur!!!

laugardagur, 27. október 2007

föstudagur, 26. október 2007

295. færslan,

og auðvitað eru það Wulf og Morgenthaler sem fá heiðurinn af því að vera númer 295. Gleðin í sinni sem fylgir þessum stuttu ræmum er hreint með ólíkindum.

þriðjudagur, 23. október 2007

Myndir út og suður frá ferðinni til Odense, Köben og Berlin

Til að sjá útskýringar með hverri mynd þarf að velja albúmið og skoða það online eða velja kommentaboxið niðri vinstramegin.

Þemamyndir...

fimmtudagur, 11. október 2007

Föndrari af lifi og sál

Vegna fádæma undirtekta við síðustu mynd og heillaóska vegna þess með hvaða stórveldi stáksi heldur með í íslensku íþróttalífi ákvað ég að bæta við mynd af honum, að föndra, með að ég held nýjustu tengdadóttur minni. Hann á víst tvær kærustur en hin hefur ekki enn náðst á mynd með honum. Ef ég veit rétt er þetta dóttir kaupfélagsstjórans á Króknum og eins og glöggir sjá fer vel á með þeim skötuhjúum.



Til þess hins vegar að svara þeim gagnrýnisröddum sem heyrðust tengdar síðustu mynd sem birt var af Ingimar með KR-húfuna langar mig bara að segja þetta. 1. KR var ekki í fallsæti, þó svo að fjölgað hafi verið í deildinni. 2. KR-ingar þurfa ekki að lifa við það að hafa unnið bikarinn i knattspyrnu með því að draga vígtennurnar úr andstæðingnum. 3. Það sýnir sig bara að þessi blessuðu börn sem eru með KR-ingnum mínum á leikskóla láta ekki það á sig fá þótt einn sé öðruvísi og haldi með stórveldi í íþróttum í Íslandi og láta ekki einhverja afbrýðisemi koma fram í einhverjum látalætum sem stundum getur plagað þá sem ekki hafa stjórn á afbrýðisemi sinni ;)
Lifið heil, og áfram KR :)

miðvikudagur, 10. október 2007

Mynd af prinsinum í ham á leikskólanum Furukoti, Sauðárkróki


Hann er þarna með KR-húfuna í miðjunni :) ekki slæmt uppeldi þetta hehehe

mánudagur, 8. október 2007

Í útlandinu

Þetta er helvíti magnað, maður er ekki fyrr kominn á erlenda grundu þá fær maður pípandi og uppsöl. Ég hlýt að hafa valið þessa tímasetningu til að geta fengið þjálfaða hjúkrunarkonu og verðandi lækni til að sjá um mig!!! Ég er nú allur að skríða saman eftir allsherjar úthreinsun síðustu 12 tímana svo landið fer rísandi.
Ha' det!!