Vegna þess að ég tel mig hafa gert árinu góð skil nú þegar á þessari bloggsíðu hef ég ákveðið að gera ekki dæmigerðan "klukku"annál (nema andinn komi yfir mig, en hann kemur þá bara eitthvað síðar), heldur smella inn smá pistli sem ég lagði grunninn að þegar ég sat á Hvids Vinstue við Kongens Nytorv í henni Kaupmannahöfn 17. desember 2007 (klukkan var um 2 e.h.) og sötraði Tuborg Julebrygg á meðan ég beið eftir að ástin mín hún Vaka kæmi til borgarinnar. Fyrir utan Vöku er G-meillinn annars uppfinning ársins 2007 og þakka ég Dagnýju kærlega fyrir að kynna mig fyrir þessu mikla undratæki sem nú eru stór þáttur í mínu lífi :)
Það hefur lengi staðið til að fara á stefnumót "með" Hvít (líkt og pabbi kallaði staðinn sem og fleiri Íslendingar) en flestir þekkja staðinn líklega sem Hvids Vinstue. Þetta var mikill uppáhaldsstaður hans. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll viðkomustaður þystra Íslendinga í gegnum aldirnar, meðal annars mun Jónas Hallgrímsson hafa verið þarna tíður gestur. Staðurinn hefur einnig verið vinsæll hjá Dönum og á veggjum hans hanga margar myndir af frægum gestum staðarins. Eftirfarandi var skrifað þennan umrædda dag, en verst þykir mér þó að ekki fær hin fagra rithönd mín að njóta sín, sem versnaði umtalsvert eftir því sem bjórunum fjölgaði í maga mínum:
"Það er ekki ómerkilegt að sitja á Hvít og sötra Julebrygg, en flestir fá sér þó jólaglögg, sem virðist vera heitasti drykkurinn á köldum eftirmiðdegi í hjarta Kaupmannahafnar við Kóngsins Nýja-Torg. Í dag er 17. desember 2007 og það er ekki laust við að maður sé farinn að kippa (í svona 2-3 tær). Rakastigið í manni er því farið að hækka lítilsháttar en ekki líður manni ver þegar snakkað er á Dönsku allt i kringum mann og atmosfæren er jafn góð og raun ber vitni.
Nú er erfitt að fá þjónustu, staðurinn er orðinn fullur og ég var bara heppinn (nú fyrir 2 klst. síðan) að fá borð, náði nú augnkontakti. Fimmti Tub. Julebrygg liggur brátt í valnum.
Á sama borði og ég sitja bræður (ég hef fundið það út með því að hlera), báðir um áttrætt, og ræða um heyrnartæki. Nánar tiltekið heyrnartæki sem útiloka þrusk og stoj (líkt og danskurinn segir). Það slær svo öðru hverju úti fyrir þeim en þeir ná samt alltaf þræðinum aftur, eftir mis-langan tíma þó :) Þeir hittast greinilega ekki oft, spurningarnar sem þeir spyrja hvorn annan eru þess háttar, en það fer vel á með þeim. Ótrúlega en nú gaman að fylgjast með mannlífinu.
Á næsta borði sitja nokkrir samlandar mínir, og það eru ekki þeir fyrstu sem setjast við það borð síðan ég kom á svæðið. Það er eitthvað í fari þeirra (og þá væntanlega líka í mínu) sem gerir það að verkum að maður spottar þá alltaf í hópnum. Svo ekki sé talað um þegar þeir fara að hefja raust sína, ætli Íslendingar tali hærra en aðrar þjóðir (nema þó kannski ekki hærra en Svíjar). Það er kannski 66°N flíspeysan sem kemur upp um þá líka eða þá allir innkaupapokarnir sem þeir draga á eftir sér, hver veit?
Nú er ég farinn að hugsa mér til hreyfings, Vaka fer að koma með lestinni rúmlega 5. Áður en ég hætti verð ég samt að segja frá því að Dani (á næsta borði) talaði um "vini" mína Íslendingana sem Svía :) Óskaplegt er að við þurfum að vera svona lík Svía-grýlunni ;)
Adju mín kæru,
Kv. einn meir og fullur rétt fyrir jól"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Gaman að lesa hugleiðingar þínar sem rakur og lille bitte sentimental maður á Hvid's stue :) Það var alla vega mjög gaman að hitta þig stuttu eftir að þessar hugleiðingar voru skrifaðar,
kv. önnur í Topp 2 árið 2007
Skemmtileg færsla, ég held ég hafi aldrei komið á Hvít...veit reyndar ekkert hvar það er :oP
Ég held svona btw. að þú sért búinn að missa rétt þinn á því að kvarta yfir blogginu hans Hlyns ;)
hvaða voðaleg lélegheit eru þetta í frammistöðu á bloggfærslum.
Finnst nú að þú ættir nú að taka þig til og gera eitthvað í þessu.
Skrifa ummæli