miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Að sjá ljósið - eða upplifa það

Fyrir ekki svo margt löngu sagði góð vinkona mín mér sögu af því þegar hún fór út að hlaupa um 3 að nóttu (já, rétt athugað, hún er dáldið kúkú). Hún var búin að vera að læra lengi og vantaði að hlaða batterýin fyrir áframhaldandi baráttu. Annar skóþvengur hennar losnaði og þurfti hún því að stoppa og hnýta hann. Var henni þá allt í einu litið upp og við henni blasti ljósið frá friðarsúlunni sem konan Yoko Ono fékk menningarelítuna á Íslandi til að reisa í Viðey (sjá mynd)

Var þá eins og herskarar himnanna hryndu niður til hennar og hún fylltist miklum eldmóði og gleði (sem entist reyndar ekki lengi því hún hringdi svo hálf grenjandi í mig stuttu síðar í von um að ég vorkenndi henni og myndi væla með henni, hún hótaði meðal annars að hætta í náminu. Það gerðist ekki, ég sparkaði aðeins í hana og nú plummar hún sig fint, hefur dregið úr drykkjunni því annars þarf hún að éta hatt sinn 14. des.).

Ég sjálfur hef hins vegar ekki séð ljósið, nema þá í þeim Vöku og Ingimar, en hins vegar var ljósið og birta mér nokkuð hugleikin á ferð minni hringinn í kringum landið sem ég lagði upp í á miðvikudaginn í síðustu viku. Ég keyrði alla leið austur á Norðfjörð þann sama dag og í ferðinni tók ég þessar myndir. Sjáið, njótið og upplifið...


Hekla séð úr vestri í morgunmistri


Brúin yfir minni Jökulsárlóns


Þessi er tekin í Lóninu og má þarna sjá Stokksnesið austanmeginfrá.


Lónið og Stokksnesið


Kvöldsól í Lóni


Kvöldsól við Mývatn

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Naflakusk


Naflakusk getur verið hvimleitur andsk., eða það finnst mér alla vega. Á netslóðinni http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=6707 er hægt að lesa sé til um ástæður þess af hverju naflakusk myndast. Ég geri ráð fyrir að þetta sé meira "vandamál" hjá karlmönnum (alla vega hjá þeim sem farið er að vaxa hár) en konum, nema þær séu með mjög loðinn maga. Fann þess lýsingu á veraldarvefnum: Your typical generator of bellybutton lint or fluff is a slightly overweight, middle-aged male with a hairy abdomen. Ekki slæm lýsing þetta, en þar sem ég er ekki overweight tek ég þetta ekki til min :)
Góðar stundir!!!

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Brennandi áhugi...


Tilefni þessarar blogg-færslu er margvíslegt. Fyrir það fyrsta heyrði ég brot úr útvarpsþætti rúmlega eitt í dag, strax á eftir dánarfregnum og jarðarförum (ef til vill táknrænt) þar sem flutt var viðtal við konu, sem þulurinn sagði svo skemmtilega að hefði brennandi áhuga á helförinni. Hvort þetta sé viðeigandi orðalag læt ég liggja á milli hluta en verð þó að viðurkenna að þetta hljómaði nú eitthvað skringilega í mín eyru.
Annað tilefni þessarar færslu er svo auðvitað að þetta er færsla númer 300 á þessu ári. Í dag líður mér því eins og fegurðardrottningu sem brosir í gegnum tárin af einskærri gleði og hamingju og það sem ég óska mér heitast er að sjálfsögðu "world peace". Þessi ósk mun hins vegar að öllum líkindum aldrei rætast þar sem ég er búinn að segja frá henni opinberlega (held maður megi ekki segja frá óskum sínum). Vil svo við þetta tækifæri þakka öllum þeim sem hafa lesið bloggið mitt, en þeir geta nokkurn vegin hengt sig upp á það (þó ekki í orðsins fyllstu merkingu) að færslur næstu ára verða ekki fleiri en á þessu ári. Alla vega ekki miðað við andleysið þessa dagana!!
Þriðja ástæðan sem mér svo dettur í hug er sú að ég var að klára þýðinguna mína ógurlegu núna um helgina og eitt smáverkefni í dag og því gaf ég mér tíma til að smella inn þessum óskapnaði. Nú er hins vegar komið að smá klukkubloggi, svo ég geti í framtíðinni lesið hjá sjálfum mér hvað á daga mína dreif síðustu vikur.

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið mjög snemma á laugardagsmorgninum 17. nóvember, sótti ég kæra vinkonu mína hana Lilju til þess að taka hana með mér á rjúp norður í Hjaltadal, nánar tiltekið til fyrrum vinnufélaga míns hans Ólafs Sigurgeirssonar. Ólafur þessi er einn af fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar í þættinum Útsvari á RÚV. Leiðin norður gekk hins vegar ekki áfallalaust fyrir sig, þó sérstaklega ekki fyrir hana Lilju. Málið er að Lilja fór í vinnustaðapartý (þó ekki með meizz með sér) kvöldið áður og var á bíl. Ætlaði ekki að fá sér í glas vegna ferðarinnar daginn eftir en vegna þess að hún er dáldið "ginkeypt fyrir vín" (eigið orðatiltæki) gat hún ekki staðist freystingarnar og fékk sér í það minnsta í litlu tærnar. EN til þess að gera langa sögu stutta þurftum við að stoppa í Víðigerði á Víðidal (á malarplaninu) til að Lilja gæti farið út að fá sér frískt loft. Sú ferð endaði með því að það leið yfir hana, hún fékk sár á baki og marði öxl og höfuð. Hún ofandaði greinilega svona greyið að svona fór. Ég hótaði svo að skilja hana eftir á elliheimilinu á Blönduósi ef hún tæki sig ekki saman í andlitinu (sem hún svo og gerði) og var eins og nýsleginn túskildingur eftir einn Sóma á bensínstöðinni á Blönduósi. Ég verð að viðurkenna að þetta var nú frekar skrítin lífsreynsla, að horfa í hliðarspeglinum á þegar líður yfir manneskju en þar sem hún meiddi sig ekki mikið er hægt að segja frá þessu og hlægja líka (mér finnst þetta alla vega frekar fyndið). Veiðiferðin gekk svo bara oggu pínu vel, ég fékk eina rjúpu og svo stoppuðum við Lilja á Pottinum og pönnunni á leiðinni til baka, en þeir eru með útibú á Blönduósi. Það er vel hægt að mæla með þeim stað!!! Þjónustan er góð og maturinn líka og fær því 3* af 5* mögulegum.

Síðasta vika var svo sú síðasta sem ástin mín hún Vaka var á landinu (hún fór aftur út til Odense á sunnudaginn (í gær)). Þessi mánaðardvöl hennar á Íslandi endaði með að verða eldskírn okkar í að búa saman þar sem við vorum allan tímann á T12. Ingimar var svo hjá okkur í viku og ég verð að hrósa Vöku fyrir hversu vel hún tók þeim krass-kúrsi (með öllu því sem fylgir að hafa 4. ára barn "á arminum" allan daginn) og frábært er að sjá hversu hrifinn Ingimar er af henni. Ég gæti alla vega ekki verið hamingjusamari með þau tvö :)

Ætli ég láti þetta ekki bara nægja í bili, er á morgun að fara austur á land til Ömmu á Norðfirði, svo verður haldið til Akureyrar til Magga og Rósu og komið við hjá Stínu frænku og fjölskyldu á sunndaginn. Já það er ljúft að vera í skóla ;)

"Klám", af ráðríki kvenna og svo meira "klám" í tilefni af 299. færslunni á þessu blessaða bloggi





laugardagur, 3. nóvember 2007